15.07.2013 20:37
Góður árangur Strandamanna.
Mér datt í hug að benda ykkur á aldeilis frábæra frammistöðu Birkis í Tungu í Laugavegshlaupinu sl. laugardag, en Birkir var eini þátttakandinn af Vestfjarðakjálkanum ef marka má skráð póstnúmer þátttakenda. Birkir var að hlaupa Laugaveginn í fyrsta sinn, lauk hlaupinu á 6:11:50 klst. og hafnaði í 35. sæti af þeim 272 sem luku hlaupinu, en í 16. sæti af 81 í flokki 40-49 ára. Þessi árangur er í raun ótrúlegur miðað við að þetta var fyrsta hlaupið, undirbúningurinn takmarkaður og aðstæður ekki ákjósanlegar. Talsverð rigning var á meðan hlaupið fór fram, sérstaklega seinni partinn. Fremur svalt var í veðri og víða talsverður snjór á leiðinni.
Sjálfum gekk mér líka alveg skínandi vel. Þetta var annað Laugavegshlaupið mitt, en ég hljóp líka sumarið 2007, þ.e.a.s. árið sem ég varð fimmtugur. Þá lauk ég hlaupinu á 6:40:50 klst, en bætti þann tíma verulega núna, niður í 5:52:33 klst. Þetta dugði til að vinna yfirburðasigur í flokki 50-59 ára, en í þeim flokki voru samtals 38 hlauparar. Í heildina varð ég nr. 23.
Bestu kveðjur úr Borgarnesi,
Stefán Gíslason