15.02.2017 18:47
Bikarmeistari í 9. fl.
Friðrik Heiðar Vignisson og félagar í 9. fl. Vestra urðu Bikarmeistara á sunnudaginn.
Það er áhugaverð spurning hvort þetta sé í fyrsta sinn sem iðkandi innan HSS verður Bikarmeistari í keppni á vegum KKÍ. Lið Geislans á Hólmavík og Kormáks á Hvammstanga varð Íslandsmeistari í 9. fl. stúlkna fyrir nokkrum árum. Spurning hvort einhvert lið innan HSS hafi einhverntíman orðið Bikarmeistari gaman væri að frétta af því. Við fjölskyldan tókum þátt í þessari bikarhelgi KKÍ með öðrum foreldrum og stuðningsmönnum Vestra. Við viljum koma á framfæri kæru þakklæti fyrir skemmtilega helgi. Strákarnir fóru á úrslitaleik í drengjaflokki á föstudagskvöldið, síðan í skoðunarferð um Laugardalshöllina á laugardeginum og síðan á æfingu hjá KR í Frostaskjóli. Þeir fóru síðan á úrslitaleikinn í meistarafl. karla á laugardeginum. Við viljum þakka Yngva þjálfara fyrir flott skipulag þessa helgi.
Vignir Pálsson.
Vestri bikarmeistarar í níunda flokki.
Strákarnir í 9. flokki Vestra komu sáu og sigruðu á bikarhelgi KKÍ um helgina. Drengirnir léku til úrslita á sunnudagsmorgni og mættu sterku liði Valsmanna sem eru ríkjandi Íslandsmeistarar í þessum aldurshópi. Leikurinn var jafn og spennandi en Vestramenn höfðu sigur 49-60.
Öll umgjörð leiksins var hin veglegasta. Körfuknattleikssamband Íslands á mikið hrós skilið fyrir allt utanumhald Bikarhelgarinnar, ekki síst að gera yngri iðkendum jafn hátt undir höfði og þeim eldri.
Sigurinn er sögulegur því þetta er fyrsti titill hins nýstofnaða fjölgreinafélags Vestra og það á fyrsta starfsári þess. Titillinn er líka sögulegur fyrir þær sakir að þetta er fyrsti stóri titill körfuboltans á Ísafirði síðan 2. flokkur kvenna hjá KFÍ varð Íslandsmeistari árið 1967.
Leikurinn var fjörugur og hart barist enda mikið undir. Segja má að allt hafi verið í járnum megnið af leiknum en undir lok þriðja leikhluta sigu Vestrastrákar framúr, bættu í forystuna og héldu henni út leikinn. Lið Vestra er fremur fámennt en liðsandinn er góður og allir leikmenn leggja sig fram af fullum krafti í þau verkefni sem þeir taka sér fyrir hendur.
Í lok leiks var Hugi Hallgrímsson valinn maður leiksins. Það kom ekki á óvart þegar litið er yfir tölfræðina því hann var með glæsilega þrennu, 18 stig, 20 fráköst og 10 varða bolta. Hilmir Hallgrímsson átti einnig góðan leik og skoraði 25 stig. Blessed Parilla skoraði 7 stig, þar á meðal 3 stiga körfu undir lok leiks sem líklega var náðarhögg Valsmanna. Egill Fjölnisson skoraði 6 stig og reif niður 8 fráköst og Strandamaðurinn sterki Friðrik Heiðar Vignisson skoraði 4 stig og tók 8 fráköst. James Parilla og Oddfreyr Ágúst Atlason, sem formlega eru í 8. flokki, komu einnig við sögu í leiknum en náðu ekki að skora.
Vegna fámennisins æfa og spila drengir hjá Vestra saman í 8. til 10. flokki. Þessi hópur er eitt lið þótt ekki geti þeir keppt saman nema upp fyrir sig í aldri. Eldri drengirnir, sem eru í 10. flokki og áttu heimangengt, fylgdu því liðinu alla helgina og voru á bekknum með því á sjálfum leiknum. Allir eiga þessir strákar þátt í þessum glæsilega sigri enda er það liðsheildin sem skóp hann. Yngvi Gunnlaugsson þjálfari liðsins hefur haldið afar vel utan um það í vetur og undir hans stjórn hafa drengirnir tekið miklum framförum.
Ekki má heldur gleyma þætti þeirra þjálfara sem hafa leiðsagt hópnum í gegnum tíðina. Í því sambandi má sérstaklega nefna Nebojsa Knezevic, sem var aðalþjálfari elstu drengja félagsins þar til s.l. haust þegar Yngvi tók við, og Hákon Ara Halldórsson sem var þjálfari 8. flokksins í fyrra og stýrði strákunum upp í A-riðil Íslandsmótsins. Þeir eiga báðir stóran þátt í þessu afreki. Til fróðleiks má svo geta þess að listinn yfir þá þjálfara, sem kjarninn í hópnum hefur haft í gegnum tíðina, er óvenjulangur miðað við ungan aldur drengjanna. Listinn telur tólf þjálfara en til viðbótar þeim sem nefndir eru hér að ofan eru það: Craig Schoen, Florijan Jovanov, Guðjón Þorsteinsson, Borche Ilievski, Mirko Virijevic, Pétur Már Sigurðsson, Jason Anthony Smith og Kristján Pétur Andrésson. Guðni Guðnason hefur einnig hlaupið í skarðið sem þjálfari drengjanna allar götur frá því að þeir hófu æfingar um sjö ára aldurinn.
Það er sannarlega bjart framundan í körfuboltanum á Ísafirði og ljóst að þessir strákar og fleiri yngri iðkendur félagsins munu láta að sér kveða í framtíðinni.
Áfram Vestri!
Skrifað af Vignir
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182283
Samtals gestir: 21729
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 23:56:01