20.02.2014 09:10

Fréttir frá ÍSÍ

  Fréttapunktar frá ÍSÍ

Íþróttaþing ÍSÍ

Íþróttaþing ÍSÍ fór fram á Icelandair Hótel Reykjavík Natura dagana 19.-20. apríl 2013.  Ólafur E. Rafnsson var endurkjörinn forseti sambandsins.  Aðrir í stjórn voru kjörnir Gunnar Bragason, Lárus L. Blöndal, Sigríður Jónsdóttir, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Friðrik Einarsson, Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir, Garðar Svansson, Hafsteinn Pálsson, Örn Andrésson og Jón Gestur Viggósson. Í varastjórn voru kjörnir Ingi Þór Ágústsson, Guðmundur Á. Ingvarsson og Gunnlaugur Júlíusson.

 

Forsetaskipti

Þann 19. júní 2013 varð Ólafur E. Rafnsson forseti ÍSÍ bráðkvaddur í Sviss, þar sem hann sinnti embættisstörfum sem forseti FIBA Europe.  Skyndilegt fráfall hans var mikið áfall fyrir ÍSÍ og alla íþróttahreyfinguna en mestur er þó missir eiginkonu hans og barna. Útför Ólafs fór fram frá Hallgrímskirkju þann 4. júlí að viðstöddu fjölmenni.  Íþróttafólk sérsambanda ÍSÍ stóð heiðursvörð fyrir utan kirkjuna á meðan kistan var borin út. 

Við fráfall Ólafs tók Lárus L. Blöndal varaforseti við embætti forseta ÍSÍ, eins og lög ÍSÍ kveða á um og Ingi Þór Ágústsson 1. varamaður tók sæti í stjórninni.

 

Heiðurshöll ÍSÍ

Árið 2013 voru fjórir útnefndir í Heiðurshöll ÍSÍ.  Á 71. Íþróttaþingi ÍSÍ í aprílmánuði voru Sigurjón Pétursson frá Álafossi, Jóhannes Jósefsson og Albert Guðmundsson útnefndir og á hófi Íþróttamanns ársins í desember 2013 var Kristín Rós Hákonardóttir útnefnd. 

 

Ferðasjóður íþróttafélaga

Til úthlutunar í Ferðasjóði íþróttafélaga vegna ferða á árinu 2013 voru 67 m.kr.  Stuðningur ríkisins vegna ferðakostnaðar íþrótta- og ungmennafélaga á landsvísu hefur haft gríðarlega mikið að segja fyrir alla hreyfinguna. Standa þarf vörð um þetta stóra hagsmunamál hreyfingarinnar og tryggja áframhaldandi framlag ríkisins til sjóðsins. Núverandi ríkisstjórn hækkaði framlag til sjóðsins á Fjárlögum Alþingis 2014 um 15 m.kr. og verður því framlag í sjóðinn vegna ársins 2014 samtals 85 m.kr.


 

Fjármögnun sérsambandÁrið 2006 var skrifað undir samning við ríkisvaldið um styrkveitingar til sérsambanda ÍSÍ.  Upphæð styrksins var 40 m.kr. á árinu 2007, 60 m.kr. á árinu 2008, 70 m.kr. árið 2009, 63,7 m.kr. árið 2010, 61,8 m.kr. fyrir árið 2011, 60,5 m.kr. fyrir árið 2012 og 70 m.kr. fyrir árið 2013.  Framlag fyrir árið 2014 verður 85 m. króna.


 

Samningar við ÓlympíufjölskyldunaÞann 28. desember 2013 voru undirritaðir samstarfssamningar á milli ÍSÍ og þeirra fjögurra fyrirtækja sem staðið hafa að Ólympíufjölskyldu ÍSÍ undanfarin ár.  Það eru fyrirtækin Icelandair, Íslandsbanki, Sjóvá og Valitor. Hafa þau öll samþykkt að vera samstarfsaðilar ÍSÍ fram yfir Ólympíuleikana í Ríó árið 2016.

Stuðningur fyrirtækjanna er afar mikilvægur en fyrirtækin koma á ýmsan hátt að verkefnum ÍSÍ, bæði almenningsíþróttaverkefnum og afreksíþróttastarfi. 

 

Heimasíða ÍSÍ

Slóðin á heimasíðu ÍSÍ er sem fyrr www.isi.is og er þar að finna ýmsan hagnýtan fróðleik um ÍSÍ og sambandsaðila þess, auk fræðsluefnis af ýmsum toga, frétta og tilkynninga um viðburði í hreyfingunni. ÍSÍ er einnig með Fésbókarsíðu.

