05.07.2012 11:15

Sameiginleg frjálsíþróttaæfing í Borgarnesi


Héraðssambönd á Vesturlandi, HSS þar á meðal, hafa tekið sig saman um æfingar í frjálsum íþróttum. Samæfing fyrir ellefu ára og eldri verður haldin á Skallagrímsvelli í Borgarnesi þriðjudaginn 10. júlí kl. 17:00-19:00. Áhersla verður lögð á kastgreinar á æfingunni en einnig kíkt á hlaup og stökk fyrir þá sem vilja. Eftir hana verður farið í Skallagrímsgarð í sameiginlegt grill í boði UMSB. 

Þetta er tilvalið tækifæri fyrir þá sem stefna á ULM á Selfossi til að æfa sig, fínstilla tæknina o.s.frv. Allir að mæta!

05.07.2012 11:11

Vel heppnað Polla- og pæjumót á Hamingjudögum

Ágæt mæting var á Polla- og pæjumót HSS á sparkvellinum við Grunnskólann föstudaginn 29. júní sl. Mótið var hluti af dagskrá bæjarhátíðarinnar Hamingjudaga og sama fyrirkomulag haft og árið 2011; skráð og raðað í lið á staðnum.

Tuttugu krakkar kepptu í fjórum liðum og skemmtu allir sér hið besta í góða veðrinu. Að móti loknu fengu síðan allir þátttakendur pening í viðurkenningarskyni.

27.06.2012 14:39

Polla- og pæjumót HSS á Hamingjudögum

Polla- og pæjumót HSS í knattspyrnu fer fram á sparkvellinum við Grunnskólann á Hólmavík föstudaginn 29. júní kl. 16:00. Mótið er ætlað strákum og stelpum 14 ára og yngri. Raðað verður í lið á staðnum.

Mætum öll, hress og kát!

17.06.2012 23:48

Reiðnámskeið hjá Strandahestum



Strandahestar verða með reiðnámskeið fyrir börn og fullorðna dagana 24.-29. júní nk. Kennt verður í litlum hópum 4- 6 manns, í sex skipti, klukkutíma í senn. Kennslan fer fram á Víðidalsá á daginn og kvöldin allt eftir þörfum þátttakenda. Námskeiðið kostar 8000 kr.

Fyrir þá sem eru lengra komnir í að sitja og stjórna hesti verður boðið upp stutta reiðtúra í nágrenni Hólmavíkur. Ennfremur verður boðið upp á sérstakan hóp fyrir óvana fullorðna. Upplýsingar og skráning er í síma 8452748 og á netfangið peturbjork@simnet.is. Kennarar verða Björk Ingvarsdóttir og Victor Örn Victorsson.

17.06.2012 01:55

Gönguferð á Reykjaneshyrnu - myndir

Fjall Héraðssamband Strandamanna í verkefninu Fjölskyldan á fjallið er Reykjaneshyrna í Árneshreppi. Nú á dögunum gerðu nokkrir félagar í Umf. Leifi Heppna í Árneshreppi sér ferð upp á fjallið til að setja þar niður póstkassa sem hýsir gestabók sem allir geta skrifað í og öðlast þannig möguleika á að vinna til verðlauna eftir sumarið. Veðrið lék við göngufólk og útsýnið var stórkostlegt eins og sjá má á myndum hér fyrir neðan sem Bjarnheiður Fossdal tók við þetta tækifæri.





Fjölskyldan á fjallið er landsverkefni UMFÍ sem verið hefur virkt í 15 ár og er liður í verkefninu Göngum um Ísland. Verkefnið gengur út á að settar eru gestabækur á rúmlega 20 fjöll víðsvegar um landið með það að markmiði að fá fjölskyldur í létta fjallgöngu og stuðla þannig að aukinni samveru og útivist. Þetta er í fyrsta skipti sem HSS tekur þátt í verkefninu. Við hvetjum alla til að fara norður og ganga á Reykjaneshyrnu í sumar!





