07.05.2012 22:46

Vel heppnað 65. ársþing HSS


Héraðssamband Strandamanna hélt 65. ársþing sambandsins í Tangahúsinu á Borðeyri sunnudaginn 6. maí. Hátt í þrjátíu manns frá fimm aðildarfélögum mættu á þingið auk góðra gesta, þeirra Líneyjar Rutar Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ, Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ og Stefáns Skafta Steinólfssonar stjórnarmanns í UMFÍ. Umf. Harpa í Bæjarhreppi tók vel á móti gestum og fóru allir pakksaddir heim eftir veglegt kaffihlaðborð að hætti heimamanna.



Starf sambandsins hefur verið að þróast nokkuð og breytast síðastliðið ár eftir að Arnar Snæberg Jónsson var fenginn til að annast framkvæmdastjórn, en sambandið hefur ekki haft framkvæmdastjóri í heils árs vinnu í allmörg ár. Margt var rætt á þinginu og meðal annars var samþykkt ályktun um að HSS mundi senda inn umsókn um að halda Landsmót 50 ára og eldri árið 2014, en þá á sambandið einmitt 70 ára afmæli.



Þá var ákveðið að ráðast í gagngera endurskoðun á lögum og reglugerðum sambandsins, en þau eru að miklu leyti orðin barn síns tíma. Mótaskrá fyrir sumarið ar einnig ákveðin og samþykkt að halda haustfund í október, en slíkt er nýnæmi í starfi sambandsins.



Líney Rut kom færandi hendi og afhenti heiðursmerki; Magnús Steingrímsson á Stað í Steingrímsfirði fékk silfurmerki ÍSÍ og Jóhann Björn Arngrímsson á Hólmavík var sæmdur gullmerki fyrir áralangt starf í þágu hreyfingarinnar. Þá var Rósmundur Númason í Skíðafélagi Strandamanna útnefndur íþróttamaður ársins eftir spennandi kosningu og Harpa Óskarsdóttir í Umf. Neista á Drangsnesi var valin efnilegasti íþróttamaðurinn, en hún hefur náð frábærum árangri í spjótkasti og skíðagöngu á árinu.



Skíðafélag Strandamanna fékk afhentan UMFÍ-bikarinn svokallaða annað árið í röð, en bikarinn er afhentur einstaklingi eða félagi sem þykir hafa skarað fram úr á starfsárinu. 



Héraðssambandið þakkar öllum gestum, fulltrúum og ekki síst gestgjöfunum í Umf. Hörpu kærlega fyrir vel heppnað ársþing! Með því að smella hér má sjá fjölmargar myndir frá ársþinginu, teknar af Ingimundi Pálssyni.

Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01