Færslur: 2017 Febrúar

27.02.2017 12:45

Súpufundur á Drangsnesi.

        Fundarboð.

 Súpufundur verður í Félagsheimilinu á Drangsnesi þriðjudaginn 28. feb. kl. 18 stundvíslega.
Dagskrá fundarins:

1.   Elías Atlason frá ÍSÍ kynnir efni frá ÍSÍ og kynnir nýja útgáfu af Felix félagaforriti          íþóttahreyfingarinnar.
2.   Súpa í boði HSS framreidd af Aðalbjörgu Óskarsdóttur og Guðbjörgu Hauksdóttur.
3.   Pistill frá Form. HSS um starfið síðustu misseri og framundan.
4.   Umræður um tillögu umf. Hvatar að skoða sameiningu félaga á svæði HSS.
5.   Önnur mál.

Gestir fundarins frá ÍSÍ verða Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri og Elías Atlason.  Einnig kemur fulltrúi frá UMFÍ.
Hægt verður að spyrja þá spjörunum út um skipulag íþrótta og ungmennafélaga.

Endilega komið öll sem hafið áhuga á þessum málum.

         Með bestu kveðju,                        Vignir Pálsson  form. HSS.


E.S.  Gott væri ef forsvarsmennfélaganna gætuð sent Öllu póst um hve margir mæta frá hverju félagi í kvöld til að auðvelda henni val á stærð súpupottsins.
allaoskars@gmail.com

25.02.2017 20:01

Æfingabúð á Laugum

Æfingabúðir að Laugum 4.-5. mars 2017

 
SamVest stefnir að því að halda æfingabúðir í frjálsum, að Laugum í Sælingsdal, laugard. 4. mars til sunnud. 5. mars. Æfingabúðirnar eru hugsaðar fyrir 10 ára og eldri, þ.e. árgangur 2007 og uppúr (grunn- og framhaldsskólaaldur). 

Mæting er kl. 13 á laugardeginum, foreldrar sjá um að koma börnum sínum á staðinn og sækja þau um miðjan sunnudag. Þátttakendur greiða lágmarksgjald fyrir gistingu og kostnaðarverð fyrir mat og kaffitíma (líklegt að það sé samtals í kringum 5000 kr., nánar auglýst síðar).  
 
Á Laugum er góð aðstaða fyrir hópa, íþróttahús, sundlaug og heitir pottar - fallegt og rólegt umhverfi. Dýnur eru fyrir þau sem gista, en þátttakendur þurfa að koma með svefnpoka/sæng og kodda. Búnaðarlisti og leiðbeiningar verða sendar út síðar.  

Við leggjum upp með fjölbreytta dagskrá, aldursskipt að hluta, með aðfengnum gestaþjálfurum - nánari upplýsingar um það fljótlega.
 
Hvert félag eða samband innan SamVest-svæðisins gerir ráðstafanir til að auglýsa þetta vel á sínu svæði og tekur ákvörðun um það hvaða þjálfarar fara  (komast) með og sjá til þess að sínum þátttakendum fylgi nægur fjöldi fullorðinna, til að halda utan um hópinn. 
 
Inná Facebook-hópi SamVest er að finna skráningarlista - endilega skráið þátttakendur sem fyrst. 
 
Frekari spurningar má senda á bjorgag@gmail.com 
 
Hér má sjá nánar um Lauga - inná vef UMFÍ.
 


15.02.2017 18:47

Bikarmeistari í 9. fl.


