17.01.2013 15:44
Ingibjörg Emilsdóttir er íþróttamaður Strandabyggðar
Í gær var tilkynnt á íþróttaháríð Grunnskólans á Hólmavík hver var valinn Íþróttamaður ársins 2012 í Strandabyggð, en tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd sá nú um valið í fyrsta sinn samkvæmt nýjum reglum. Þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið sjálft hefur slíkt val á sínum snærum, en Íþróttafélag lögreglunnar á Hólmavík valdi íþróttamenn áranna 2008 og 2009, Guðjón Þórólfsson og Birki Þór Stefánsson. Áfram var notaður bikar sem lögreglan gaf árið 2008.
Að þessu sinni varð Ingibjörg Emilsdóttir hlaupakona og aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Hólmavík fyrir valinu. Ingibjörg er fædd árið 1975. Hún hefur unnið mikið og gott starf í þágu hlaupaíþróttarinnar í Strandabyggð. Í umsögn um hana segir að hún sé dugleg, hvetjandi og frábær fyrirmynd. Auk þess að æfa og keppa hefur Ingibjörg smitað marga af hlaupabakteríunni og m.a. haft umsjón með hlaupahópi fólks á öllum aldri sem æfir í viku hverri. Ingibjörg hljóp m.a. hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og 17 km í Hamingjuhlaupinu svo fátt eitt sé nefnt.
Við val á Íþróttamanni ársins er horft til árangurs á árinu, auk þess sem litið er til reglusemi, ástundunar, prúðmennsku, framfara og þess að viðkomandi aðili sé góð fyrirmynd í hvívetna.