04.02.2014 11:08
Sigrar á nýju ári
Ýmis afrek hafa unnist af íþróttafólki í Héraðssambandi Strandamanna á þessu ári, jafnvel þótt glænýtt sé.
Á Unglingameistaramóti Ísland í frjálsum íþróttum í janúar kepptu bæði Jamison Ólafur og Trausti Rafn en Jamison hlaut silfurverðlaun í 800 metra hlaupi í flokki drengja. Á stórmóti ÍR hlaut Jamison sömu verðlaun auk bronsverðlauna í þrístökki, grein sem hann hafði aldrei prufað áður. Á sama móti kepptu Bríanna og Friðrik Heiðar og stóðu sig með ágætum.
Fyrsta Íslandsgangan var haldin á Akureyri 25. janúar þar sem Birkir hafnaði í 3. sæti í flokki 35-49 í 24 km göngu en Árný Helga og Stefán Þór Birkisbörn tóku þátt í 4 km göngu. Sunnudaginn 26. janúar var Fjarðargangan haldin á Ólafsfirði þar sem Birkir lenti í 2. sæti í sínum flokki í 20 km göngu og Árný Helga og Stefán Þór tóku þátt í 2,5 km göngu í blíðskapar veðri.
25. janúar fór einnig fram beltapróf í Taekwondo deild Geislans á Hólmavík þar sem fjölmargir spreyttu sig í prófum til að öðlast gula rönd eða gult belti og stóðu sig með stakri prýði.
Tækifærunum til afreka fer ekki fækkandi á næstunni. Að vanda verður badmíntonmót um góuhelgi, borðtennismót á laugardegi um páska, bridsmót 1. maí og héraðsmót á skíðum verður að sjálfsögðu á sínum stað. Strandagangan verður enn fremur í 20. skiptið þann 15. mars. Takið dagana frá og til hamingju með nýtilkomin og tilvonandi afrek!