 

 

Felix - tölvukerfi ÍSÍ og UMFÍ

Felix - tölvukerfi ÍSÍ og UMFÍ heldur utan um tölfræði íþróttahreyfingarinnar en er einnig gott stjórntæki fyrir félög og deildir til að halda utan um iðkendur og stjórnir.


 

Þjálfaramenntun Fjarnám ÍSÍ um 1. stig þjálfaramenntunar hefur slegið í gegn og er orðið helsta form þjálfaramenntunar ÍSÍ á landsvísu.  Bæði 1. og 2. stig ÍSÍ hafa verið í boði þrisvar á ári, vorönn, sumarönn og haustönn.

Vinna við gerð námsefnis fyrir 3. stig þjálfaramenntunar er langt komin og er hún m.a. unnin í samvinnu við menntavísindasvið Háskóla Íslands.  Undirbúningsvinna fyrir þjálfaramenntun 4. og 5. stigs sem er á háskólastigi er þegar hafin.

 

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Fyrirmyndarfélög og fyrirmyndardeildir ÍSÍ eru um 120 talsins. Sérsambönd, íþróttabandalög og héraðssambönd eru hvött til að leggja sitt af mörkum til að efla verkefnið og styðja félög sem stefna vilja að þessari gæðaviðurkenningu.

 

 

Forvarnardagur forseta Íslands

ÍSÍ kemur að skipulagningu og framkvæmd Forvarnardags forseta Íslands, ásamt UMFÍ, Bandalagi íslenskra skáta, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Háskólanum í Reykjavík.

 

Fræðsluefni ÍSÍ

ÍSÍ hefur gefið út fjölbreytt fræðsluefni um ýmsa þætti sem snúa að íþróttum og íþróttaþátttöku. Þetta efni má nálgast á heimasíðunni og í útprentuðum bæklingum sem nálgast má á skrifstofunni. Á heimasíðunni er einnig að finna annað efni sem snýr að forvörnum, siðareglur, viðbragðsáætlun við óvæntum atburðum og fræðslu tengda Ólympíuhreyfingunni, svo að eitthvað sé nefnt.

ÍSÍ stendur fyrir ýmsum fræðsluviðburðum og ráðstefnum á hverju ári.

 

Íþróttaslysasjóður

Iðkendur og keppendur innan vébanda ÍSÍ geta sótt um 40% endurgreiðslu á hluta af kostnaðarhluta sjúklings vegna lækniskostnaðs og kostnaðs vegna sjúkraþjálfunar vegna slysa sem þeir verða fyrir á æfingum og í keppni á vegum íþrótta- og ungmennafélaga innan ÍSÍ. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu ÍSÍ.

 

Ólympísk verkefni

Á árinu 2014 sendir ÍSÍ þátttakendur í tvö ólympísk verkefni; Vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi og Sumarólympíuleika ungmenna í Nanjing í Kína.

 

Ólympíudagurinn - árlegur viðburður

Alþjóðlegi Ólympíudagurinn er haldinn hátíðlegur um allan heim 23. júní, ár hvert. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skipulagði í samstarfi við sambands- og samstarfsaðila sína heila viku af íþróttatengdum viðburðum, "Ólympíuviku ÍSÍ". Sambandsaðilar ÍSÍ buðu upp á íþróttakynningar fyrir börn sem voru þátttakendur á sumar­námskeiðum vikuna 24. -28. júní.  Í boði voru keilubrautir, skylmingar, kynning á frjálsíþróttum, hafnabolti, heimsóknir á landsliðsæfingar kvennalandsliðsins í knattspyrnu o.fl.  Auk þess heimsóttu Ólympíufarar ÍSÍ íþróttafélög og frístundaheimili. Frekari upplýsingar og fróðleik má finna á heimasíðu Ólympíudagsins á www.olympiuleikar.com.

 

Úthlutun styrkja

Á árinu 2013 úthlutaði Afrekssjóður ríflega 85 m.kr. og Styrktarsjóður ungra og efnilegra úhlutaði 10 m.kr.  

Verkefnasjóður ÍSÍ úthlutar styrkjum til fræðslu- og útbreiðsluverkefna ásamt þjálfarastyrkjum til einstaklinga.

 

Almenningsíþróttir

Mikil  þátttökuaukning hefur átt sér stað í almenningsíþróttaverkefnum ÍSÍ og þátttökumet verið slegin á ári hverju. 

