06.03.2012 09:11
Strandamenn rúlluðu upp Vasa-göngunni
Nú hafa allir keppendur af Ströndum lokið skíðagöngum í Svíþjóð, en þar fór
hin eina og sanna Vasaganga fram á sunnudaginn. Eins og skýrst hefur verið frá
hér á vefnum hefur okkar fólk náð úrvals árangri undanfarna viku. Á því varð
engin breyting um helgina.
Á föstudaginn tók Númi Leó Rósmundsson þátt í SkejtVasa, en það er 30 km
löng ganga með frjálsri aðferð frá Oxberg til Mora. Númi stóð sig afskaplega
vel, gekk kílómetrana þrjátíu á 1:38:54 og lenti í 114. sæti af 228 keppendum.
Ekki var keppt í aldursflokki Núma í keppninni þar sem yngsti aldursflokkurinn
var 17-18 ára.
Á sunnudaginn fór síðan Vasagangan fram, en í henni eru gengnir 90
kílómetrar. Gangan er því mikil þolraun, en okkar menn gerðu engu að síður
frábæra hluti. Rósmundur Númason gekk sína fjórðu Vasagöngu og lauk henni á
tímanum 6:54:57, en það er hans langbesti tími í göngunni til þessa. Rósmundur
varð í 364. sæti í sínum aldursflokki, en þar luku alls 878 manns keppni. Ragnar
Bragason gekk Vasagönguna í annað skipti og bætti sinn fyrri tíma umtalsvert.
Ragnar lauk keppni á tímanum 6:08:09 og var í 783. sæti í sínum aldursflokki, en
þar kepptu hvorki fleiri né færri en 1.730 manns - þar á meðal sigurvegari
keppninar í ár, Jörgen Brink hinn sænski sem nú sigraði þriðja árið í röð.
Héraðssambandið óskar göngufólkinu okkar innilega til hamingju með frábæran
árangur og minnir jafnframt á Strandagönguna sem fer fram laugardaginn 17. mars
nk.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01