16.08.2011 09:02

Harpa Óskars gerir það gott



Harpa Óskarsdóttir í Umf. Neista á Drangsnesi er heldur betur að gera það gott þessar vikurnar. Eins og fram hefur komið hér á vefnum varð hún Unglingalandsmótsmeistari í spjótkasti 13 ára stúlkna á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina, en þá kastaði hún spjótinu 31,74 metra.

Viku síðar keppti Harpa síðan á Gaflaranum, stóru frjálsíþróttamóti sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði. Þar bætti hún árangur sinn frá landsmótinu svo um munaði og kastaði spjótinu hvorki meira né minna en 34,80 metra, rúmum ellefu metrum lengra en næsta stúlka og náði fyrsta sætinu næsta auðveldlega. Frábær árangur. Á sama móti varð Harpa í 3. sæti í kúluvarpi í flokki 13 ára með kast upp á 9,74 metra.
 
Hörpu hefur í framhaldi af þessu verið boðið að keppa í spjótkasti Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri sem fram fer um næstu helgi, sunnudaginn 21. júlí. Við óskum Hörpu til hamingju með árangurinn og hvetjum hana til dáða og enn frekari afreka í komandi keppnum!
 
Flettingar í dag: 462
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 1262
Gestir í gær: 71
Samtals flettingar: 313157
Samtals gestir: 32423
Tölur uppfærðar: 7.12.2025 18:03:03