Færslur: 2012 Febrúar

29.02.2012 00:04

Rósi og Sigga með frábæran árangur í HálfVasaStrandamenn voru áfram í eldlínunni í Svíþjóð í dag, en þar fór fram hálf Vasa-ganga, 45 km. að lengd. Þau Rósmundur Númason og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir tóku þátt í göngunni og stóðu sig afskaplega vel. Sigríður var að ganga meira en 20 km. í fyrsta skipti og lauk keppni á 4 klukkutímum, 1 mínútu og 5 sekúndum. 

Alls tóku 198 keppendur þátt í aldursflokki Sigríðar, en hún lenti að lokum í 63. sæti - frábær árangur í fyrstu tilraun við þessa miklu vegalengd. Rósmundur stóð sig ekki síður vel, en hann gekk á 2:58:53 sem er besti tími sem hann hefur náð í HalvVasa til þessa. Alls luku 221 þátttakendur keppni í aldursflokki Rósmundar, en hinn frábæri tími hans dugði honum í 16. sæti í sínum aldursflokki sem er frábært afrek.

Auk þeirra Sigríðar og Rósmundar tók einn annar Íslendingur, Ólafur Jóhannsson úr Garðabæ, þátt í HalvVasan og stóð sig með ágætum í aldursflokki 65-69 ára. 

Við óskum Strandafólkinu okkar innilega til hamingju með FRÁBÆRA göngu og sendum hlýja strauma til þeirra - og hvetjum alla sem þetta lesa til að gera slíkt hið sama!

28.02.2012 15:00

Umg. Geislinn gerir samning við Strandabyggð


Ungmennafélagið Geislinn á Hólmavík skrifaði á dögunum undir samning við sveitarfélagið Strandabyggð. Félagið hefur staðið fyrir öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi á starfssvæði sínu í marga áratugi með ræktun lýðs og lands að leiðarljósi og stendur fyrir æfingum í hinum ýmsu íþróttagreinum allt árið. Samningurinn milli Geislans og Strandabyggðar er til þriggja næstu ára og þar er kveðið á um rekstrarframlag til félagsins auk endurgjaldslausra afnota af húsnæði og íþróttavöllum í eigu sveitarfélagsins. Þá mun Umf. Geislinn taka að sér skipulagningu og framkvæmd á hátíðahöldöm á 17. júní út samningstímabilið, en því hlutverki hefur félagið einmitt sinnt undanfarin ár.

Undir samninginn skrifuðu Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri og Jóhann Áskell Gunnarsson úr stjórn Umf. Geislans. Einnig var Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi og framkvæmdastjóri HSS viðstaddur, en hann sá um samningsgerðina fyrir hönd sveitarfélagsins. HSS óskar Umf. Geislanum til hamingju með samninginn og vonar að hann verði til að efla starf félagsins í framtíðinni.

28.02.2012 09:29

Frábær árangur Strandamanna í UngdomsVasan

Vösk sveit frá Skíðafélagi Strandamanna er nú stödd í Svíþjóð þar sem Vasagangan fornfræga fer fram næsta sunnudag. Fjölmargar skíðagöngur eru haldnar í vikunni fyrir stóru gönguna. Ein af þeim er UngdomsVasa, en hún fór fram sunnudaginn 26. febrúar. Þar kepptu þrír ungir Strandamenn og náðu þau öll frábærum árangri. Branddís Ösp Ragnarsdóttir keppti í flokki 13-14 ára, en sá aldurshópur gengur 7 km. göngu. Branddís endaði í 24. sæti af 73 keppendum á tímanum 24:17. Stefán Snær Ragnarsson, bróðir Branddísar, keppti í flokki 11-12 ára og lauk keppni í 89. sæti af 170 keppendum á tímanum 20:51. Númi Leó Rósmundsson keppti einnig í flokki 13-14 ára og náði aldeilis frábærum árangri, lenti í 18. sæti af 82 keppendum á tímanum 20:20. 

Þess má geta að krakkarnir af Ströndum voru einu íslensku keppendurnir í UngdomsVasa. Á vefsíðu Skíðafélags Strandamanna kemur fram að þau hafi öll verið mjög ánægð með daginn, sól og blíða hafi leikið við þau og göngufæri afar gott.  

Við óskum krökkunum og aðstandendum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur. Einnig sendum við hlýja strauma til Sigríðar Jónsdóttur og Rósmundar Númasonar sem keppa í HalvVasa í dag, þriðjudaginn 28. febrúar, en það er 45 km. ganga. Úrslit úr henni verða birt hér á síðunni um leið og þau liggja fyrir.
 

17.02.2012 08:48

Skíðafélagið gerir samning við Strandabyggð


Nýlega skrifaði sveitarfélagið Strandabyggð undir styrktarsamning við hið öfluga Skíðafélag Strandamanna. Í samningnum, sem er til þriggja ára og gildir því út árið 2014, er kveðið á um árlegan stuðning Strandabyggðar við Skíðafélagið ásamt endurgjaldslausum afnotum af húsnæðisaðstöðu í eigu sveitarfélagsins undir æfingar og aðra viðburði. Skíðafélagið hefur verið sérstaklega öflugt undanfarin ár í að efla veg og vanda skíðaíþróttarinnar á Ströndum, einkum og sér í lagi skíðagöngu. Í þeirri grein á félagið fólk í fremstu röð sem hefur náð góðum árangri á mótum, til dæmis á Andrésar Andar leikunum.

