28.04.2013 14:55

66. Ársþing HSS

     66. Ársþing HSS verður haldið í Félagsheimilinu Sævangi þriðjudaginn 30. april kl. 19:30.  Þingfulltrúar vinsamlega mætið stundvíslega.

            1.         Þingsetning.

2.         Tilnefning fundarstjóra, varafundarstjóra, og tveggja fundarritara.

3.         Skipun kjörbréfanefndar.

4.         Skýrsla stjórnar.

5.         Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.

6.         Skýrsla framkvæmdastjóra.

7.         Kosning nefna þingsins. a) Uppstillingarnefnd.  b)  Fjárhagsnefnd. 

c)  Íþróttanefnd         d)  Alsherjar og laganefnd.

8.         Framkomnar tillögur lagðar fram og vísað til nefnda.

9.         Nefndarstörf.

10.       Nefndarálit,  umræður og atkvæðagreiðslur.

11.       Kosningar.  a)  Stjórn og varastjórn sbr. 17. grein.    b)  Tveir endurskoðendu og tveir til vara.  c)  Ráð og nefndir skv. gildandi samþykktum og reglugerðum.

12.       Önnur mál.

13.       Þingslit.          

                        Með félagskveðju,                  Vignir Örn Pálsson. Form. HSS.

Fulltrúa fjöldi félaga:  Harpa             5

                               Hvöt               5

                               Geislinn         16

                               Golfklúbbur Hólm.           4

                               Skíðafélag Strandam.      6

                               Neisti              7

                               Sundf. Gettir    5

                               Leifur Heppni   5

 

 

12.04.2013 20:05

Héraðsmót í skíðagöngu.


Ef veður leyfir verður haldin skiptiganga á morgun laugardaginn 13. apríl í Selárdal kl. 14.  Í skiptigöngu er fyrst genginn 1 hringur með hefðbundinni aðferð og síðan skipt um skíði og annar hringur genginn með frjálsri aðferð.  Mótið er um leið héraðsmót í skíðagöngu og er haldið sameiginlega af HSS og SFS.  Veður hefur verið heldur óstöðugt síðustu daga en útlit er fyrir að rofi til á morgun þannig að hægt verði að halda mótið.  Fylgist með fréttum á þessari síðu því ef veðurútlit breytist gæti tímasetningin breyst.

12.04.2013 13:15

Óskað eftir umsóknum í sérerkefnasjóð HSS

Hér með er auglýst eftir umsóknum frá aðildarfélögum HSS í sérverkefnasjóð sambandsins. Umsóknarfrestur er til og með föstudags 26. apríl nk. Umsóknir sem berast eftir miðnætti þann dag eru ekki teknar gildar. Sérsjóðurinn styrkir margvísleg verkefni á vegum aðildarfélaganna, en forgangsverkefni er að bæta íþróttaaðstöðu á svæðinu.  Einnig er mögulegt að sækja um vegna verkefna eins og þjálfunar, óvæntra áfalla, ferðakostnaðar á mót sem HSS fer ekki á, nýjungar í starfi og fleira. Stjórn HSS tekur ákvörðun um og úthlutar styrkjunum. 

Sækja skal um skriflega. Senda má umsókn með landpóstinum eða á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is. Umsókn verður að halda innihalda lýsingu á fyrirhuguðu verkefni og kostnaðaráætlun.


09.04.2013 10:48

Stefán setti persónulegt met í París



Strandamaðurinn og langhlauparinn Stefán Gíslason frá Gröf í Bitrufirði setti persónulegt met í maraþonhlaupi nú um helgina þegar hann hljóp Parísarmaraþonið á 3:14:44. Besti tími Stefáns fyrir hlaupið sem fram fór á sunnudaginn var 3:17:07 þannig að hann bætti besta tíma sinn um tvær mínútur og 23 sekúndur. Stefán var nr. 293 í sínum aldursflokki og lenti í 2.929 sæti í hlaupinu yfir heildina.

Hér er hægt að fræðast um undirbúning Stefáns fyrir hlaupið. HSS óskar Stefáni innilega til hamingju með frábæran árangur.

08.04.2013 14:15

Birkir í 5. sæti á Skíðamóti Íslands um helgina

Um síðustu helgi keppti Birkir Þór Stefánsson í 10 km göngu með hefðbundinni aðferð á Skíðamóti Íslands á Ísafirði. Birkir átti góða göngu og gekk á tímanum 35,35 mínútum sem tryggði honum 5. sætið af 13 keppendum og var hann 3,45 mínútum á eftir sigurvegaranum Sævari Birgissyni frá Ólafsfirði. Nánari úrslit úr göngunni má sjá með því að smella hér

Þetta kom fram á nýrri heimasíðu Skíðafélags Strandamanna.

