22.02.2013 12:00
Dagskrá skíðamóta komin á vefinn
19.02.2013 11:26
Góður árangur í Bláfjallagöngu
Strandamenn kepptu í Bláfjallagöngunni sem haldin var um síðustu helgi og stóðu sig með mikilli prýði. Af 56 keppendum komu 14 frá Ströndum.
Í 2 km. göngu varð Jón Haukur Vignisson annar og Stefán Þór og Árný Helga Birkisbörn urðu í 5.-6. sæti, en þau voru langyngstu keppendurnir á mótinu. Í 5. km. göngu fór Friðrik Heiðar Vignisson með sigur af hólmi og Halldór Víkingur Guðbrandsson varð í öðru sæti í karlaflokki. Branddís Ösp Ragnarsdóttir var langfyrst í 10 km. göngu kvenna og Númi Leó Rósmundsson var í 2. sæti í 10 km. göngu karla og Stefán Snær Ragnarsson í 4. sæti. Í 20 km. göngu kvenna varð Sigríður Drífa Þórólfsdóttir í öðru sæti. Ragnar Bragason og Birkir Þór Stefánsson gerðu það gott í 20 km. göngu 35-49 ára þar sem Ragnar varð í fyrsta sæti og Birkir í því þriðja. Vignir Örn Pálsson varð í níunda sæti af fjórtán keppendum. Í 20 km. göngu karla 50 ára og eldri var Rósmundur Númason í öðru sæti af 9 keppendum.
Góður árangur hjá Strandamönnum og nú er hægt að fara að hlakka til Strandagöngunnar sem fer fram þann 16. mars nk.
11.02.2013 10:13
Fundur í Borgarnesi.
ÁNÆGJUVOGIN -STYRKUR ÍÞRÓTTA
niðurstöður rannsókna og hugleiðingar um skipulagt
íþróttastarf fyrir börn og ungmenni
Ánægjuvogin er könnun sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að í sameiningu á stöðu íþróttastarfs, ánægju iðkenda, stöðu áfengis og tóbaksnotkunar og fleira meðal sambandsaðila í 8.-10.bekk.
Mánudaginn 11.febrúar munu UMFÍ og ÍSÍ standa í sameiningu fyrir fundi í Hjálmakletti, menningarhúsi Borgarfjarðar og hefst fundurinn klukkan 20:00.
Þar mun Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur, m.a. ræða um hvort að íþróttahreyfingin sé að standast áskoranir nútímasamfélags eða eingöngu að þjálfa til árangurs. Viðar mun styðjast við niðurstöður rannsóknarinnar Ánægjuvogin sem Rannsókn og greining gerði fyrir UMFÍ og ÍSÍ.
Þátttaka er ókeypis og öllum heimil.
31.01.2013 13:05
Aðalfundur Skíðafélags Strandamanna framundan
31.01.2013 10:18
Skráið ykkur í Lífshlaupið!
Skráning er nú í fullum gangi í vinnustaða- og grunnskólakeppni Lífshlaupsins sem hefst miðvikudaginn 6. febrúar. Hvatningarleikur ÍSÍ og Rásar 2 hófst í gær, miðvikudaginn 30. janúar. Þeir sem verða dregnir út fá glæsilega ávaxtasendingu frá Ávaxtabílnum í vinning.
Héraðssamband Strandamanna hvetur Strandamenn til að taka þátt virkan þátt í þessu skemmtilega átaki!
24.01.2013 14:03
Taekwondo kynningaræfing á laugardaginn
Á fyrstu æfingunni verður kynnt verðskrá á æfingum og göllum. Einnig verður birt dagskrá fyrir æfingarnar á komandi vetri. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta í fjörið!
Fésbókarsíðu Taekwondo á Hólmavík má nálgast með því að smella hér.
24.01.2013 13:31
Jóganámskeið á Hólmavík
Hatha jóga námskeið verður haldið í félagsheimilinu á Hólmavík nú í febrúar á mánudögum og fimmtudögum kl. 18. Kennari verður Anna Björg Þórarinsdóttir frá Hólum í Reykhólasveit. Anna Björg hefur iðkað jóga frá árinu 2010 og leggur nú stund á jógakennaranám hjá kennurunum Ágústu K. Jónsdóttur og Drífu Atladóttur en þær reka jafnframt jógastöðina Jógastúdíó í Reykjavík.
Á þessu fjögurrar vikna námskeiði munu nemendur læra
undirstöður Hatha jóga. Hatha jóga byggist á öndunaræfingum, líkamsstöðum og
slökun. Regluleg ástundun styrkir og liðkar líkamann og kemur jafnvægi á
líkamsstarfssemi, s.s. innkirtlakerfi, taugakerfi, ónæmiskerfi, blóðrás og
meltingu.
Jógadýnur verða á staðnum en öllum er velkomið að koma
með sínar eigin. Mælt er með að nemendur mæti í þægilegum fötum sem gott er að
hreyfa sig í.
Verð fyrir námskeiðið er 11.200 kr.
Hálft námskeið 5.600 kr
Skráning í síma 663-0497 Ingibjörg Benediktsdóttir
19.01.2013 10:04
Allir á skíði sunnudaginn 20. janúar
Sunnudaginn 20. janúar verður hinn alþjóðlegi World snow day eða Snjór um víða veröld haldinn hátíðlegur um allan heim. Skíðafélag Strandamanna tekur að sjálfsögðu þátt í deginum líka og hvetur fólk til að fjölmenna í Selárdal þar sem dagskráin fer fram. Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir.
