17.04.2012 12:58
Öflugt starf árið 2011 hjá Umf. Hörpu
Á Kollsárvelli, ljósm. Guðbjörg Jónsdóttir
Nú líður að ársþingi HSS, en það verður haldið á Borðeyri sunnudaginn 6.
maí nk. og hefur verið boðað með pósti til aðildarfélaga sambandsins.
Ársskýrslur eru þegar farnar að berast frá félögunum. Félagið sem stendur á
bakvið ársþingið í ár og tekur á móti gestum er Umf. Harpa í Bæjarhreppi.
Ungmennafélagið var stofnað árið 1925 og hefur æ síðan verið styrk stoð í
samfélaginu í Hrútafirðinum. Hér fyrir neðan gefur að líta brot úr ársskýrslu
Umf. Hörpu fyrir árið 2011, en það var viðburðaríkt og skemmtilegt ár hjá
félaginu.
Þorrablót 2011
Árlegt þorrablót Ungmennafélagsins Hörpu og Kvenfélagsins Iðunnar var
haldið í skólahúsinu á Borðeyri 19. febrúar. Ágæt mæting var á blótið. Dansinn
stóð langt fram á nótt og hljómsveit Skúla á Tannstaðabakka hélt upp fjörinu.
Íþróttaæfingar
Æfingar félagsins hófust fyrri part júnímánaðar og voru haldnar á
Kollsárvelli. Bæði frjálsíþróttaæfingar og fótboltaæfingar voru í boði.
Fótboltaæfingar voru á fimmtudögum. Frjálsíþróttaæfingar voru á
þriðjudögum. Þjálfarar voru:
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, frjálsar
Alexandra Rán Hannesdóttir og Kári Ragnarsson, fótbolti
Goggi galvaski
Arna Sól Mánadóttir í Hörpu keppti í spjótkasti í flokki stúlkna 13-14 ára.
Hún náði mjög góðum árangri og kastaði spjótinu 29,33 m, sem skilaði henni 2.
sætinu. Goggi galvaski er frjálsíþróttamót fyrir 14. ára og yngri. Mótið var
haldið á Varmárvelli í Mosfellsbæ 1. júlí.
Héraðsmót HSS
Héraðsmót HSS var haldið á Sævangsvelli 23. júlí. 13 keppendur tóku þátt
fyrir hönd félagsins. Umf. Harpa var í 2. sæti í stigakeppni félaga á eftir
Geislanum frá Hólmavík. Mjög góður árangur. Fyrir neðan er listi yfir keppendur
félagsins á mótinu.
Unglingalandsmót 2011
Unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Egilsstöðum 29-31 júlí. Keppt var í 11
greinum. Nokkrir félagar í Hörpu kepptu á mótinu, í frjálsum, fótbolta,
körfubolta og fleiru. Líkt og undanfarin ár höfðu HSS og USVH samstarf með sér í
kringum mótið og mynduðu sameiginleg lið í hópíþróttagreinum, t.d. körfubolta og
fótbolta.
Jólasveinn félagsins
Fyrir jólin 2011 kom sú hugmynd upp að félagið fengi einn sniðugan
jólasvein til að koma jólagjöfum til ungmenna í sveitinni. Jólasveinninn síkáti
safnaði saman jólagjöfum og dreifði þeim um sveitina, börnum, ungmennum og öðrum
til ánægju. Samstarf jólasveinsins og Hörpu tókst vel upp. Góðar líkur eru á því
að hóað verði í jólasveinninn fyrir næstu jól til áframhaldandi samstarfs.
Lokaæfing sumarsins og grill
Sumarstarfi félagsins lauk formlega með lokaæfingu og grillveislu á
Kollsárvelli þann 17. ágúst. Eftir skemmtilega æfingu voru pylsur grillaðar
fyrir iðkendur og aðra sem mættu.
Stjórn UMF Hörpu þakkar iðkendum, keppendum og öðrum félagsmönnum fyrir
árið 2011 og vonar að árið 2012 verði gott og gæfuríkt.
Ritað í apríl 2012,
Jón Pálmar Ragnarsson, formaður
Ingimar Sigurðsson, ritari
Alda Berglind Sverrisdóttir, gjaldkeri
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01