30.03.2013 22:52

Úrslit í borðtennismóti

Borðtennismót HSS 2013 var haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík 30. Mars.  13 keppendur tóku þátt og var keppnin mjög skemmtileg.  Hópnum var skipt í tvo riðla, 2 efst í hvorum riðli kepptu síðan til úrslita um 3 efstu sætin. 

Keppendur í A- riðli voru: Arnór Jónsson, Jói Alfreðs., Magnús  Ingi, Flosi Flosa, Vignir, Friðbjörg  og Kristófer. Kristófer hlaut 6 vinninga, Flosi Flosa 5, Vignir 4, Magnús Ingi 3, aðrir minna.

Keppendur í B- riðli voru: Alfreð, Steinar Ingi, Flosi Helga, Einar Alfreðs., Birta Hauksd og Jón Jónsson.  Jón hlaut 5 vinninga, Alfreð 4, Flosi Helga 3, Einar 2, aðrir minna.

Borðtennismeistari HSS 2013 varð Jón Jónsson, Kristófer Jóhannsson varð annar og Alfreð Gestur Símonarson þriðji.

HSS þakkar öllum keppendum kærlega fyrir þátttökuna og hlakkar til að hitta þá aftur að ári!


24.03.2013 09:39

Borðtennismót HSS

Héraðsmót HSS í borðtennis verður haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík laugardaginn 30. mars nk. Mótið hefst kl. 13:00. Keppt verður í einliðaleik í opnum flokki (ekki skipt í kyn eða aldursflokka). Mótið er ætlað keppendum 14 ára og eldri og þátttökugjald er 690.- pr. mann sem greiðist í afgreiðslu íþróttamiðstöðvarinnar.

Hægt er að skrá sig hjá Arnari með því að senda póst í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

22.03.2013 11:24

Aðalfundur Geislans

Aðalfundur Umf. Geislans verður haldinn 26. mars kl. 18:00 á kaffistofu Hólmadrangs.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf:

1. Skýrsla stjórnar

2. Reikningar félagsins.

3. Kosning nýrrar stjórnar.

4. Önnur mál.

Starfið í stjórn Geislans er gefandi og spennandi. Í stjórninni getum við haft áhrif á starf félagsins og tekið þátt í að gera íþróttastarfið skemmtilegra. Allir eru hjartanlega velkomnir og vonandi láta sem flestir sjá sig!

Stjórn Geislans.

15.03.2013 13:04

Strandagangan er á morgun!

Á morgun fer hin árlega Strandaganga fram í Selárdal. Fram kemur á nýjum vef göngunnar að útlit sé fyrir afskaplega gott veður og hentugar aðstæður en spáð er hægviðri, sólskini með köflum og dálitlu frosti. Lagðar voru brautir fyrir gönguna á síðustu helgi og hefur þeim verið viðhaldið í vikunni. Í boði er að ganga 1, 5, 10 og 20 km, en gangan sem er 1 km. að lengd er þó ætluð yngstu keppendunum. Skráning í gönguna gengur mjög vel og streyma skráningar inn, en skráningarfrestur rennur út í kvöld. Eftir gönguna verður að vanda boðið upp á glæsilegt kökuhlaðborð í Félagsheimilinu á Hólmavík auk þess sem verðlaunaafhendingin fer fram á sama tíma.


Á sunnudaginn verður síðan Skíðaleikjahátíð í Selárdal frá kl. 10:00-12:00, en þessi skemmtilega nýbreytni er nú prófuð í fyrsta skipti. Þar verður farið í marga skemmtilega skíðaleiki og hægt verður að fara í þrautabraut. Eftir hátíðina hafa allir gestir hennar kost á því að kíkja í gómsætt pizzahlaðborð á Café Riis.


Við hjá HSS hvetjum fólk til að fjölmenna í Strandagönguna á morgun, hvort sem er til að keppa, horfa á, hvetja eða borða kökur. Gleðilega hátíð!

12.03.2013 16:48

Strandagangan á laugardaginn




Nú styttist í Strandagönguna víðfrægu. Fram kemur á nýrri vefsíðu göngunnar að undirbúningur fyrir hana gangi vel. Vitað er að skíðafólk m.a. frá Ísfirði, Ólafsfirði, Akureyri og Reykjavík ætlar að mæta á svæðið og því stefnir í fjölmenna göngu. Veðurspáin fyrir laugardag og sunnudag er góð; frost, hægur vindur og bjartviðri.

Í gær var troðin 5 km braut í Selárdal, en það verður gert alla daga fram að Strandagöngu. 

11.03.2013 15:01

Skíðaleikjahátíð næsta sunnudag!


