19.03.2012 10:41

Frábær þátttaka í Strandagöngunni

Í startholunum. Ljósm. tekin af Munda Páls - tékkið á fleiri myndum á 123.is/mundipals!

Á laugardaginn fór hin árvissa Strandaganga fram í Selárdal. Skráðir keppendur voru 84 talsins en alls luku 79 keppni. Því er ljóst að Strandagangan í ár er með þeim allra fjölmennustu sem haldnar hafa verið. Veðrið setti nokkurt mark á gönguna, en talsverður skafrenningur og éljagangur var í upphafi göngunnar, en norðvestan strekkingur var og fjögurra stiga frost sem beit í kinnar keppenda. Þegar leið á gönguna lægði mikið og þá hætti að skafa í brautina. Færið var því ekki eins og best verður á kosið, en menn létu það ekki á sig fá og börðust áfram í færðinni.

Langfyrstur í mark í 20 km göngu karla var Brynjar Leó Kristinsson frá Akureyri. Brynjar fékk því Sigfúsarbikarinn til varðveislu næsta árið, en hann er gefinn í minningu Sigfúsar Arnar Ólafssonar heilsugæslulæknis á Hólmavík til margra ára og frumkvöðuls að stofnun Skíðafélagsins. Fyrst kvenna í mark í 20 km var Stella Hjaltadóttir frá Ísafirði. Á vefsíðu Skíðafélags Strandamanna má nálgast öll úrslit göngunnar, en þar koma jafnframt fram þakkir frá félaginu til keppenda fyrir góða frammistöðu við erfiðar aðstæður, starfsmanna göngunnar fyrir vel unnin störf, KSH fyrir stuðning við gönguna og til kvenkosta sem sáu um stórglæsilegt kaffihlaðborð að lokinni keppni.

 
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01