Friðrik Heiðar Vignisson og félagar í 9. fl. Vestra urðu Bikarmeistara á sunnudaginn.
Það er áhugaverð spurning hvort þetta sé í fyrsta sinn sem iðkandi innan HSS verður Bikarmeistari í keppni á vegum KKÍ. Lið Geislans á Hólmavík og Kormáks á Hvammstanga varð Íslandsmeistari í 9. fl. stúlkna fyrir nokkrum árum. Spurning hvort einhvert lið innan HSS hafi einhverntíman orðið Bikarmeistari gaman væri að frétta af því. Við fjölskyldan tókum þátt í þessari bikarhelgi KKÍ með öðrum foreldrum og stuðningsmönnum Vestra. Við viljum koma á framfæri kæru þakklæti fyrir skemmtilega helgi. Strákarnir fóru á úrslitaleik í drengjaflokki á föstudagskvöldið, síðan í skoðunarferð um Laugardalshöllina á laugardeginum og síðan á æfingu hjá KR í Frostaskjóli. Þeir fóru síðan á úrslitaleikinn í meistarafl. karla á laugardeginum. Við viljum þakka Yngva þjálfara fyrir flott skipulag þessa helgi.
Vignir Pálsson.

Vestri bikarmeistarar í níunda flokki.

Strákarnir í 9. flokki Vestra komu sáu og sigruðu á bikarhelgi KKÍ um helgina. Drengirnir léku til úrslita á sunnudagsmorgni og mættu sterku liði Valsmanna sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar í þessum aldurshópi. Leikurinn var jafn og spennandi en Vestramenn höfðu sigur 49-60.

Öll umgjörð leiksins var hin veglegasta. Körfuknattleikssamband Íslands á mikið hrós skilið fyrir allt utanumhald Bikarhelgarinnar, ekki síst að gera yngri iðkendum jafn hátt undir höfði og þeim eldri.

Sigurinn er sögulegur því þetta er fyrsti titill hins nýstofnaða fjölgreinafélags Vestra og það á fyrsta starfsári þess. Titillinn er líka sögulegur fyrir þær sakir að þetta er fyrsti stóri titill körfuboltans á Ísafirði síðan 2. flokkur kvenna hjá KFÍ varð Íslandsmeistari árið 1967.

Leikurinn var fjörugur og hart barist enda mikið undir. Segja má að allt hafi verið í járnum megnið af leiknum en undir lok þriðja leikhluta sigu Vestrastrákar framúr, bættu í forystuna og héldu henni út leikinn. Lið Vestra er fremur fámennt en liðsandinn er góður og allir leikmenn leggja sig fram af fullum krafti í þau verkefni sem þeir taka sér fyrir hendur.

Í lok leiks var Hugi Hallgrímsson valinn maður leiksins. Það kom ekki á óvart þegar litið er yfir tölfræðina því hann var með glæsilega þrennu, 18 stig, 20 fráköst og 10 varða bolta. Hilmir Hallgrímsson átti einnig góðan leik og skoraði 25 stig. Blessed Parilla skoraði 7 stig, þar á meðal 3 stiga körfu undir lok leiks sem líklega var náðarhögg Valsmanna. Egill Fjölnisson skoraði 6 stig og reif niður 8 fráköst og Strandamaðurinn sterki Friðrik Heiðar Vignisson skoraði 4 stig og tók 8 fráköst. James Parilla og Oddfreyr Ágúst Atlason, sem formlega eru í 8. flokki, komu einnig við sögu í leiknum en náðu ekki að skora.

Vegna fámennisins æfa og spila drengir hjá Vestra saman í 8. til 10. flokki. Þessi hópur er eitt lið þótt ekki geti þeir keppt saman nema upp fyrir sig í aldri. Eldri drengirnir, sem eru í 10. flokki og áttu heimangengt, fylgdu því liðinu alla helgina og voru á bekknum með því á sjálfum leiknum. Allir eiga þessir strákar þátt í þessum glæsilega sigri enda er það liðsheildin sem skóp hann. Yngvi Gunnlaugsson þjálfari liðsins hefur haldið afar vel utan um það í vetur og undir hans stjórn hafa drengirnir tekið miklum framförum.

