07.04.2014 10:57

Ársskýrsla Geislans

Ársskýrsla

Ungmennafélagið Geislinn 2013

Íþróttaæfingar og þjálfarar:

Árdís Rut Einarsdóttir og Jóhannes Helgi Alfreðsson sáu um körfuboltaæfingar, fótboltaæfingar og frjálsíþróttaæfingar hjá Geislanum vorið 2013. Ingibjörg Emilsdóttir hljóp með hlaupahópnum og sá um styrktaræfingar fyrir þann hóp. Steinn Ingi Árnason og Ingibjörg Árnadóttir voru einnig með Taekwondo-æfingar undir merki Geislans.

Yfir sumarið sáu Jóhannes Helgi Alfreðsson og Trausti Rafn Björnsson ásamt Fjólu Jóhsdóttur um fótboltaæfingar sem voru á sparkvellinum við Grunnskólann. Hadda Borg Björnsdóttir þjálfaði frjálsíþróttakappa úti á Grundum.

Um haustið var hrist upp í allri íþróttaþjálfun hjá Geislanum. Stjórn Geislans fékk stjórn Hvatar til fundar við sig og sameiginleg niðurstaða var að félögin vildu vinna saman að því að efla og styrkja íþróttastarf á Hólmavík og nágrenni. Löngu tímabært samstarf hófst með félögunum og er það mikið gleðiefni.

Þjálfararnir urðu 6 talsins og 7 íþróttagreinar í boði. Eiríkur Valdimarsson tók að sér að þjálfa grunnskólabörn í fótbolta og var með íþróttaskóla. Ingibjörg Benediktsdóttir sá um að koma fullorðna fólkinu í form og var með styrktaræfingar fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Jóhanna Rósmundsdóttir sá um íþróttaskóla fyrir leikskólabörn. Michael Wågsjö tók að sér körfuboltaæfingarnar. Steinn Ingi Árnason hélt utan um Taekwondo æfingar og Sigríður Drífa Þórólfsdóttir sá svo um að hífa upp frjálsíþróttamenninguna.

Auk þess hljóp hlaupahópurinn Margfætlurnar úti og öllum var velkomið að hlaupa með þeim.

Við þökkum öllum þjálfurunum árið 2013 fyrir gott samstarf.


 

Lokahóf á vorönn og skólahreystigjöf:

Að vori var efnt til lokahófs fyrir íþróttaiðkendur Geislans.

Þar komu allir þeir sem höfðu verið að æfa íþróttir um veturinn saman. Allir hópar sýndu sig og leyfðu hinum að fá smá innlit í sína íþrótt. Formaður Geislans tilkynnti á lokahófinu þá ákvörðun stjórnar Geislans að gef öllum börnum í Strandabyggð gjöf. Gjöfin var skólahreystitæki svo börnin gætu æft hreystigreip, upphífingar, dýfur og armbeygjur og vonin var sú að Grunnskólinn á Hólmavík myndi taka þátt í Skólahreysti sem fyrst.

Að lokum var boðið upp á grillaðar pylsur og svala fyrir alla sem mættu á lokahófið.

Þegar skólahreystitækin voru komin til Hólmavíkur fengum við íþróttasalinn lánaðann og allir gátu fengið að prófa tækin. Margir fóru einnig í gegnum hindrunarbraut og létu taka tímann á sér í brautinni.


 

17. júní:

Geislinn sá um hátíðarhöldin á Hólmavík á Þjóðhátíðardaginn. Helímblöðrur voru til sölu og í boði var andlitsmálun fyrir alla í félagsheimilinu. Skrúðganga fór frá félagsheimilinu og gengið í Hvamminn við kirkjuna.

Fjallkonan heiðraði samkomuna með nærveru sinni og fallegu ljóði. Sælgæti var selt í bílförmum og fólk gat tekið þátt í hiinum ýmsu þrautum og leikjum þar sem sigurvegarar fengu gjafabréf á kaffihúsum í Strandabyggð.


