Færslur: 2011 Júní

27.06.2011 10:38

Frábær árangur Strandamanna á Landsmóti 50+

Keppendur frá HSS gerðu góða ferð á Landsmót 50 ára og eldri sem fór fram á Hvammstanga nú um helgina. Hlaupagarpurinn Rósmundur Númason krækti sér í tvö silfur, annað í 60 metra hlaupi og hitt í 3000 m. hlaupi. Þá náði Rósi einnig í eitt brons í fjallaskokki í flokki 50 ára og eldri. Glæsilegur árangur þarna á ferðinni.

Hjónin Guðmundur Victor Gústafsson og Birna Richardsdóttir kepptu í golfkeppni mótsins og náðu glæsilegum árangri, Guðmundur Victor varð í öðru sæti karla og Birna endaði í þriðja sæti í kvennaflokki.

Stærsti hópurinn frá HSS keppti í bridge og náðu þar ágætum árangri. Önnur sveitin, skipuð þeim Karli Þór Björnssyni, Guðbrandi Björnssyni, Jóni Ólafssyni og Sigfinni lenti í fjórða sæti eftir að hafa verið í verðlaunasæti lengi fram eftir keppninni. Sveit skipuð þeim Ingimundi Pálssyni, Birni Pálssyni, Maríusi Kárasyni og Guðjóni Dalkvist urðu tíunda sæti. 

Ingimundur Pálsson lét sér ekki nægja að keppa í briddsinu. Hann lét bæta sér við í keppni í dráttarvélaakstri á sunnudag og sá hreint ekki eftir því þar sem hann náði öðru sæti með glæsilegum akstri. Í efsta sæti varð Skúli Einarsson bóndi á Tannstaðabakka sem fór villulaust í gegnum brautina.

Við óskum okkar fólki innilega til hamingju með góðan árangur og óskum nágrönnum okkar í USVH einnig til hamingju með vel heppnað mótshald!

23.06.2011 09:39

Enn hægt að skrá sig á landsmót 50+

Fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Hvammstanga um næstu helgi. Vegna fjölmargra fyrirspurna hefur verið ákveðið að áfram verði hægt að skrá sig til leiks á Landsmót UMFÍ 50 +. Keppnisgreinar á mótinu eru: blak, bridds, boccia, badminton, frjálsar íþróttir, fjallaskokk, hestaíþróttir, golf, pútt, línudans, skák, sund, þríþraut, starfsíþróttir (búfjardómar, dráttavélaakstur, jurtagreining, pönnukökubakstur og kökuskeyting). 

Þátttökugjald er 3.000 krónur óháð fjölda greina sem keppt er í. Innifalið í gjaldinu eru frí tjaldstæði í Kirkjuhvammi á Hvammstanga þessa helgi og frítt á alla viðburði sem verða í gangi í tengslum við mótið.

,,Við ákváðum að hafa opið áfram fyrir skráningar vegna fjölda fyrirspurna. Allur undirbúningur fyrir mótið gengur að óskum og allt verður klárt þegar keppendur mæta á staðinn. Við bíðum spennt eftir því að taka á móti keppendum og gestum," sagði Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri Landsmót UMFÍ 50+.  
 
Frétt tekin af umfi.is.
 

20.06.2011 09:54

Síðasti séns til skráningar á Landsmót 50+

Eins og flestir vita verður fyrsta Landsmót 50 ára og eldri haldið nú um næstu helgi á Hvammstanga. Þar verður keppt í fjölmörgum keppnisgreinum, en hægt er að sjá dagskrá og upplýsingar um allar greinarnar með því að smella hér.

Nú þegar hafa tvær vaskar keppnissveitir í bridds skráð sig til leiks á mótinu undir merkjum HSS. Betur má þó ef duga skal og eru Strandamenn hvattir til að skrá sig til leiks og fjölmenna síðan til nágranna okkar um helgina. Skráningarformið er sáraeinfalt, þátttökugjald er aðeins kr. 3000 pr. einstakling og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á mótinu; t.d. spila starfsíþróttir eins og pönnukökubakstur, jurtagrening og dráttarvélaakstur stóra rullu í dagskránni.

