20.08.2012 09:01
Vel heppnað barnamót í frjálsum
Barnamót HSS í frjálsum íþróttum fór fram á Kollsárvelli í Hrútafirði í gær. Það var Umf. Harpa sem hélt utan um mótshaldið ásamt HSS. Mótið fór fram í hinu besta veðri og óhætt er að segja að Hrútfirðingar standi mjög framarlega meðal aðildarfélaga HSS hvað varðar aðstöðu og ástand íþróttavallar. Dyggilega hefur verið staðið að uppbyggingu vallarins sem og félagsins undanfarin misseri, eins og má meðal annars sjá hér.
Þrjátíu krakkar á aldrinum 12 ára og yngri tóku þátt í mótinu og skemmtu sér hið besta. Fjölmargir foreldrar og aðstandendur mættu á svæðið, hvöttu krakkana áfram, mældu stökk- og kastlengdir og tóku hlaupatíma. Kvenfélagið Iðunn seldi gómsætar veitingar sem runnu ljúflega ofan í svanga maga.
Að móti loknu var öllum keppendum afhentur þátttökupeningur við hátíðlega athöfn. Einnig var Umf. Neista afhentur bikar vegna sigurs í stigakeppni félaga á Héraðsmóti HSS sem fram fór fyrr í sumar. Systurnar Sigurbjörg og Guðbjörg Ósk Halldórsdætur veittu bikarnum viðtöku.
HSS kann Umf. Hörpu og Hrútfirðingum sínar bestu þakkir fyrir frábæra frammistöðu við mótshaldið. Þá klöppum við keppendum að sjálfsögðu lof í lófa fyrir góða frammistöðu og drengilga framkomu. Myndir frá mótinu munu koma hér inn á síðuna okkar innan skamms.
Öll úrslit mótsins eru komin inn í mótaforrit FRÍ og þau má nálgast með því að smella hér.
Öll úrslit mótsins eru komin inn í mótaforrit FRÍ og þau má nálgast með því að smella hér.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01