13.09.2011 09:42
Hlaupagikkir á Ströndum standa sig vel
Við lok Hamingjuhlaupsins 2011 - ljósm. Gunnlaugur Júlíusson
Hlaupa- og göngumenningin á Ströndum er í miklum blóma um þessar mundir. Ef vel er að gáð má sjá skokkara, göngufólk og maraþonhlaupara víða þessi misserin, enda kjöraðstæður á Ströndum til hlaupa; falleg náttúra, hreint loft og tiltölulega fáfarnir vegir og slóðar sem henta vel til æfinga. Nokkrir vaskir hlauparar frá Hólmavík hafa tekið þátt í hlaupum á Suðvesturhorni landsins undanfarin misseri.
Í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fór þann 20. ágúst hljóp Kristinn Schram á Hólmavík heilt maraþon á tímanum 4:08:52 og var í 283. sæti af 446 þátttakendum í karlaflokki. Hólmvíkingurinn Rósmundur Númason keppti í hálfmaraþoni og lauk keppni á tímanum 2:14:11. Þá hljóp Ingibjörg Emilsdóttir á Hólmavík 10 km. á tímanum 1:00:25. Sá árangur tryggði henni sæti 805 af 2322 keppendum.
Strandamaðurinn Stefán Gíslason hljóp sitt níunda heila maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Hann lauk keppni á tímanum 3:20:21 og var í 55. sæti í karlaflokki, en þátttakendur þar voru 446 talsins. Stefán hefur að vanda verið afar iðinn við kolann í sumar og hlaupið víða um land. Hægt er að fræðast nánar um hlaup Stefáns á bloggsíðu hans, http://stefangisla.wordpress.com.
Nokkrir brottfluttir Hólmvíkingar tóku einnig þátt og náðu afbragðs árangri. Kolbrún Unnarsdóttir hljóp hálft maraþon á 2:13:38 klst, og í 10 km hlupu m.a. Helena Jónsdóttir á 52:29 mín. og Guðný Guðmundsdóttir á 1:13:48. Tími Helenu dugði henni í 123. sæti sem verður að teljast mjög góður árangur.
Keflvískir Strandamenn gerðu síðan víðreist þann 3. september, en þá fór Reykjanesmaraþonið fram. Þar hljóp Ingibjörg Emilsdóttir 10 km. og bætti hún tíma sinn úr Reykjavíkurmaraþoninu um tæpar þrjár mínútur, hljóp á 57 mínútum og 35 sekúndum. Inga varð í 14. sæti af 33 keppendum í kvennaflokki. Marsibil Freymóðsdóttir hljóp 10 km. á tímanum 1:10:08 og lenti í 29. sæti, en þetta var í fyrsta skipti sem Marsibil tekur þátt í svo löngu hlaupi. Kolbeinn Skagfjörð Jósteinsson keppti í 10 km. karla og hljóp á 56 mínútum og 6 sekúndum sem dugði honum í 21. sæti.
Hér með eru Strandamenn hvattir til að taka fram strigaskóna og skella sér út að ganga, skokka og hlaupa!
HSS-vefurinn vill gjarnan fá sendar fréttir eða ábendingar af iðkun eða afrekum Strandamanna á íþróttasviðinu. Senda má ábendingar í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.
HSS-vefurinn vill gjarnan fá sendar fréttir eða ábendingar af iðkun eða afrekum Strandamanna á íþróttasviðinu. Senda má ábendingar í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01