14.02.2017 17:44
Pistill frá Siggu Drífu.
Þann 1. febrúar síðastliðinn hófst átakið Lífshlaupið sem er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og höfðar til allra aldurshópa. Forsaga Lífshlaupsins er sú að árið 2005 skipaði þáverandi menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir starfshóp til þess að fara yfir íþróttmál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu. Starfshópurinn setti fram hugmyndir um mótun íþróttastefnu Íslands í skýrslunni, Íþróttavæðum Ísland, auka þátttöku, breyttur lífsstíll (www.lifshlaupid.is).
Undanfarin ár hefur orðið töluverð vakning um lýðheilsu á meðal fólks á starfssvæði HSS. Nýting Íþróttamiðstöðvarinnar á Hólmavík hefur margfaldast sérstaklega á meðal fullorðinna einstaklinga. Fólk virðist vera farið að hugsa æ betur um heilsuna, það setur sér markmið allt að því ár fram í tímann um að taka þátt í viðburðum. Fyrirtæki og skólar á svæðinu etja kappi við að ná sem flestum tímum í ýmiskonar íþróttaviðburðum. Flestir sem rætt var við telja að heilsa sín sé betri með markvissri hreyfingu hvort sem farið er einu sinni í viku eða oftar og mismunandi greinar verða fyrir valinu. Í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík eru í boði skipulagðar æfingar sem ungmennafélagið Geislinn heldur utan um en þar má nefna fótbolta, íþróttaskóla fyrir 6-10 ára, leikskólaíþróttir, frjálsar íþróttir, stöðvaþjálfun, körfubolta/handbolta, auk þess sem nýverið byrjaði leikfimi og er farið í teygjur, spennulosun og þol. Eldri iðkendur hafa verið duglegir að mæta í badminton, körfuboltaæfingar, sund og stunda líkamsrækt í Flosabóli sem er lyftingasvæði íþróttamiðstöðvarinnar. Hlaupahópurinn Margfætlurnar halda úti skipulögðum hlaupaæfingum og Skíðafélag Strandamanna verið með skipulagt starf innan sinna raða, má þar nefna línuskautaæfingar sem eru einu sinni í viku og hefur notið mikilla vinsælda á meðal barna. Gönguhópurinn Gunna fótalausa fer í sínar reglulegu hádegisgöngur á þriðjudögum sem eru einfaldar og stuttar göngur og henta öllum, vönum jafnt sem óvönum. Eldri borgarar hafa farið í gönguferðir í hverri viku þegar veður leyfir ásamt því að hittast í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík á föstudögum og stunda boccia.
Á Drangsnesi er sundlaug með heitum pottum og smá líkamsræktaraðstaða sem fólk hefur verið duglegt að nota. Einnig hafa bæjarbúar sótt íþróttaviðburði á Hólmavík og æfingar hjá skíðafélaginu. Starfsfólk Grunnskólans á Drangsnesi er duglegt að safna tímum í Líflshlaupinu.
Sigríður Drífa Þórólfsdóttir.