Við undirskrift samningsins kom fram í máli Rósmundar Númasonar, stjórnarmanns í Skíðafélaginu, að félagið stefnir á mikla uppbyggingu í Selárdal á komandi árum. Þar hefur félagið haft aðsetur undanfarin ár til æfinga og mótshalds. Þar á að reisa húsnæði til afnota fyrir iðkendur, hvort sem er við æfingar eða mótshald. Framtíð skíðaíþróttarinnar á Ströndum er því björt.

Frétt og ljósmynd tekin af vef Strandabyggðar.
 

06.02.2012 10:27

Héraðsmót í skíðagöngu tókst vel

Héraðsmót HSS í skíðagöngu fór fram í Selárdal sunnudaginn 5. febrúar. Fyrri helmingur göngunnar var með hefðbundinni aðferð en seinni hlutinn með frjálsri aðferð, tímataka var ekki stöðvuð meðan skipt var um skíði og stafi, en um helmingur keppenda skipti um skíði eftir hefðbundna hlutann. Aðstæður voru góðar í Selárdal, gamall snjór og gott rennsli í góðri braut.

Úrslit mótsins má nálgast á vefsíðu Skíðafélagsins - smellið hér til að sjá úrslitin.

06.02.2012 09:21

Strandamenn gera það gott á Ísafirði

Félagar úr Skíðafélagi Strandamanna gerðu góða ferð til Ísafjarðar nú á laugardaginn, en þar var haldið Vestfjarðamót í skíðagöngu í lengri vegalengdum. Mótið fór fór fram á Seljalandsdal í ágætu veðri, en hiti var rétt yfir frostmarki og nægur snjór á brautinni. Brautin var 10 km. að lengd þannig að þeir sem gengu lengri vegalengdir en það fóru hana tvisvar til þrisvar sinnum.

Þeir Birkir Stefánsson og Ragnar Bragason gerðu sér lítið fyrir og urðu í tveimur efstu sætunum í fjölmennasta flokki og grein mótsins, 30 km. göngu karla 35-49 ára. Þeir félagar voru talsvert langt á undan næstu mönnum. Þá kepptu mæðgurnar Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Branddís Ösp Ragnarsdóttir í 20 og 10 km. göngu og náðu þar fínum árangri.

03.02.2012 19:23

Héraðsmót í skíðagöngu næsta sunnudag

HSS heldur héraðsmót í skíðagöngu sunnudaginn 5. febrúar í Selárdal og hefst mótið kl. 14.  Keppt verður í göngu þar sem fyrst er genginn 1 hringur með hefðbundinni aðferð, skipt um skíði og annar hringur genginn með frjálsri aðferð.  Ekki er skylda að skipta um skíði, heldur má ganga á þeim sömu alla leið.  Keppt er í öllum flokkum og vegalengdir eru þær sömu og í skíðafélagsmótum en sem dæmi ganga karlar 17 ára og eldri 5+5 km og konur 2,5+2,5 km.  Verðlaun verða veitt að göngu lokinni.  Mótið er öllum opið.

ATH. Fréttin hefur verið uppfærð frá því hún birtist fyrst.

03.02.2012 15:10

Félagsmót í skíðagöngu hjá SFS

Þann 22. janúar síðastliðinn var haldið félagsmót í skíðagöngu með frjálsri aðferð hjá Skíðafélagi Strandamanna. Mótið fór fram í ágætis aðstæðum nema illa gekk að troða brautina þar sem snjórinn var mjög blautur og þungur. Þátttaka var ágæt, sérstaklega hjá yngri skíðaköppum sem eru fjölmargir innan Skíðafélagsins, en þar fer fram mjög öflug starfsemi fyrir yngri kynslóðina. 

Úrslit mótsins má nálgast með því að smella hér.

Æfingatöflu Skíðafélagsins fyrir árið 2012 má sjá með því að smella hér.

03.02.2012 08:31

Lífshlaupið komið í gang


Þann 1. febrúar síðastliðinn hófst Lífshlaupið svokallaða, en það er heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ fyrir alla aldurshópa. Leikurinn, sem finna má á vefnum lifshlaupid.is, hvetur landsmenn til að huga að daglegri hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.

Lýðheilsustöð ráðleggur börnum og unglingum að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag. Inn á vef Lífshlaupsins er hægt að velja um þrjár leiðir til að taka þátt í Lífshlaupinu: Ef þú ert 15 ára og yngri getur þú tekið þátt í hvatningarverkefni fyrir grunnskóla. Ef þú ert 16 ára og eldri getur þú tekið þátt í vinnustaðakeppni.

Allir geta tekið þátt í einstaklingskeppni þar sem þátttakendur geta skráð niður sína daglegu hreyfingu allt árið. Hægt er að fylgjast með fjölda þátttakenda, fjölda liða og með þeim árangri sem þátttakendur ná í hverju sveitarfélagi fyrir sig með því að smella á Staðan vinstra megin á vef Lífshlaupsins. 

Við hjá HSS hvetjum sem flesta til að taka þátt í þessum stórskemmtilega leik sem eflir líkama og sál!
 
  • 1
Flettingar í dag: 24
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 769
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 89682
Samtals gestir: 6561
Tölur uppfærðar: 1.2.2023 00:15:19