14.05.2012 10:55
Frábær girðingardagur hjá Umf. Hörpu - myndir
Starfsemi ungmennafélagana á Ströndum er sannarlega fjölbreytt og skemmtileg.
Ungmennafélagið Harpa í Bæjarhreppi er eitt aðildarfélaga HSS, rótgróið félag
með kraftmikið fólk í brúnni. Sunnudaginn 29. apríl mætti góður hópur öflugra
félaga og girtu í kringum íþróttavöll félagsins við Kollsá í Hrútafirði. Allar
fullkomnustu vinnuvélar á svæðinu voru virkjaðar í þágu þessa verkefnis, en
girðingin er nærri því 500 metra löng í það heila og tryggir að völlurinn verður
ekki fyrir ágangi sauðfjár í náinni framtíð - ekki nema allra djörfustu
skjátanna! Það tók um sjö klukkutíma að klára verkefnið, en Ungmennafélagið bauð
síðan girðingameisturum og aðstoðarmönnum uppá grillaðar pulsur og svala við
verklok.
Kaupfélagið og sláturhúsið á Hvammstanga gáfu Ungmennafélaginu efni í
300 metra girðingu. Ungmennafélagið vill koma kæru þakklæti á framfæri til
þessara aðila sem og allra sem tóku þátt í Girðingardeginum. Að sögn Ingimars
Sigurðssonar í stjórn Umf. Hörpu var þessi dagur sérstaklega vel heppnaður og
vel til þess fallinn að efla starfsemi félagsins og gera hana skemmtilegri.
Ljósmyndir: Ingimar Sigurðsson
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01