Færslur: 2012 Ágúst

29.08.2012 10:05

Göngudagur fjölskyldunnar á Drangsnesi og Hólmavík á fimmtudag

Á morgun, fimmtudaginn 30. ágúst, fer fram Göngudagur fjölskyldunnar á Drangsnesi og Hólmavík. Dagurinn er skipulagður af Ungmennafélögum og er hugsaður sem tækifæri fyrir alla fjölskylduna til að stunda útivist og hreyfingu í hinni fallegu náttúru Stranda. Allir eru hvattir til að taka þátt í þessum skemmtilega degi!

Drangsnes: 
Kl. 17:00 er mæting á tjaldsvæðið á Drangsnesi. Gengið verður á Bæjarfell. Að sjálfsögðu er síðan tilvalið að smella sér í heitu pottana eftir gönguna! Umf. Neisti og Skíðafélag Strandamanna standa fyrir göngunni á Drangsnesi.

Hólmavík:
Kl. 17:30 er mæting við Íþróttamiðstöðina. Gengið verður að Stóru-Grund, annað hvort um Borgirnar eða í gegnum bæinn. Við göngulok verður boðið upp á pylsur og Svala. Umf. Geisli stendur fyrir göngunni á Hólmavík.

Ekki láta þig vanta á Göngudag fjölskyldunnar!

28.08.2012 09:27

Vetraræfingar hjá Umf. Geisla

Umf. Geislinn hefur gefið út æfingatöflu fyrir komandi vetur. Jafnframt kemur fram í tilkynningu frá félaginu að í tilefni af heilsueflingu í septembermánuði í Strandabyggð verður frítt á fótboltaæfingar hjá Geislanum þann mánuð.

Æfingar verður á mánudögum og fimmtudögum:
Kl. 15:00-16:00 - 8.-10. bekkur
Kl. 16:00-17:00 - 1.-4. bekkur
Kl. 17:00-18:00 - 5.-7. bekkur

Þjálfari verður Jóhannes Alfreðsson. Fram kemur í tilkynningu að æfingar verði úti í ágúst á sparkvellinum við grunnskólann, en í september verði æfingar fluttar inn í íþróttahús. Einnig  er sagt að vonandi verði boðið upp á aðrar íþróttagreinar þegar líður á haustið.

Hægt verður að nálgast æfingadagskrána í vetur með því að kíkja á 

20.08.2012 10:34

Stigakeppni félaganna á Héraðsmóti í frjálsum


Eins og fram hefur komið á vefnum okkar vann Umf. Neisti stigakeppni félaganna á Héraðsmóti HSS sem fram fór á Sævangsvelli 15. júlí sl. Full úrslit hafa ekki verið birt formlega (stigastaða í mótaforriti FRÍ er ekki rétt) en hér er gerð bragarbót á því:

1. Neisti - 123 stig
2. Geisli - 115 stig
3. Hvöt - 97 stig
4. Harpa - 31 stig
5. Leifur Heppni - 16 stig
6. Skíðafélag Strandamanna - 12 stig

Við óskum Umf. Neista innilega til hamingju með sigurinn!

20.08.2012 09:01

Vel heppnað barnamót í frjálsum

Barnamót HSS í frjálsum íþróttum fór fram á Kollsárvelli í Hrútafirði í gær. Það var Umf. Harpa sem hélt utan um mótshaldið ásamt HSS. Mótið fór fram í hinu besta veðri og óhætt er að segja að Hrútfirðingar standi mjög framarlega meðal aðildarfélaga HSS hvað varðar aðstöðu og ástand íþróttavallar. Dyggilega hefur verið staðið að uppbyggingu vallarins sem og félagsins undanfarin misseri, eins og má meðal annars sjá hér.

Þrjátíu krakkar á aldrinum 12 ára og yngri tóku þátt í mótinu og skemmtu sér hið besta. Fjölmargir foreldrar og aðstandendur mættu á svæðið, hvöttu krakkana áfram, mældu stökk- og kastlengdir og tóku hlaupatíma. Kvenfélagið Iðunn seldi gómsætar veitingar sem runnu ljúflega ofan í svanga maga.

Að móti loknu var öllum keppendum afhentur þátttökupeningur við hátíðlega athöfn. Einnig var Umf. Neista afhentur bikar vegna sigurs í stigakeppni félaga á Héraðsmóti HSS sem fram fór fyrr í sumar. Systurnar Sigurbjörg og Guðbjörg Ósk Halldórsdætur veittu bikarnum viðtöku.

HSS kann Umf. Hörpu og Hrútfirðingum sínar bestu þakkir fyrir frábæra frammistöðu við mótshaldið. Þá klöppum við keppendum að sjálfsögðu lof í lófa fyrir góða frammistöðu og drengilga framkomu. Myndir frá mótinu munu koma hér inn á síðuna okkar innan skamms.