"Lífshlaupið - landskeppni í hreyfingu", er heilsu- og hvatningarverkefni sem er í gangi allt árið en sérstakt átak er í febrúarmánuði, það er vinnustaðakeppni sem stendur yfir í þrjár vikur eða frá 5.-25. febrúar og grunnskólakeppni sem stendur yfir í tvær vikur eða frá 5.-18. febrúar. Framhaldsskólakeppni Lífshlaupsins fór fram 3. - 16. október 2013.

Hjólað í vinnuna stendur yfir í þrjár vikur eða frá 7. - 27. maí nk.

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram í 25. sinn 14. júní 2014.

Hjólað í skólann er haldið í september 2014.

Göngum í skólann er haldið 3. sept -1. okt. 2014.

 

Hreyfitorg er nýtt verkefni sem fór í loftið í september 2013. Hreyfitorg er gagnvirk vefsíða sem er ætlað að stuðla að aukinni hreyfingu landsmanna. Hlutverk vefsins er að brúa bilið á milli þeirra sem leita eftir þjónustu fyrir sig eða aðra (notenda) og þeirra sem standa fyrir hreyfitilboðum (þjónustuaðila).  Kynntu þér málið á www.hreyfitorg.is.

 

Sjálfboðaliðavefurinn "Allir sem einn" er nýr vefur sem var tekinn í notkun á síðasta Íþróttaþingi ÍSÍ. Megin markmið með sjálfboðaliðavefnum  er að skapa vettvang fyrir sjálfboðaliða til þess að halda utan um sitt framlag hvort sem það er unnið í þágu íþróttahéraða, sérsambanda, félagsliða eða ÍSÍ. Einnig er markmiðið að fá yfirsýn yfir það fjölbreytta starf sem sjálfboðaliðar vinna innan íþróttahreyfingarinnar.  Slóðin á vefinn er www.isi.is/sjalfboðaliðavefur.

 

Íþróttamiðstöðin í Laugardal

Í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal eru höfuðstöðvar ÍSÍ og sérsambanda ÍSÍ, ásamt ÍBR, UMSK og fyrirtækja íþróttahreyfingarinnar, Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna.

Í Íþróttamiðstöðinni er kaffitería, sem er hjarta miðstöðvarinnar, en þar er einnig góð aðstaða til fundarhalda.  ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína að heimsækja miðstöðina við tækifæri og kynna sér starfsemina.

 

Lyfjamál

Alls voru tekin 89 sýni á árinu 2013, þar af 46 sýni í keppni eða 52%. Lyfjapróf voru tekin í 15 íþróttagreinum. Fjögur sýni reyndust jákvæð á árinu. Auk þessara sýna tók Lyfjaeftirlitsnefnd 17 sýni fyrir aðra. Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ stendur fyrir námskeiðum og fjölbreyttri fræðslu í tengslum við málaflokkinn. Frekari upplýsingar um lyfjaeftirlit er að finna á lyfjaeftirlitsvef ÍSÍ, www.lyfjaeftirlit.is.

 

Starfsskýrslur ÍSÍ

Sambandsaðilar eru minntir á að skila þarf starfsskýrslum til ÍSÍ fyrir starfsárið 2013 fyrir 15. apríl nk. Búið er að opna fyrir skilin á www.felix.is.

Aðstoð er veitt á skrifstofu ÍSÍ vegna skila á starfsskýrslum.

 

Smáþjóðaleikarnir á Íslandi 2015

Sextándu Smáþjóðaleikarnir verða haldnir á Íslandi 1.-6. júní 2015 og verður það í annað sinn sem leikarnir verðua haldnir hér á landi.  Á leikunum etja níu smáþjóðir kappi;  Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marinó og Svartfjallaland. Gert er ráð fyrir því að heildarfjöldi keppenda verði um 800 en reikna má með 1.500 erlendum þátttakendum, að meðtöldu fylgdarfólki.  Keppt verður í 11 íþróttagreinum og fer keppni í þeim að mestu fram í Laugardalnum.  Áætluð þörf sjálfboðaliða er ríflega 1.200 manns en skráning sjálfboðaliða til verkefnisins hefst í aprílmánuði 2014.  Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með á heimasíðu leikanna www.iceland2015.is og skrá sig til þátttöku í þessu spennandi verkefni.

 

Íþróttakonur og íþróttamenn ársins 2013

Þann 28. desember 2013 hélt ÍSÍ hóf sitt, þar sem val sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ á íþróttakonum og íþróttamönnum ársins 2013 var tilkynnt, í Gullhömrum í Grafarholti.  Við sama tækifæri var kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins 2013 lýst.

Flettingar í dag: 370
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 491
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 182736
Samtals gestir: 21778
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 00:38:48