Færslur: 2014 Nóvember

24.11.2014 14:32

Mögnuð þátttaka í æfingarbúðum SAM-Vest, 63 frjálsíþróttabörn

Æfingabúðir á vegum SAM-Vest samstarfsins voru haldnar þann 21.-22. nóv að Laugum í Sælingsdal. SAM-Vest er samstarfsverkefni nokkurra héraðssambanda á Vesturlandi og Vestfjörðum sem hefur það markmið að efla frjálsíþróttir á litlu svæðunum þar sem frjálsar hafa verið í mikilli lægð. Frjálsar íþróttir hafa átt erfitt uppdráttar vegna smæðar samfélaga, en erfitt að halda uppi íþrótt fyrir 2-3 iðkendur og kosta til þess þjálfara, en nú fjölgar þátttakendum með tilkomu samstarfsins.
Hugmyndin að æfingabúðunum var að þjappa hópnum betur saman en hingað til hafa æfingarnar farið fram á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi. SAM-Vest hefur fengið góða gestaþjálfara á æfingar en Hlynur C. Guðmundsson hefur verið mikill stuðningur hvað þjálfun og leiðbeiningar varðar.

Mæting var klukkan 17:00 á föstudeginum 21. nóv og var byrjað á að koma sér fyrir og fara í æfingagallana en fyrsta æfingin var stýrð af Kristínu Höllu Haraldsdóttur yfirþjálfara en Kristín og Hlynur C. Guðmundsson þjálfari í Mosfellsbæ sáu um æfingarnar.

Farið var í sund báða dagana, fjörug kvöldvaka var haldin á föstudagskvöldinu og krakkarnir voru duglega að nýta sér frjálsan tíma til að kynnast betur.

Dagskrá og skipulagning voru til fyrirmyndar og gekk vonum framar, sérstaklega í ljósi þess að þátttaka fór fram úr björtustu vonum. Alls mættu 63 krakkar í æfingabúðirnar og börnin fóru heim með bros á vör og spurðu ítrekað hvenær næstu æfingabúðir yrðu haldnar.

Frá Ströndum fóru 9 börn í æfingabúðirnar sem er talsverð aukning en í vetur hafa verið milli 20 og 30 börn að æfa frjálsar frá 5 ára aldri til 15 ára. Stærsti hópurinn er 8 ára og yngri. Auk þess hafa 4 börn frá Reykhólum og 2 frá Drangsnesi komið á æfingar enda hefur veðurfar verið mjög gott það sem af er hausti.

Takk fyrir skemmtilega og gagnlega helgi sem og stuðningi allra sem að æfingarbúnunum komu.24.11.2014 14:00

Fimm silfur HSS á Silfurleikum ÍR

Nítjándu Silfurleikar ÍR fóru fram laugardaginn 15. nóvember s.l. í laugardalshöllinni, en Silfurleikar ÍR eru til heiðurs Vilhjálmi Einarssyni sem fékk silfur í þrístökki á ólímpíuleikunum 1956. Rúmlega 600 keppendur hófu keppni og átti frjálsíþróttahópur HSS 5 keppendur.

Sóldís Eva Baldursdóttir, Árný Helga Birkisdóttir og Stefán Þór Birkisson tóku þátt í fjölþraut 8 ára og yngri, sem er þrautabraut með 7 þrautum og  stóðu þau sig einstaklega vel og fengu öll fyrir það silfurpening.

Viktor Elmar Gautason tók þátt í hástökki, 60 m hlaupi og 600 m hlaupi, gekk honum vonum framar en hann náði 2. sæti í 600 m hlaupi. Jamison Ólafur Johnson tók þátt í kúluvarpi, þrístökki og 800 m hlaupi og náði hann einnig 2. sæti í 800 m hlaupi.

Glæsilegur hópur.

21.11.2014 14:15

Afmælifundur HSS

Afmælisfundur HSS fór fram í Félagsheimilinu á Hólmavík miðvikudaginn 19. nóvember.

Fundurinn var góðmennur, árangursríkur og ekki síst skemmtilegur. Skíðafélagið eldaði dýrindissúpu fyrir fundargesti og formaðurinn koma með kökur frá Ísafirði.

Gestkvæmt var á fundinum en fulltrúar frá UMFÍ og ÍSÍ komu færandi hendi og færðu HSS gjafir og buðu upp á fræðslu og hvatningarorð. Auk þess var farið í hópefli og unnið var að því að móta framtíðarsýn héraðssambandsins.

Hér má sjá myndir sem Mundi Páls tók á þessum stórskemmtilega viðburði.

Takk fyrir góða kvöldstund og til hamingju með árin 70!

17.11.2014 14:43

Fótboltamót HSS og Hólmadrangs

Fótboltamót HSS

og HólmadrangsInnanhúsmót í fótbolta verður haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík sunnudaginn 23. nóvember. Mótið hefst kl. 11:00.

Keppt verður í flokkum: 11 ára og yngri (6. bekkur og yngri), 12-14 ára (7.-9. bekkur), 15-18 ára (10.bekkur-18 ára).


Þátttökugjald er kr. 2.200 á hvern leikmann. Innifalið eru pizzur frá Cafe Riis og þátttökuverðlaun fyrir keppendur.

Félagsmiðstöðin Ozon mun selja veitingar á staðnum.