 

Göngudagur fjölskyldunnar:

Stjórn Geislans og stjórn Hvatar ákváðu að halda sameiginlegan Göngudag fjölskyldunnar. Gengið var á Kirkjubólsfjall 29. ágúst. Á sjálfan göngudaginn rigndi eins og hellt væri úr fötu en engu að síður var ákvðið að halda göngudaginn, boðið var upp á soðnar pylsur í Sævangi að göngu lokinni. Um 50 manns mættu á þennan viðburð sem heppnaðist einstaklega vel og ungir og gamlir voru stoltir af því að hafa ekki látið veðrið stöðva sig.


 

Frjálsar íþróttir:

Mikil vakning hefur verið í frjálsum íþróttum og á Sigríður Drífa Þórólfsdóttir mestan heiður af því. Hún hefur séð um að þjálfa börnin í frjálsíþróttagreinum og vekja áhuga þeirra. Mikið hefur verið um SamVest-samæfingar og keppendur hafa farið á hin ýmsu frjálsíþróttamót. Það hafa allir keppendur sem hafa farið fyrir okkar hönd staðið sig frábærlega og verið til sóma. Fyrsta innanhúsmót í frjálsum íþróttum var einnig haldið á vegum HSS á Hólmavík í desember þar sem var margt um manninn.

Stjórn Geislans hefur í vetur fundað með sveitarstjórn og sveitarstjóra Strandabyggðar, tómstundafulltrúa, stjórnum Hss og Hvatar til að þrýsta á að geta hafið uppbyggingu á frjálsíþróttavelli á Hólmavík. Jákvæður tónn hefur ríkt á þessum fundum og vilji til að vinna að uppbyggingu. Brekkurnar eru þó brattar, skrefin stutt og hlutirnir kosta - en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.


 

Taekwondo:

Mikill fjöldi iðkenda hefur stundað Taekwondo á síðasta ári og íþróttin hefur verið best sótt. Því er að þakka miklum áhuga og elju Steins Inga Árnasonar þjálfara. Fyrsta beltaprófið á Hólmavík fór fram í mars og um 30 nemendur þreyttu prófið.


 

Mót:

Eins og hefur komið fram í skýrslunni tóku iðkendur frá Geislanum þátt í hinum ýmsu frjálsíþróttamótum á árinu og stóðu sig með miklu sóma.

Fótboltalið frá Geislanum fór á Goðamótið á Akureyri og komu heim með Goðamótsskjöldinn fyrir prúðmennsku. Einnig fór hópur drengja á Smábæjarleikana á Blönduósi og kepptu þar í fótbolta, eitt lið frá Geislanum og annað lið sameiginlegt með fótboltaköppum frá Geislanum og Kormáki. Króksmótið var líka vel sótt af fótboltadrengjum. Ungir og efnilegir knattspyrnumenn hafa staðið sig með sóma.

Á árinu keppti karlalið Geislans ásamt liði Snæfells í fótbolta í 4. deild um Borgunarbikarinn.


 

Styrkir:

Í upphafi árs fékk félagið styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að bæta áhaldakost til frjálsíþróttaiðkunar og frjálsíþróttaaðstöðu félagsins. Margt lagaðist í sambandi við áhöld þegar Geislinn og Hvöt ákvað að vinna betur saman og samnýta þau tæki og tól sem til voru. Fjármagnið fór í að kaupa nýja vallarmerkivél, kúluvarpskúlur og kringlur.

HSS veitti einnig styrk til að bæta frjálsíþróttaaðstöðu og undir lok árs veitti Orkubú Vestfjarða styrk til að efla frjálsar íþróttir á svæðinu.


 

Lokaorð:

Það má með sanni segja að árið hafi verið spennandi og skemmtilegt hjá Ungmennafélaginu Geislanum.

Þjálfarar hafa staðið sig með sóma og iðkendum hefur fjölgað mikið.

Framtíð okkar er björt og við eigum margar stjörnur sem skína skært.

Verum dugleg að efla sál og líkama - höldum ótrauð áfram!


 

Fyrir hönd stjórnar Geislans,

Árný Huld Haraldsdóttir, formaður.

Flettingar í dag: 274
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 491
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 182640
Samtals gestir: 21757
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 00:17:36