13.11.2012 14:12

Æfingar hafnar hjá Skíðafélaginu

Æfingar eru nú hafnar hjá Skíðafélagi Strandamanna. Töluverður snjór er kominn í Selárdal og lofa aðstæður þar góðu miðað við árstíma. Fram að áramótum verður æft tvisvar í viku - á föstudögum og sunnudögum kl. 16.30-18:00. Eftir áramót bætist við æfing á þriðjudögum þannig að þá verður æft þrisvar í viku. Þetta plan hefur að sjálfsögðu verið sett á æfingasíðu HSS og verður aðgengilegt þar í allan vetur.

Allir eru velkomnir á æfingarnar og ekki þarf að greiða nein æfingagjöld. Nýir iðkendur eru sérstaklega velkomnir. Sendur er tölvupóstur eða sms til að láta vita hvort af æfingu verður t.d. vegna veðurs, þeir sem vilja láta bæta sér á póstlistann hafi samband við Ragnar í síma 893-3592.

Fréttin var tekin af heimasíðu Skíðafélagsins.

13.11.2012 10:06

Frábært tækifæri - frjálsíþróttaæfing í Laugardalshöll

Héraðssamböndin UDN, HSH, UMSB, HSS og HHF ásamt Ungmennafélaginu Skipaskaga og Ungmennafélagi Kjalnesinga hafa undanfarið mótað samstarf sín á milli með það að markmiði að efla frjálsíþróttastarf á svæðinu.

Við höfum nú fengið tíma í hinni glæsilegu frjálsíþróttaaðstöðu í Laugardalshöll í Reykjavík, laugardaginn 24. nóvember nk. og stefnum að sameiginlegri æfingaferð með frjálsíþróttafólkið okkar. Verið er að ganga frá ýmsum framkvæmdaratriðum sem verða kynnt betur innan skamms, en eftirfarandi er þó ákveðið um ferðina:

Hugsað fyrir þátttakendur 10 ára (árgangur 2002) og eldri.

- Þjálfarar á starfssvæðinu munu sjá um þjálfun, en jafnframt höfum við óskað eftir gestaþjálfurum og fleiri góðum gestum inn á æfinguna til okkar.

- Æfðar verða flestar greinar, s.s. spretthlaup, langstökk, hástökk, kastgreinar og jafnvel stangarstökk o.fl.

- Dagskráin samanstendur af hittingi fyrir æfingu, æfingu frá ca. 14-16 og sameiginlegri sundferð eða öðru fyrir heimferð.

Kæru iðkendur og foreldrar! Þessi æfingaferð er mikilvægt skref í samstarfi sem getur skilað okkur umtalsverðum ávinningi og skemmtilegri reynslu. 

Þeir sem hafa áhuga á að fara af Ströndum á þennan frábæra viðburð ættu endilega að láta vita sem allra fyrst um þátttöku. Skráningar þurfa að berast til Arnars Jónssonar, framkvæmdastjóra HSS, í tölvupósti á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða í s. 894-1941 í síðasta lagi þriðjudaginn 20. nóvember.

12.11.2012 13:24

"Nokkur skjöl í kassa"


Fyrir hálfum mánuði síðan bankaði maður upp á hjá framkvæmdastjóra HSS og kvaðst vera með nokkur skjöl í kassa - smá dót tengt sögu HSS, nokkur fréttabréf, ársskýrslur og slíkt. Maðurinn var Stefán Gíslason frá Gröf í Bitrufirði, umhverfisstjórnunarfræðingur og langhlaupari í Borgarnesi. Stefán var gríðarlega öflugur í starfi HSS og ungmennafélaganna á árum áður. 

Þegar farið var að skoða gögnin í kassanum kom hins í ljós að þar var ótal gersemar; fréttabréf frá ungmennafélögum, HSS, Kaupfélagi Steingrímsfjarðar, grunnskólanum á Hólmavík, leikskólanum á Hólmavík, Leikfélagi Hólmavíkur og kynningarbæklingar sveitarstjórnarframboða í Hólmavíkurhreppi til margra ára. Allt er þetta í toppstandi og vel frágengið. Stefáni eru hér með færðar bestu þakkir fyrir gjöfina.

Þeir sem luma á gögnum eða skjölum sem e.t.v. tengjast sögu HSS og vita ekki alveg hvað þeir eiga að gera við þau eru hvattir til að koma þeim til formanns eða framkvæmdastjóra frekar en að henda þeim í ruslið. Sambandið mun síðan að sjálfsögðu gera sitt besta til að þrýsta á um að hafinn verði undirbúningur að því að koma upp Héraðsskjalasafni Strandasýslu - til að hýsa þessar gersemar í viðunandi skilyrðum og til miðlunar fyrir komandi kynslóðir.

