14.08.2012 09:26
Góður árangur á Unglingalandsmótinu
Harpa Óskarsdóttir tekur við gulli eftir sigur í spjótkasti - ljósm. VÖP
Mikill fjöldi fólks fór undir merkjum HSS á Unglindalandsmót sem haldið var
á Selfossi um verslunarmannahelgina. Mótið var hið stærsta til þessa og þótti
takast afskaplega vel. Að vanda var gott samstarf milli HSS og USVH sem deildu
tjaldsvæði og áttu einnig sameiginleg lið í fótbolta og körfubolta. Þá var
auðvitað smellt upp kaffihlaðborði og grilli.
Ungmennin frá HSS (og foreldrarnir) voru okkur til sóma með drengilegri
keppni og góðri frammistöðu. Þeir sem náðu bestum árangri yfir heildina voru þau
J. Ólafur Johnson og Harpa Óskarsdóttir. Ólafur náði í brons í 600
m. hlaupi í flokki 13 ára, en hann hljóp á 1:44,22. Hann varð einnig í 6. sæti í
spjótkasti með kast upp á 34,44 m.
Harpa, sem var útnefnd efnilegasti íþróttamaður ársins hjá HSS á síðasta
ársþingi sambandsins, varð langefst í spjótkasti 14 ára stúlkna. Hún grýtti
spjótinu hvorki fleiri né færri en 33,74 m. Harpa varð einnig landsmótsmeistari
í stafsetningu og endaði í 7. sæti í kúluvarpi. Frábær árangur hjá þessu unga
afreksfólki. Þá varð hið fornfræga FC Lortur, sem vann knattspyrnuna í sínum
flokki árið 2011, í 1. sæti af einu liði í fimleikum 18 ára pilta. Í liðinu voru
m.a. þeir Benedikt Almar Bjarkason, Ólafur Orri Másson og Magnús Ingi Einarsson.
HSS þakkar öllum þeim sem fóru á landsmótið kærlega fyrir að vera
glæsilegar fulltrúar Strandamanna á Suðurlandinu á þessum einstaka
viðburði!
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01