Búið er að útbúa sérstaka vefsíðu hér á HSS-vefnum um þetta góða verkefni.
Skoðið hana með því að smella hér (einnig er hægt að velja síðuna í valstikunni hér efst á vefnum).


  

15.06.2012 10:30

Vesturlandsmót í frjálsum í næstu viku

Dagana 19.-20. júní 2012 verður blásið til frjálsíþróttamóts á vegum fjölmargra héraðssambanda á vestanverðu landinu. Á mótið eru allir velkomnir sem áhuga hafa á aldrinum 11 ára (árgangur 2001) og eldri. Þátttökugjöld eru 500 kr. á keppanda.

Mótið hefst kl. 18.00 báða dagana á frjálsíþróttavellinum í Borgarnesi. Fyrri daginn er keppt í öllum greinum hjá 11 og 12 ára, en líklegt er að báða dagana verði keppnisgreinar fyrir 13 ára og eldri. Keppnisgreinar og tímaseðill verða birt fyrir helgina. Skráningar þurfa að berast til Arnars Jónssonar framkvæmdastjóra HSS í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is í síðasta lagi sunnudaginn 17. júní.

Við hvetjum iðkendur til að mæta - stefnt er að skemmtilegu móti - og við hvetjum foreldra til að fylgja börnum sínum á mótið - því það er svo gaman :)

15.06.2012 09:14

Unglingalandsmót - ætlar þú að fara?


Nú er sumarið að nálgast fullan skrúða og eflaust margir farnir að huga að ferð á Unglingalandsmót á Selfossi um verslunarmannahelgina. Nú er hægt að skrá þá sem hyggjast fara á mótið á vegum HSS með því að senda tölvupóst á framkvæmdastjóra sambandsins í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is. Það er ekki verra að vera snemma í því - það auðveldar alla skipulagningu og utanumhald.

Ekki er enn búið að gefa upp keppnisgjald, en ljóst er að HSS mun niðurgreiða það eins og undanfarin ár. Búið er að ákveða að halda opinn undirbúningsfund fyrir keppendur af Ströndum mánudaginn 30. júlí - staðsetning og tími verður nánar auglýstur síðar - fylgist með!

15.06.2012 01:23

Víðavangshlaup í Árneshreppi




Í fjöldamörg ár hefur verið hefð að halda víðavangshlaup í Árneshreppi á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Bjarnheiður Fossdal, eða Badda eins og flestir þekkja hana, hafði samband og sagði að þessi ágæti viðburður væri að sjálfsögðu enn  við lýði og allir sem hefðu áhuga á að mæta væru hjartanlega velkomnir. Þeir sem vilja skjótast norður á sunnudaginn ættu að hringja í Böddu til að fá frekari upplýsingar með tímasetningu o.þ.h. Hæ, hó, jibbí jey!

14.06.2012 09:55

Sundmót Umf. Neista þjóðhátíðardaginn 17. júní

Ungmennafélagið Neisti á Drangsnesi heldur hressilegt sundmót í sundlauginni á Drangsnesi á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Mótið er ætlað öllum aldurshópum og allir - syndir eða ósyndir - geta tekið þátt í mótinu (þeir sem eiga erfitt með sundtökin fá að líkindum hjálp við að komast í mark).

Raðað verður í hentuga keppnisflokka á staðnum eftir getu, stærð og öðru tilheyrand og fá allir verðlaun! Skráning er á staðnum og mótið hefst kl. 13:00. Strandamenn eru hvattir til að mæta á þessa skemmtilegu nýbreytni í íþróttaflórunni á Ströndum!

13.06.2012 12:29

Námskeið í Taekwondo




Í sumar verður boðið upp á Taekwondo-námskeið á Hólmavík! Íþróttin á rætur sínar í Kóreu og er einstaklega skemmtileg og öðruvísi bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt sem hæfir öllum frá 6 ára aldri. Íþróttin byggist fyrst og fremst á sjálfsvörn þar sem fæturnar eru í aðalhlutverki. Taekwondo er aðallega gerð fyrir það að kunna að verja sig, ekki til þess að læra að slást eða meiða andstæðinginn.