12.11.2012 08:28

Hundraðasta fréttin á HSS-vefnum árið 2012


Einn af jákvæðum fylgifiskum þess að Héraðssamband Strandamanna hefur starfsmann í stöðu framkvæmdastjóra á heils árs grundvelli er að flæði upplýsinga og öll markaðssetning er auðveldari og jafnari en þegar framkvæmdastjórar störfuðu í þrjá mánuði á ári og stjórn sambandsins tók síðan við keflinu um veturinn. 

Þetta speglast vel í þeirri staðreynd að akkúrat þessi frétt hér er hundraðasta fréttin sem sett er inn á 123.hss.is á árinu 2012. Það er meira heldur en 2007, 2008, 2009 og 2010 samanlagt. 

09.11.2012 16:20

HSS fékk styrk til að skrá Strandamet


Héraðssamband Strandamanna sótti um styrk úr verkefna- og fræðslusjóði UMFÍ fyrir nokkrum vikum til þess að skrásetja Strandamet í frjálsum íþróttum, en þau hafa ekki verið skrásett síðan seint á níunda áratug síðustu aldar. Því er mikið verk óunnnið. Sótt var um styrk að upphæð kr. 400.000, en í þetta skiptið fékkst styrkur að upphæð kr. 100.000.- 

Það ætti því að vera hægt að byrja skrásetninguna að einhverju leyti á næstu misserum. UMFÍ er hér með þakkað kærlega fyrir styrkinn - hann kemur sér vel. 

09.11.2012 15:47

Umf. Harpa fékk styrk úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ

Á dögunum var styrkjum úthlutað úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ. Eitt af aðildarfélögum HSS fékk góðan styrk úr sjóðnum, en Ungmennafélagið Harpa í Hrútafirði fékk 100.000 kr. styrk til að halda þjálfaranámskeið á Kollsárvelli á komandi sumri. Markmiðið með námskeiðinu er að efla áhuga og auka þátttöku í íþróttaiðkun á vegum félagsins Hörpu og þjálfa réttar aðferðir iðkenda. 

Hugmyndin er að námskeiðið standi yfir í 3-5 daga. Menntaður þjálfari í frjálsum íþróttum eða knattspyrnu verði fenginn til að mæta á svæðið til að fræða unga iðkendur um hvernig mögulegt sé að ná sem bestum árangri og hafa sem mesta ánægju af iðkun íþrótta. Eflaust fara forsvarsmenn Umf. Hörpu af stað með undirbúning þegar líður nær sumri og námskeiðið verður þá auglýst vandlega hér á HSS-síðunni.

29.10.2012 08:26

Hörpu afhendur glæsilegur farandbikar


Sennilega hefur ekki farið fram hjá neinum að Harpa Óskarsdóttir hefur verið að gera það gott á frjálsíþróttasviðinu síðustu ár, þá sérstaklega í spjótkasti þar sem hún hefur náð úrvals árangri. Harpa var útnefnd Efnilegasti íþróttamaður HSS árið 2011 á ársþingi sem haldið var í maí 2012, en á haustfundi sambandsins nú um helgina fékk hún loks afhentan farandbikar sem mun síðan ganga áfram til efnilegra íþróttamanna í framtíðinni. 

Vignir Örn Pálsson formaður HSS afhenti Hörpu bikarinn undir fagnaðarlátum viðstaddra gesta. 

26.10.2012 14:40

Vel heppnaður haustfundur HSS

Fundurinn var miklu skemmtilegri en hann lítur út fyrir á þessari mynd - ljósm. Guðbjörg Hauksdóttir

Haustfundur HSS sem fram fór á Malarkaffi á Drangsnesi í gær var vel heppnaður og ágætlega sóttur, en alls sátu fundinn 15 manns frá fjórum aðildarfélögum. Á fundinum, sem var fyrst og fremst hugsaður sem umræðuvettvangur, var farið yfir sumarstarf sambandsins, hvað hefði tekist vel og hvað hefði farið miður. Þá var litið til næsta vetrar og hugmyndir kviknuðu um mögulegt mótshald og fleira. Það var mál manna að fundurinn hefði verið afar gagnlegur og gott væri að ræða mál sem e.t.v. gæfist ekki tími til að ræða í þaula á ársþingi sambandsins á vorin.

