12.06.2012 12:43
Skákhátíð á Ströndum - allir að taka þátt!
Skákíþróttin á góðar rætur á starfssvæði HSS á Ströndum. Undanfarin ár hafa
að vísu ekki verið haldin Héraðsmót í skák, en það gæti staðið til bóta á
komandi starfsári. Hins vegar er öllum Strandamönnum boðið að taka þátt í
Skákhátíð á Ströndum sem fer fram um allar Strandir helgina 22.-24. júní nk. Að
minnsta kosti þrír stórmeistarar munu leika listir sínar á Skákhátíð á Ströndum
2012. Helgi Ólafsson, Djúpavíkurmeistari 2008 og 2009, Jóhann Hjartarson
Djúpavíkurmeistari 2010 og Stefán Kristjánsson, yngsti stórmeistari okkar, sem
nú kemur á Strandir í fyrsta sinn.
Hátíðin hefst í Bragganum á Hólmavík kl. 16:00 föstudaginn 22. júní, þegar
Róbert Lagerman skákmeistari teflir fjöltefli við heimamenn. Um kvöldið er svo
hið vinsæla tvískákarmót á Hótel Djúpavík. Laugardaginn 23. júní er komið að
stórmóti í samkomuhúsi Trékyllisvíkur: Afmælismóti Róberts Lagerman, en hann
verður fimmtugur síðar í sumar. Ljóst er að þar verður hörð barátta um titilinn,
og skemmtilegt mót í uppsiglingu. Sunnudaginn 24. júní verður svo að vanda keppt
um titil Norðurfjarðarmeistara í Kaffi Norðurfirði, sem tvímælalaust er með
notalegustu kaffihúsum landsins.
Auk taflmennskunnar verður efnt til fótboltaleiks gesta og heimamanna úr
UMF Leifi heppna, efnt til brennu í fjörunni, svo nokkuð sé nefnt. Síðast en
ekki síst gefst gestum hátíðarinnar kostur á að skoða landsins fegurstu og
afskekktustu sveit.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01