Námskeiðin standa yfir í fjórar vikur. Þau hefjast miðvikudaginn 20. júní, en skráningu verður að vera lokið þann 17. júní. Til að skrá sig eða fá nánari upplýsingar skal hafa samband í s. 659-1731 eða á netfangið ingiberla@gmail.com. Þátttakendum verður skipt í 6-12 ára og 13-16 ára hópa, en einnig er boðið uppá fullorðinsnámskeið fyrir foreldra. Þjálfari námskeiðsins er Ingibjörg Erla Árnadóttir, 2 svartar rendur á rauða belti. Aðstoðarmenn eru Arnar Sigurðsson og Steinn Ingi Árnason.

Verð fyrir námskeiðið er aðeins kr. 4.900 fyrir 6-12 ára, 5.900 fyrir 13-16 ára og 6.900 fyrir fullorðna. Veglegur afsláttur er gefinn ef fleiri en einn aðili úr sömu fjölskyldu tekur þátt - ef fleiri en tveir æfa er bara borgað fyrir tvo úr sömu fjölskyldu. Fimm manna fjölskylda þyrfti þá bara að borga fyrir tvo dýrustu. Strandamenn eru hvattir til að nýta sér þetta flotta námskeið til hins ítrasta!

12.06.2012 12:51

Kvennahlaup ÍSÍ á Drangsnesi og Hólmavík

Kvennahlaupið fer fram í 23. skipti um allt land laugardaginn 16. júní - og líka á Hólmavík og Drangsnesi. Hlaupið á Hólmavík hefst við Íþróttamiðstöðina á Hólmavík kl. 11:00. Hægt er að velja um að hlaupa 1, 3, 5 eða 10 km. vegalengdir. Forskráning fer fram hjá Ingu Sigurðar í s. 847-4415 eða á netfangið ingasig@holmavik.is. Frítt verður í sund fyrir þátttakendur í Íþróttamiðstöð Hólmavíkur eftir hlaupið. Á Drangsnesi verður hlaupið frá Fiskvinnslunni Drangi kl. 11:00. Vegalengdir í boði eru 3 km. og 5 km., forskráning í Kaupfélaginu.

Konur á Ströndum eru innilega hvattar til að taka virkan þátt í hlaupinu.

Sjá má alla hlaupastaði á landinu með því að smella hér.
 

12.06.2012 12:43

Skákhátíð á Ströndum - allir að taka þátt!

Skákíþróttin á góðar rætur á starfssvæði HSS á Ströndum. Undanfarin ár hafa að vísu ekki verið haldin Héraðsmót í skák, en það gæti staðið til bóta á komandi starfsári. Hins vegar er öllum Strandamönnum boðið að taka þátt í Skákhátíð á Ströndum sem fer fram um allar Strandir helgina 22.-24. júní nk. Að minnsta kosti þrír stórmeistarar munu leika listir sínar á Skákhátíð á Ströndum 2012. Helgi Ólafsson, Djúpavíkurmeistari 2008 og 2009, Jóhann Hjartarson Djúpavíkurmeistari 2010 og Stefán Kristjánsson, yngsti stórmeistari okkar, sem nú kemur á Strandir í fyrsta sinn.

Hátíðin hefst í Bragganum á Hólmavík kl. 16:00 föstudaginn 22. júní, þegar Róbert Lagerman skákmeistari teflir fjöltefli við heimamenn. Um kvöldið er svo hið vinsæla tvískákarmót á Hótel Djúpavík. Laugardaginn 23. júní er komið að stórmóti í samkomuhúsi Trékyllisvíkur: Afmælismóti Róberts Lagerman, en hann verður fimmtugur síðar í sumar. Ljóst er að þar verður hörð barátta um titilinn, og skemmtilegt mót í uppsiglingu. Sunnudaginn 24. júní verður svo að vanda keppt um titil Norðurfjarðarmeistara í Kaffi Norðurfirði, sem tvímælalaust er með notalegustu kaffihúsum landsins.

