13.11.2012 10:06
Frábært tækifæri - frjálsíþróttaæfing í Laugardalshöll
Héraðssamböndin UDN, HSH, UMSB, HSS og HHF ásamt
Ungmennafélaginu Skipaskaga og Ungmennafélagi Kjalnesinga hafa undanfarið mótað
samstarf sín á milli með það að markmiði að efla frjálsíþróttastarf á svæðinu.
Við höfum nú fengið tíma í hinni glæsilegu frjálsíþróttaaðstöðu í Laugardalshöll í Reykjavík, laugardaginn 24. nóvember nk. og stefnum að sameiginlegri æfingaferð með frjálsíþróttafólkið okkar. Verið er að ganga frá ýmsum framkvæmdaratriðum sem verða kynnt betur innan skamms, en eftirfarandi er þó ákveðið um ferðina:
- Hugsað fyrir þátttakendur 10 ára (árgangur 2002) og eldri.
- Þjálfarar á starfssvæðinu munu sjá um þjálfun, en jafnframt höfum við óskað eftir gestaþjálfurum og fleiri góðum gestum inn á æfinguna til okkar.
- Æfðar verða flestar greinar, s.s. spretthlaup, langstökk, hástökk, kastgreinar og jafnvel stangarstökk o.fl.
- Dagskráin samanstendur af hittingi fyrir æfingu, æfingu frá ca. 14-16 og sameiginlegri sundferð eða öðru fyrir heimferð.
Kæru iðkendur og foreldrar! Þessi æfingaferð er mikilvægt skref í samstarfi sem getur skilað okkur umtalsverðum ávinningi og skemmtilegri reynslu.
Þeir sem hafa áhuga á að fara af Ströndum á þennan frábæra viðburð ættu endilega að láta vita sem allra fyrst um þátttöku. Skráningar þurfa að berast til Arnars Jónssonar, framkvæmdastjóra HSS, í tölvupósti á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða í s. 894-1941 í síðasta lagi þriðjudaginn 20. nóvember.