Ekki má heldur gleyma þætti þeirra þjálfara sem hafa leiðsagt hópnum í gegnum tíðina. Í því sambandi má sérstaklega nefna Nebojsa Knezevic, sem var aðalþjálfari elstu drengja félagsins þar til s.l. haust þegar Yngvi tók við, og Hákon Ara Halldórsson sem var þjálfari 8. flokksins í fyrra og stýrði strákunum upp í A-riðil Íslandsmótsins. Þeir eiga báðir stóran þátt í þessu afreki. Til fróðleiks má svo geta þess að listinn yfir þá þjálfara, sem kjarninn í hópnum hefur haft í gegnum tíðina, er óvenjulangur miðað við ungan aldur drengjanna. Listinn telur tólf þjálfara en til viðbótar þeim sem nefndir eru hér að ofan eru það: Craig Schoen, Florijan Jovanov, Guðjón Þorsteinsson, Borche Ilievski, Mirko Virijevic, Pétur Már Sigurðsson, Jason Anthony Smith og Kristján Pétur Andrésson. Guðni Guðnason hefur einnig hlaupið í skarðið sem þjálfari drengjanna allar götur frá því að þeir hófu æfingar um sjö ára aldurinn.

Það er sannarlega bjart framundan í körfuboltanum á Ísafirði og ljóst að þessir strákar og fleiri yngri iðkendur félagsins munu láta að sér kveða í framtíðinni.

Áfram Vestri!

14.02.2017 17:44

Pistill frá Siggu Drífu.

Þann 1. febrúar síðastliðinn hófst átakið Lífshlaupið sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og höfðar til allra aldurshópa. Forsaga Lífshlaupsins er sú að árið 2005 skipaði þáverandi menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir starfshóp til þess að fara yfir íþróttmál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu. Starfshópurinn setti fram hugmyndir um mótun íþróttastefnu Íslands í skýrslunni, Íþróttavæðum Ísland, auka þátttöku, breyttur lífsstíll (www.lifshlaupid.is).

            Undanfarin ár hefur orðið töluverð vakning um lýðheilsu á meðal fólks á starfssvæði HSS. Nýting Íþróttamiðstöðvarinnar á Hólmavík hefur margfaldast sérstaklega á meðal fullorðinna einstaklinga. Fólk virðist vera farið að hugsa æ betur um heilsuna, það setur sér markmið allt að því ár fram í tímann um að taka þátt í viðburðum. Fyrirtæki og skólar á svæðinu etja kappi við að ná sem flestum tímum í ýmiskonar íþróttaviðburðum. Flestir sem rætt var við telja að heilsa sín sé betri með markvissri hreyfingu hvort sem farið er einu sinni í viku eða oftar og mismunandi greinar verða fyrir valinu. Í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík eru í boði skipulagðar æfingar sem ungmennafélagið Geislinn heldur utan um en þar má nefna fótbolta, íþróttaskóla fyrir 6-10 ára, leikskólaíþróttir, frjálsar íþróttir, stöðvaþjálfun, körfubolta/handbolta, auk þess sem nýverið byrjaði leikfimi og er farið í teygjur, spennulosun og þol. Eldri iðkendur hafa verið duglegir að mæta í badminton, körfuboltaæfingar, sund og stunda líkamsrækt í Flosabóli sem er lyftingasvæði íþróttamiðstöðvarinnar. Hlaupahópurinn Margfætlurnar halda úti skipulögðum hlaupaæfingum og Skíðafélag Strandamanna verið með skipulagt starf innan sinna raða, má þar nefna línuskautaæfingar sem eru einu sinni í viku og hefur notið mikilla vinsælda á meðal barna. Gönguhópurinn Gunna fótalausa fer í sínar reglulegu hádegisgöngur á þriðjudögum sem eru einfaldar og stuttar göngur og henta öllum, vönum jafnt sem óvönum. Eldri borgarar hafa farið í gönguferðir í hverri viku þegar veður leyfir ásamt því að hittast í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík á föstudögum og stunda boccia.

            Á Drangsnesi er sundlaug með heitum pottum og smá líkamsræktaraðstaða sem fólk hefur verið duglegt að nota. Einnig hafa bæjarbúar sótt íþróttaviðburði á Hólmavík og æfingar hjá skíðafélaginu. Starfsfólk Grunnskólans á Drangsnesi er duglegt að safna tímum í Líflshlaupinu.    

                          Sigríður Drífa Þórólfsdóttir.



  • 1
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25