Auk taflmennskunnar verður efnt til fótboltaleiks gesta og heimamanna úr UMF Leifi heppna, efnt til brennu í fjörunni, svo nokkuð sé nefnt. Síðast en ekki síst gefst gestum hátíðarinnar kostur á að skoða landsins fegurstu og afskekktustu sveit.

12.06.2012 11:24

Æfingatafla Geislans komin á vefinn



Nú er sumarstarf aðildarfélaga HSS óðum að hefjast. Fyrsta æfingatafla sumarsins er komin inn á vefinn okkar, en vefsíðu með æfingadagskrá má alltaf sjá með því að smella hér (eins er dagskráin á valflipanum hér fyrir ofan). Búið er að ráða fótboltaþjálfara til Geislans, en það eru þeir Jóhannes Helgi Alfreðsson og Darri Hrannar Björnsson.

Eins er Geislinn búinn að opna nýja síðu á Fésbókinni. Hana má sjá með því að smella hér - allir áhugasamir eru hvattir til að "læka" hana!

29.05.2012 18:14

Sumarnámskeið á Hólmavík fyrir 6-13 ára krakka

Kátir krakkar á Polla- og pæjumóti á Hamingjudögum 2011

Sumarnámskeiðið Viltu koma út að leika? verður haldið á Hólmavík í sumar fyrir börn á aldrinum 6-13 ára. Námskeiðið mun standa yfir í tvær vikur alla virka daga á tímabilinu 9.-20. júlí og fer að öllu leyti fram utandyra. Þessi skemmtilega hugmynd og framkvæmd kemur frá systrunum Árnýju Huld og Guðmundínu Arndísi Haraldsdætrum sem eru jafnframt leiðbeinendur á námskeiðinu. 

Helstu viðfangsefni námskeiðsins eru skynfæri og hreyfigeta, útileikir, þrautir, sögur og ævintýri. Þáttakendum verður skipt upp í tvo hópa, 6-10 ára og 11-13 ára og mun yngri hópurinn vera á námskeiðinu frá kl. 10:00-12:00 og eldri hópurinn frá kl. 13:00-15:00.

Verð fyrir námskeiðið er kr. 10.000.- fyrir hvert barn, en jafnframt er veittur systkinaafsláttur á þann veg að greiddar eru 7.500 kr. fyrir annað barn, 5.000 kr. fyrir þriðja og fjórða barn.

Skráning fer fram hjá Árnýju í netfangið arnyhuld@hotmail.com eða í síma 848 4090. Fólk er beðið um að skrá börn sín til leiks í síðasta lagi sunnudaginn 1. júlí. Ef lágmarksfjöldi þátttakenda næst ekki fellur námskeiðið niður. 

29.05.2012 00:19

Úthlutað úr sérsjóði HSS

Í apríllok var auglýst vel og rækilega eftir umsóknum frá aðildarfélögum HSS í sérsjóð sambandsins, en í hann fer 10% af innkomnu fé frá Lottó. Forgangsverkefni sjóðsins er að styðja við endurbætur og uppbyggingu á íþróttaaðstöðu á starfssvæði sambandsins sem og að veita fjármagni til annarra
verkefna svo sem þjálfunar, óvæntra áfalla, ferðakostaðar á mót, nýjungar í starfi og fleira. 

Tvær umsóknir bárust og ákvað stjórn HSS á stjórnarfundi sínum 2. maí 2012 að úthluta báðum umsóknaraðilum kr. 250.000.- Annars vegar var þar um að ræða Skíðafélag Strandamanna sem sótti um styrk vegna framkvæmda í Selárdal og hins vegar sótti Umf. Neisti um styrk til að reisa geymsluhúsnæði við nýjan sparkvöll á Drangsnesi. 

HSS óskar styrkþegunum til hamingju og hvetur félögin til dáða við uppbygginguna.
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25