08.05.2011 14:14
Hadda Borg er íþróttamaður ársins
Á 64. ársþingi HSS sem fram fór á Kaffi Norðurfirði laugardaginn 7. maí var tilkynnt um úrslit í kjöri á Íþróttamanni ársins 2010. Að þessu sinni var það Hadda Borg Björnsdóttir sem hlaut afgerandi kosningu og var því vel að sigrinum komin. Formaður HSS, Vignir Örn Pálsson, afhenti Höddu veglegan farandbikar við þetta tækifæri.
Hadda Borg Björnsdóttir er fædd 1993. Hún náði frábærum árangri í hástökki árið 2010. Hún vann m.a. til gullverðlauna á Unglingalandsmóti og í sínum aldursflokki á Meistaramóti Íslands með því að stökkva yfir 1,61 á báðum mótunum. Þá varð hún í þriðja sæti á Reykjavíkurleikunum í upphafi árs 2011 auk þess að vinna sigur í mörgum greinum á Héraðsmóti í Sævangi.
Héraðssambandið óskar Höddu innilega til hamingju með útnefninguna og hvetur hana til frekari dáða og afreka á komandi árum.