Skíðafélag Strandamanna hefur bætt við skemmtilegum viðburði fyrir alla fjölskylduna um næstu helgi - en þá fer Strandagangan fram á laugardeginum. Sunnudaginn 17. mars verður blásið til Skíðaleikjahátíðar á Hólmavík kl. 10:00-12:00. Farið verður í skemmtilega skíðaleiki, t.d. stórfiskaleik, hákarlaleik, skottaleik og fleiri frábæra leiki. Einnig verða settar upp þrautabrautir.  

Hátíðin er öllum opin sem hafa gaman af skemmtilegum skíðaleikjum og eru jafnt ungir sem aldnir velkomnir.  Eftir hátíð er þátttakendum boðið á pizzahlaðborð frá café Riis fyrir 1.000 kr. á mann.  Nánari upplýsingar veitir Ragnar í síma 893-3592, en skráning á hátíðina er hjá Aðalbjörgu Óskarsdóttir á netfangið allaoskars@gmail.com. Alla tekur einnig á móti skráningum í Strandagönguna.  

Skráningar á skíðaleikjahátíðina þurfa að berast í síðasta lagi miðvikudaginn 13. mars. 

11.03.2013 10:03

Sóley og Hlynur eru héraðsmeistarar í badminton


Sigurvegararnir - frá vinstri Þorsteinn Paul Newton, Jón Jónsson, Hlynur Þór Ragnarsson, Sóley Ósk Sigurgeirsdóttir, Ingimundur Jóhannsson og Jón Ingimundarson. Myndir með þessari frétt © Jón Jónsson.

Héraðsmót HSS í badminton var haldið með pompi og prakt í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík laugardaginn 9. mars sl. Keppt var í tvíliðaleik í opnum flokki (óháð aldri og kyni) fyrir fjórtán ára og eldri.

Árið 2012 kepptu 12 lið en á laugardaginn kepptu 15 lið þannig að óhætt er að segja að þátttakan hafi verið frábær. Mikil og góð stemmning var í húsinu frá upphafi til enda, fjöldi manns kíkti við og hvatti keppendur og allir skemmtu sér hið besta.

Eftir harða keppni stóðu Sóley Ósk Sigurgeirsdóttir og Hlynur Þór Ragnarsson uppi sem sigurvegarar. Í öðru sæti urðu Jón Jónsson og Þorsteinn Paul Newton og í því þriðja urðu feðgarnir Ingimundur Jóhannsson og Jón Ingimundarson. HSS þakkar öllum keppendum kærlega fyrir þátttökuna og hlakkar til að hitta þá aftur að ári!







28.02.2013 08:40

Héraðsmót í badminton laugardaginn 9. mars


Héraðsmót HSS í badminton verður haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík laugardaginn 9. mars nk. Mótið hefst kl. 13:00. Keppt verður í tvíliðaleik í opnum flokki (ekki skipt í kyn eða aldursflokka). Mótið er ætlað keppendum 14 ára og eldri og þátttökugjald er kr. 690.- pr. mann sem greiðist í afgreiðslu íþróttamiðstöðvarinnar. Verðlaunapeningar verða veittir fyrir efstu sætin

Skráningarblað liggur frammi í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík, en einnig er hægt að skrá sig hjá Arnari með því að senda póst í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

26.02.2013 10:30

Góð frammistaða á Ísafirði

Félagsmenn úr Skíðafélagi Strandamanna gerðu góða ferð á Ísafjörð um nýliðna helgi, en þar kepptu þeir í Vestfjarðamóti í hefðbundinni göngu með lengri vegalengd. Erfiðar aðstæður settu svip á mótið en strekkingsvindur og rigning voru þegar það var haldið. Sex Strandamenn kepptu á mótinu og náði Birkir Þór Stefánsson þeirra hæst, en hann var í öðru sæti í 30 km. göngu, nokkrum mínutum á eftir Daníel Jakobssyni. 

25.02.2013 15:29

Nýr vefur Strandagöngunnar

Nú styttist óðum í Strandagönguna 2013, en hún verður haldin laugardaginn 16. mars nk. Opnuð hefur verið ný vefsíða fyrir gönguna, en hún er á slóðinni strandagangan.123.is. Það er mikil stemmning fyrir göngunni í ár og vitað er um fjölda manns sem ætlar að leggja leið sína á Strandir í tilefni hennar.

Að sögn Ragnars Bragasonar hjá Skíðafélagi Strandamanna er í skoðun að búa til skemmtilega dagskrá á sunnudeginum eftir gönguna, nokkurs konar skíðaleika. Undirbúningur að því er þó á byrjunarstigi. Dagskrá sunnudagsins verður væntanlega auglýst betur eftir því sem nær dregur.

Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25