Þátttakendur skrái sig hjá sínum þjálfurum, sem senda skráningar á netfangið [email protected]. Einstaklingar geta einnig skráð sig með sama hætti. Þeim verður raðað í lið á staðnum.


Skráningu lýkur miðvikudaginn 19. nóvember.

 

Krakkar frá félagssvæði USVH (Hvammstanga) og UDN
(Dalir og Reykhólasveit) eru boðnir sérstaklega velkomnir ásamt krökkum á félagssvæði HSS.
 

 

17.11.2014 09:41

Styrkur til þátttöku í æfingabúðum


HSS styrkir þátttakendur í æfingabúðum Samvest

HSS hefur tekið ákvörðun um að styrkja þá einstaklinga sem ætla sér að taka þátt í æfingabúðum Samvest sem fara fram á Laugum í Sælingsdal í Dalabyggð 21.-22. nóvember. 

Um er að ræða æfingabúðir í frjálsum íþróttum fyrir 10 ára (árgangur 2004) og eldri. Mæting að Laugum er kl. 17 á föstudeginum og heimferð áætluð um kl. 16 á laugardeginum. Gert er ráð fyrir að þátttakendur sjái sjálfir um að koma sér á staðinn - eða að héraðssamböndin skipuleggi ferðir.

Aðalþjálfarar verða Kristín Halla Haraldsdóttir úr Grundarfirði og Hlynur Chadwick Guðmundsson frá Aftureldingu í Mosfellsbæ.

Þátttökugjald er 2.500 kr. fyrir hvern þátttakanda (gisting og fæði) en boðið verður uppá kvöldmat á föstudeginum, morgunmat, hádegismat og kaffihressingu á laugardeginum. HSS mun borga helminginn af þessari umferð sem þýðir að aðeins þarf að greiða 1.250 kr. á hvern þátttakanda og þá er allt innifalið.

Skráningarfrestur er til miðvikudagsins 19. nóvember. Það er hægt að skrá á Facebook-síðu Samvest eða hjá Arnari Eysteinssyni hjá UDN á netfangið [email protected] sími 893-9528.

14.11.2014 18:21

70 ára afmæli HSS

HSS 70 ára

Héraðssamband Strandamanna fagnar 70 ára afmæli sínu 19. Nóvember næstkomandi.

 

Að því tilefni er aðildarfélögum, iðkendum, sjálfboðaliðum og stuðningsaðilum ásamt sveitarstjórnarfulltrúum og fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ og öðrum áhugasömum boðið að gera sér glaðan dag saman.

Tímamót sem þessi eru kjörið tækifæri til að líta yfir farinn veg, læra af því sem liðið er og setja stefnuna fyrir komandi kynslóðir.

Fundurinn verður léttur og skemmtilegur og lögð verður áhersla samheldni og skapandi hugmyndavinnu og markmiðssetningu Héraðssambandsins. Tilgangurinn er að þétta raðir áhugafólks um íþróttastarf á Ströndum, skapa samstarfsvettvang og deila hugmyndum að því hvernig gera megi gott starf enn betra.

 

Fundurinn hefst kl. 19:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík og HSS býður þátttakendum fundarins upp á súpu framreidda af Skíðafélagi Strandamanna í tilefni dagsins.

 

Þátttakendur eru hvattir til að skrá sig á netfangið [email protected] ekki síðar en á þriðjudag en skráning er þó ekki nauðsynleg.

Fundurinn er öllum að kostnaðarlausu.

Öll velkomin.

 

Með félagshveðju,

Stjórn HSS

 

14.11.2014 09:14

Samvest Æfingabúðir 21.-22. nóvember

SamVest-samstarfið stendur fyrir æfingabúðum í frjálsum íþróttum fyrir 10 ára (árgangur 2004) og eldri á Laugum í Sælingsdal í Dalabyggð 21.-22. nóvember 2014. 

Mæting að Laugum er kl. 17 á föstudeginum og heimferð áætluð um kl. 16 á laugardeginum. Gert er ráð fyrir að þátttakendur sjái sjálfir um að koma sér á staðinn - eða að héraðssamböndin skipuleggi ferðir (getur verið mismunandi eftir svæðum).

Aðalþjálfarar verða Kristín Halla Haraldsdóttir úr Grundarfirði og Hlynur Chadwick Guðmundsson frá Aftureldingu í Mosfellsbæ.

Þátttökugjald er 2.500 kr. fyrir hvern þátttakanda (gisting og fæði) en boðið verður uppá kvöldmat á föstudeginum, morgunmat, hádegismat og kaffihressingu á laugardeginum. Við stólum á að foreldrar eða aðrir fylgdarmenn fáist í hlutfalli við fjölda þátttakenda frá hverju sambandi.

Gist verður í skólastofum að Laugum. Þátttakendur taka með sér svefnpoka eða annan sængurfatnað, en dýnur eru á staðnum. Einnig þarf að taka með sér sundföt og íþróttaföt (fyrir úti- og inniæfingar) og annan staðalbúnað.

Skráningarfrestur er til miðvikudagsins 19. nóvember. Það er hægt að skrá á Facebook-síðu Samvest eða hjá Arnari Eysteinssyni hjá UDN á netfangið [email protected] sími 893-9528.

Sjáumst hress að Laugum!
Framkvæmdaráð SamVest - UDN
  • 1
Flettingar í dag: 113
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 769
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 89771
Samtals gestir: 6562
Tölur uppfærðar: 1.2.2023 01:19:07