Fundargerð frá haustfundinum má sjá með því að smella hér.

HSS þakkar kærlega öllum þeim sem mættu á fundinn. Sérstakar þakkir fá Bjössi og Valka á Malarkaffi, en þau reiddu fram dýrindis kjöt- og fiskisúpur sem gestir dásömuðu mjög, enda afskaplega góðar. 

25.10.2012 17:12

HSS styrkti fyrirlestur um netfíkn


Héraðssamband Strandamanna var einn af aðalstyrktaraðilum fyrirlestrar sem haldinn var á Hólmavík í gærkvöldi, miðvikudaginn 24. október, um netfíkn. Tómstundafulltrúi Strandabyggðar, sem er einmitt framkvæmdastjóri HSS líka, stóð fyrir fyrirlestrinum sem var afar vel sóttur af 80 áhugasömum gestum. 

HSS hvetur aðildarfélög og einstaklinga til að kynna sér forvarnir gegn netfíkn, t.d. á vefsíðunni http://www.saft.is/.

19.10.2012 13:01

Haustþing HSS á Drangsnesi fimmtudaginn 25. október

Haustfundur HSS verður haldinn á Malarkaffi á Drangsnesi fimmtudaginn 25. október nk. Fundurinn hefst kl. 19:30. Á honum verður fjallað um íþróttastarfið sem fram fór á vegum HSS og aðildarfélaga þess síðasta sumar, hvað tókst vel og hvað má bæta. 

Einnig verður fjallað um mótshald og starfsemi á komandi vetri. Allir áhugasamir um íþróttir á Ströndum og alhliða starfsemi ungmennafélaganna og HSS eru innilega velkomnir á fundinn. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffisopinn verður að sjálfsögðu ekki langt undan.

02.10.2012 14:52

Heilsueflingu í Strandabyggð að ljúka

Fram kemur á vef Strandabyggðar að heilsueflingu sem staðið hefur yfir í sveitarfélaginu sé nú formlega lokið. Þó eru nokkur atriði enn eftir á dagskránni. Þar á meðal er hlaup og skemmtiskokk sem fer fram á vegum Umf. Geislans á Hólmavík laugardaginn 6. september. 

Nálgast má upplýsingar um hlaupið með því að smella hér. HSS hvetur Strandamenn til að kíkja á Hólmavík og skokka næsta laugardag!

02.10.2012 11:12

Ný æfingatafla Umf. Geislans



Nú hefur ný æfingatafla Umf. Geislans á Hólmavík verið sett hingað inn á vefinn okkar. Hún gildir frá og með 1. október fram í miðjan desember. Alltaf er hægt að sjá töfluna með því að smella á Æfingadagskrá í valstikunni hér fyrir ofan. Ýmsar skemmtilegar nýjungar eru á dagskránni hjá Umf. Geisla þetta haust, t.d. hlaupahópur, frjálsíþróttaæfingar o.fl. 

21.09.2012 11:49

Íþróttasjóður - umsóknarfrestur til 1. október


Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr Íþróttasjóði sem starfar samkvæmt íþróttalögum nr. 64/1998, sbr. reglugerð nr. 803/2008. Veita má framlög til eftirfarandi verkefna á sviði íþrótta:

  • Sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar
  • Útbreiðslu- og fræðsluverkefna
  • Íþróttarannsókna
  • Verkefna samkvæmt 13. gr. íþróttalaga

01.09.2012 08:32

Heilsuefling í Strandabyggð


Sveitarfélagið Strandabyggð stendur fyrir heilsueflingu í september. Átakið er þegar hafið, en á vef Strandabyggðar kemur fram að markmið og tilgangur heilsueflingarinnar sé að efla heilbrigði og vitund um mikilvægi góðrar heilsu með því að skapa íbúum sveitarfélagsins tækifæri til að afla sér þekkingar, hreyfa sig í samræmi við eigin getu og verja tíma með fjölskyldu sinni við fjölbreyttar tómstundir sem stuðla að bættri líðan og heilsu.

Átakið er komið með sérstakt svæði á vef Strandabyggðar. HSS hvetur íbúa í Strandabyggð og öðrum sveitarfélögum til að nýta sér þetta góða tækifæri til að kíkja á viðburði, íþróttaæfingar eða fyrirlestra. 
Flettingar í dag: 220
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 227
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 183475
Samtals gestir: 21890
Tölur uppfærðar: 6.4.2025 21:57:58