Ef menn telja sig þurfa aðstoð við skráningu eða önnur atriði varðandi mótið er velkomið að hafa samband við Arnar í s. 894-1941 eða í netfangið [email protected].

Hér er hægt að skrá sig til leiks, en skráningarfresturinn rennur einmitt út í dag, þann 20. júní. Ekki láta þig vanta á Hvammstanga um næstu helgi! 

08.06.2011 00:48

Hættu að hanga!

Síðasta sunnudag hófst átaksverkefni á vegum UMFÍ sem ber heitið Hættu að hanga! Komdu að hjóla, synda eða ganga!. Verkefnið stendur yfir frá 5. júní til 15. september 2011. Verkefnið fór fyrst af stað á síðasta ári og voru undirtektir góðar. Megintilgangur þess er að hvetja einstaklinga, fyrirtæki, fjölskyldur og hópa til að hreyfa sig og stunda heilbrigða lifnaðarhætti. 

Þátttakendur skrá inn þá hreyfingu sem þeir stunda inn á vefinn ganga.is. Sú hreyfing sem hægt er að skrá er hjóla a.m.k. 5 km, synda 500 m, ganga eða skokka 3 km og ganga á fjöll. Fyrir að hreyfa sig í 30 skipti fá þátttakendur bronsmerki, silfurmerki fyrir 60 skipti og gullmerki fyrir 80 skipti. Einnig eiga þátttakendur kost á öðrum veglegum verðlaunum fyrir þátttöku sína.

Öllum er heimil þátttaka óháð aldri en hægt er að velja milli þátttöku í einstaklingskeppni, hópakeppni eða fyrirtækjakeppni. 

HSS hvetur alla Strandamenn til að taka þátt í verkefninu í sumar og skrá árangur sinn á ganga.is! Hættum að hanga í sumar :)
 

03.06.2011 15:18

Kvennahlaup á Drangsnesi

Eina auglýsta kvennahlaupið á Ströndum í ár fer fram á Drangsnesi, laugardaginn 4. júní og hefst kl. 11:00. Hlaupið verður frá Fiskvinnslunni Drangi og forskráning fer fram í Kaupfélaginu á Drangsnesi. Ekki hafa önnur hlaup verið auglýst á Ströndum í ár.

Yfirskrift Kvennahlaupsins í ár er "Hreyfing allt lífið" og er það unnið í samstarfi við Styrktarfélagið Líf. Mikilvægt er að konur á öllum aldri stundi reglulega hreyfingu, ekki síður á meðgöngu og að henni lokinni. Líf styrktarfélag vinnur að því að styrkja fæðingarþjónustu og kvenlækningar á kvennadeild Landspítalans. Markmiðið er að byggja upp öfluga miðstöð fæðinga og kvenlækninga á Íslandi og mun miðstöðin þjónusta konur og fjölskyldur þeirra. Hægt er að gerast styrktarfélagi Lífs á heimasíðunni www.gefdulif.is
  

03.06.2011 14:54

Skráning hafin á Landsmót 50+Nú er skráning hafin á Landsmót UMFÍ 50+ sem verður haldið á Hvammstanga helgina 24.-26. júní. Gaman væri ef sem flestir myndu taka þátt í fjörinu og fjölmenna á landsmótið hjá nágrönnum okkar þessa helgi.
 
* Skráning og allar upplýsingar um mótið má nálgast á vefnum www.landsmotumfi50.is.
 
* Allir geta tekið þátt í landsmóti 50+ óháð því hvort þeir eru í ungmennafélagi eða ekki.
 
* Þátttökugjald er kr. 3000 pr. einstakling. Gjaldið er óháð fjölda keppnisgreina og innifalið í því er frítt á tjaldsvæðið á Hvammstanga yfir helgina og frír aðgangur á alla viðburði í tengslum við mótið.
 
* Keppnisgreinar á mótinu eru blak, bridds, boccia, badminton, frjálsar íþróttir, fjallaskokk, hestaíþróttir, golf, pútt, línudans, skák, sund, þríþraut og starfsíþróttir (jurtagreining, búfjárdómar, pönnukökubakstur, dráttavélaakstur og kökuskreyting).
 
  • 1
Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 40
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 89651
Samtals gestir: 6560
Tölur uppfærðar: 31.1.2023 23:54:17