08.05.2012 08:15
Harpa Óskarsdóttir kjörin efnilegasti íþróttamaður HSS
Á ársþingi HSS var í fyrsta skipti útnefndur efnilegasti íþróttamaður ársins hjá sambandinu, en reglugerð um kosninguna var samþykkt í fyrra. Allir formenn aðildarfélaga kjósa sem og stjórn HSS. Kosningin um efnilegasta íþróttamanninn miðast við að viðkomandi hafi orðið 12 ár á árinu, en engin efri aldursmörk eru sett (það er aldrei of seint að byrja).


Þessir fengu atkvæði:
Arna Sól Mánadóttir
Branddís Ösp Ragnarsdóttir
Hadda Borg Björnsdóttir
Halldór Víkingur Guðbrandsson
Harpa Óskarsdóttir
Jamison Ólafur Johnson
Númi Leó Rósmundsson
Trausti Rafn Björnsson
Í þriðja sæti varð Branddís Ösp Ragnarsdóttir, skíðagöngukona með meiru, með 9 stig. Í öðru sæti varð Númi Leó Rósmundsson í Skíðafélagi Strandamanna með 17 stig. Í fyrsta sæti varð Harpa Óskarsdóttir spjótkastari og skíðakappi í Umf. Neista og Skíðafélagi Strandamanna með 25 stig.

Harpa Óskarsdóttir er fædd árið 1998. Hún varð unglingalandsmótsmeistari árið 2011 í flokki 13 ára með því að kasta spjótinu 31,74 m. Harpa bætti þennan árangur á frjálsíþróttamótinu Gaflaranum viku síðar,
en þar átti hún kast upp á 34,80 metra og náði fyrsta sætinu næsta auðveldlega.
Á sama móti varð Harpa í 3. sæti í kúluvarpi í flokki 13 ára með kast upp á 9,74
metra. Í framhaldi af þessum árangri var henni boðið að keppa í Bikarkeppni FRÍ
15 ára og yngri þar sem hún lenti í þriðja sæti. Þá vann Harpa kúluvarp og
spjótkast á Héraðsmóti HSS í júlí svo fátt eitt sé nefnt.

Harpa var í þriggja manna hópi skíðagöngukrakka af Ströndum sem fóru í
æfingabúðir til Noregs í desembermánuði. Hún varð í fyrsta sæti í skíðagöngu með
frjálsri aðferð á Andrésar andar leikunum og á sama móti var hún hluti af
frækinni boðgöngusveit sem lenti í öðru sæti í flokki 12-14 ára. Harpa hefur
verið virk í starfi Skíðafélagsins, stundað æfingar og keppnir af kappi.
HSS óskar Hörpu innilega til hamingju með útnefninguna og hvetur hana til
dáða og afreka á komandi árum!
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01