Dagskráin byrjar kl. 13:00 í Selárdal, en þar verður haldið skíðagöngumót með frjálsri aðferð þar sem keppt er í mörgum aldursflokkum og vegalengdum við hæfi hvers og eins. Að keppni lokinni eða um kl. 14:00 verður skíðadagur fjölskyldunnar haldinn í Selárdal, en þar eru fjölskyldur hvattar til að ganga saman á skíðum í Selárdal og njóta útiverunnar og hreyfingarinnar saman. Einnig verður boðið upp á ókeypis tilsögn á skíðum fyrir þá sem það vilja.
Á staðnum verða veitingar í boði Skíðafélagsins, heitt kakó og kökur.
17.01.2013 15:44
Ingibjörg Emilsdóttir er íþróttamaður Strandabyggðar
Í gær var tilkynnt á íþróttaháríð Grunnskólans á Hólmavík hver var valinn Íþróttamaður ársins 2012 í Strandabyggð, en tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd sá nú um valið í fyrsta sinn samkvæmt nýjum reglum. Þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið sjálft hefur slíkt val á sínum snærum, en Íþróttafélag lögreglunnar á Hólmavík valdi íþróttamenn áranna 2008 og 2009, Guðjón Þórólfsson og Birki Þór Stefánsson. Áfram var notaður bikar sem lögreglan gaf árið 2008.
Að þessu sinni varð Ingibjörg Emilsdóttir hlaupakona og aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Hólmavík fyrir valinu. Ingibjörg er fædd árið 1975. Hún hefur unnið mikið og gott starf í þágu hlaupaíþróttarinnar í Strandabyggð. Í umsögn um hana segir að hún sé dugleg, hvetjandi og frábær fyrirmynd. Auk þess að æfa og keppa hefur Ingibjörg smitað marga af hlaupabakteríunni og m.a. haft umsjón með hlaupahópi fólks á öllum aldri sem æfir í viku hverri. Ingibjörg hljóp m.a. hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og 17 km í Hamingjuhlaupinu svo fátt eitt sé nefnt.
Við val á Íþróttamanni ársins er horft til árangurs á árinu, auk þess sem litið er til reglusemi, ástundunar, prúðmennsku, framfara og þess að viðkomandi aðili sé góð fyrirmynd í hvívetna.
17.01.2013 15:13
Birkir gengur vel að vanda

28.12.2012 15:27
Flosamóti frestað
Flosamót í innahúsfótbolta sem átti að vera laugardaginn 29. des. hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Vegna slæms veðurútlits, skoðað verður með annan mótsdag þegar aðstæður skána, hugsanlega á Gamlársdag.
19.12.2012 14:54
Flosamót í fótbolta þann 29. desember
Innanhúsmót í knattspyrnu verður haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík laugardaginn 29. desember kl. 13:00. Þarna er um að ræða sjálfstætt mót á einskis vegum fyrir fullvaxna fótboltagarpa. Fjórir mega vera í hverju liði (sem sagt á vellinum, en liðin mega líka hafa varamenn til taks ef menn vilja). Leiktími verður ákveðinn þegar fyrir liggur hversu mörg lið skrá sig til leiks.
20.11.2012 15:43
Skíðamenn af Ströndum stefna á Ísafjörð
Um komandi helgi stefnir hópur Strandamanna til Ísafjarðar í æfingabúðir í skíðagöngu. Að sögn Rósmundar Númasonar, formanns Skíðafélags Strandamanna, er þarna um að ræða æfingar í tengslum við hina árlegu Fossavatnsgöngu sem fram fer laugardaginn 4. maí nk. Rósmundur tjáði HSS-vefnum að hann hefði farið í þessar æfingabúðir á hverju ári síðan byrjað var með þær. Þarna sé um að ræða góða kennslu sem miðast við hæfni og getu hvers og eins þátttakanda, en nemendum er jafnan skipt upp í þrjá hópa eftir getu.
Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um æfingaferð Strandamanna á Ísafjörð geta haft samband við Rósa í s. 451-3206, en einnig er hægt að skrá sig beint hjá Bobba á Ísafirði í s. 896-0528.
19.11.2012 14:05
Æskulýðsvettvangurinn heimsækir Strandir
Æskulýðsvettvangurinn heimsækir Strandir nú í vikunni með fyrirlestur um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 22. nóvember kl. 16:30-18:00. Það er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur sem flytur fyrirlesturinn, en hann er byggður á nýútkominni bók hennar Ekki meir, sem er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn.
Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn - léttar kaffiveitingar verða í boði. HSS hvetur öll aðildarfélög sín til að senda fulltrúa á þennan mikilvæga viðburð.
Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Bandalags íslenskra skáta og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Tilgangurinn með fyrirlestrinum er að vekja athygli á þessum málaflokki, opna betur augu starfsfólks og sjálfboðaliða fyrir því að vera vakandi og ávallt á verði gagnvart einelti og annarri óæskilegri hegðun. Á fyrirlestrinum verður aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun dreift sem og eineltis plakati og nýútkomnum siðareglum Æskulýðsvettvangsins.