Öll úrslit mótsins eru komin inn í mótaforrit FRÍ og þau má nálgast með því að smella hér.

17.08.2012 11:01

Úrslit Héraðsmóts öll komin á vefinn

Þá eru loksins öll úrslit frá Héraðsmóti HSS í frjálsum íþróttum sem fram fór á Sævangsvelli fyrr í sumar komin á netið og í mótakerfi Frjálsíþróttasambandsins. Rétt er að benda á að útreikningar kerfisins vegna stigakeppni félaga eru ekki réttir, en Umf. Neisti vann stigakeppni félagana í ár.

14.08.2012 09:26

Góður árangur á Unglingalandsmótinu

Harpa Óskarsdóttir tekur við gulli eftir sigur í spjótkasti - ljósm. VÖP

Mikill fjöldi fólks fór undir merkjum HSS á Unglindalandsmót sem haldið var á Selfossi um verslunarmannahelgina. Mótið var hið stærsta til þessa og þótti takast afskaplega vel. Að vanda var gott samstarf milli HSS og USVH sem deildu tjaldsvæði og áttu einnig sameiginleg lið í fótbolta og körfubolta. Þá var auðvitað smellt upp kaffihlaðborði og grilli.

Ungmennin frá HSS (og foreldrarnir) voru okkur til sóma með drengilegri keppni og góðri frammistöðu. Þeir sem náðu bestum árangri yfir heildina voru þau J. Ólafur Johnson og Harpa Óskarsdóttir. Ólafur náði í brons í 600 m. hlaupi í flokki 13 ára, en hann hljóp á 1:44,22. Hann varð einnig í 6. sæti í spjótkasti með kast upp á 34,44 m.

Harpa, sem var útnefnd efnilegasti íþróttamaður ársins hjá HSS á síðasta ársþingi sambandsins, varð langefst í spjótkasti 14 ára stúlkna. Hún grýtti spjótinu hvorki fleiri né færri en 33,74 m. Harpa varð einnig landsmótsmeistari í stafsetningu og endaði í 7. sæti í kúluvarpi. Frábær árangur hjá þessu unga afreksfólki. Þá varð hið fornfræga FC Lortur, sem vann knattspyrnuna í sínum flokki árið 2011, í 1. sæti af einu liði í fimleikum 18 ára pilta. Í liðinu voru m.a. þeir Benedikt Almar Bjarkason, Ólafur Orri Másson og Magnús Ingi Einarsson.

HSS þakkar öllum þeim sem fóru á landsmótið kærlega fyrir að vera glæsilegar fulltrúar Strandamanna á Suðurlandinu á þessum einstaka viðburði!

13.08.2012 14:52

Umsóknarfrestur vegna Lýðháskóla að renna út


Eins og undanfarin ár styrkir Ungmennafélag Íslands ungt fólk til náms í Lýðháskólum í Danmörku. UMFÍ hefur gert samning við tíu skóla víðs vegar í Danmörku og er styrkurinn háður því að sótt sé um viðkomandi skóla. Allar upplýsingar um skólana má finna með því að smella hér

Umsóknarfrestur fyrir styrk á haustmisseri er til 15. ágúst

Fyrir nám á vorönn skal sækja um fyrir 1. desember. Frekari upplýsingar fást á Þjónustumiðstöð UMFÍ í Sigtúni 42 í síma 568-2929. Senda á styrkumsóknir á netfangið [email protected]

13.08.2012 13:58

Barnamót HSS næsta sunnudag!

Barnamót HSS í frjálsum íþróttum verður haldið á Kollsárvelli í Hrútafirði sunnudaginn 19. ágúst næstkomandi. Mótið hefst kl. 13:00. Dagskrá mótsins má sjá með því að smella hér, en keppnisgreinar eru eftirfarandi:

Börn 8 ára og yngri: 60 m. hlaup, boltakast og langstökk
Börn 9-10 ára: 60 m. hlaup, boltakast og langstökk
Börn 11-12 ára: 60 m. hlaup, kúluvarp (12 ára kasta 3 kg), spjótkast, langstökk og hástökk

Framkvæmdastjóri HSS tekur á móti skráningum á mótið, en einungis verður tekið við skráningum í netfangið [email protected] Skrá þarf þátttöku fyrir kl. 12:00 á hádegi laugardaginn 18. ágúst. Það er Umf. Harpa í Bæjarhreppi sem sér um undirbúning mótsins ásamt HSS.

Kvenfélagið Iðunn verður með veitingasölu á staðnum og hressilegheit svífa yfir vötnum að vanda. Nú er kjörið tækifæri til að láta ólympíudrauminn hefjast, fjölmenna á Barnamótið á Kollsárvelli og hvetja krakkana okkar til dáða!
  • 1
Flettingar í dag: 83
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 769
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 89741
Samtals gestir: 6562
Tölur uppfærðar: 1.2.2023 00:57:47