31.07.2011 22:39

Fréttir frá ULM

Þriðja keppnisdegi á ULM er lokið. Branddís Ösp Ragnarsdóttir og Helga Dögg Lárusdóttir kepptu í langstökki í flokki 13 ára. Ólafur Johnsson keppti líka í langstökki  í flokki 12 ára og Guðjón Bjarki Hildarson í 600 m. hlaupi í flokki 13 ára.

Stelpur 11-12 ára fengu silfurverðlaun í körfubolta, stelpur 17-18 ára fengu gullverðlaun í körfubolta.

Stelpur 17-18 ára fengu bronsverðlaun í fótbolta, strákar 11-12 ára náðu 5. sæti í fótbolta.

Strákar 17-18 ára, Guðjón Þórólfsson, Ólafur Másson, Benedikt Bjarkason, Magnús Ingi Einarsson og félagar hlutu gullverðlaun í fótbolta.

Fleiri myndir frá keppninni á ULM eru komnar inná heimasíðu HSS.

 

30.07.2011 23:24

Annar keppnisdagur á ULM

Keppnisdegi númer tvö á ULM er lokið. Arna Sól Mánadóttir náði 5. sæti í spjótkasti í flokki 14 ára, Guðjón Bjarki Hildarson keppti í langstökki og bætti sinn árangur, stökk 4,11m í flokki 13 ára. Íris Jóhannsdóttir keppti líka í langstökki og bætti líka sinn árangur, stökk 3,09 í flokki 12 ára. 

Keppni í körfubolta og fótbolta gekk ágætlega. Allir keppendur og mótsgestir á tjaldsvæði USVH og HSS eru nú saddir og glaðir eftir glæsilega grillveislu hjá Húnvetningum. 

Það er búið að setja myndir af keppninni á ULM í myndaalbúm hér á síðunni okkar.

29.07.2011 23:42

Fyrsti keppnisdagur ULM

Keppni á fyrsta keppnisdegi ULM á Egilsstöðum er lokið. Keppendur frá HSS náðu mjög góðum árangri í frjálsum, Hadda Borg Björnsdóttir varð ULM meistari í hástökki í flokki 18 ára, með stökki yfir 1,62m. 

Harpa Óskarsdóttir varð líka ULM meistari í spjótkasti í flokki 13 ára, hún kastaði spjótinu 31,74m.
Ólafur Johnsson varð í 3. sæti í spjótkasti, í flokki 12 ára stráka. Harpa og Helga Dögg kepptu einnig í kúluvarpi. 

Guðjón Þórólfsson keppti í hástökki í flokki 18 ára og náði 4. sæti með stökki yfir 1,87m er það bæting hjá honum um 4 cm. Hadda Borg var einnig að bæta sinn árangur um 1 cm, frábært hjá þeim báðum.

Krakkar frá HSS hafa einnig í dag verið að keppa í fótbolta og körfubolta. Nú eru allir búnir að fá sér kakó og kvöldsnarl í samkomutjaldi USVH.

25.07.2011 08:17

Úrslit á Héraðsmóti 2011

Úrslit í flokkum 11 - 16 ára eru komin inn á heimasíðu FRÍ fri.is.  Undir tenglinum mót og mótaforrit, þar er hægt að velja Héraðsmót HSS 23. júlí 2011.

18.07.2011 22:54

Skráning á ULM Egilsstöðum

Stjórn HSS ákvað að HSS mun greiða 3.500kr af keppnisgjaldinu á ULM á Egilsstöðum.

Skráningargjaldið á mótið er 6000kr.
 
Keppendur HSS á ULM sendi skráningar á netfangið vp@internet.is.

Eftirfarandi þarf að koma fram við skráningu: 
 
Þær íþróttagreinar sem keppandi ætlar að taka þátt í.
Nafn keppenda og foreldris eða forráðamanns á mótsstað.
Kennitala keppanda og foreldris. 
GSM númer keppenda og foreldris, heimasími.
Hvenær kemur keppandi á mótstað.

Ef keppandi keppir í fleiri en 1 grein t.d. frjálsum, fótbolta og körfu, þarf keppandi að gefa upp forgangsröðun á greinum ef tímasetning greinanna rekst á. 

Endilega farið að senda inn skráningar sem allra fyrst.

Skráningarfrestur á mótið rennur út þann 24. júlí.

15.07.2011 16:23

Friðarhlaupið 2011

Friðarhlaupar verða á ferðinni við Hólmavík á morgun laugardag kl. 13:30.  Tuttugu hlauparar frá 13 þjóðlöndum eru að hlaupa hringinn í kringum Ísland. Skipuleggjendur hlaupsins vilja endilega fá sem flesta til að hlaupa með þeim hérna við Hólmavík, t.d. frá golfskálanum út á Grundum og innað sundlauginni á Hólmavík. 

Þar stoppa hlauparnir smástund áður en þeir halda hlaupinu áfram. Það er því um að gera fyrir skokkara, börn og unglinga sem langar til að hlaupa i friðarhlaupinu og fá kannski að halda á friðarkyndlinum að skella sér í hlaupaskóna á morgun. Hlauparnir verða komnir að golfskálanum um kl. 13:00 á morgun.

14.07.2011 20:52

Héraðsmót HSS í frjálsum

Laugardaginn 23. júlí n.k. verður Héraðsmót HSS í frjálsum á Sævangsvelli. Mótið hefst kl. 13:00.
 
Keppnisgreinar eru eftirfarandi:
Hnátur og hnokkar 10 ára og yngri: 60m hlaup, langstökk og boltakast.
Stelpur og strákar 11 - 12 ára: 60m hlaup, langstökk, kúluvarp og spjótkast.
Telpur og piltar 13 - 14 ára: 100m hlaup, langstökk, hástökk, kúluvarp og spjótkast.
Meyjar og sveinar: 100m og 800m hlaup, langstökk, hástökk, kúluvarp, kringlukast og spjótkast.
Konur og karlar: 100m, 800m, 1500m, 4x100m boðhlaup, langstökk, hástökk, kúluvarp, kringlukast og spjótkast.
30 ára og eld. Konur, 35 ára og eld. karlar: 100m, 800m hlaup, langstökk, hástökk, kúluvarp, kringlukast og spjótkast.

Forsvarsmenn aðildarfélaganna taka við skráningum fyrir sitt félag.  Skráningum skal skila í síðasta lagi föstudaginn 22. júlí kl: 13:00.

Sjáumst hress og kát í Sævangi á laugardaginn 23. júlí, frjálsíþróttamönnum hjá nágrönnum okkar í UDN (Dalamenn og Reykhólasveit) og USVH  (V-Húnvetningar) eru sérstaklega boðin velkominn að taka þátt í mótinu hjá okkur.

07.07.2011 15:49

Æfingadagskrá Umf. Hörpu komin á vefinn

Ungmennafélagið Harpa í Bæjarhreppi lætur ekki sitt eftir liggja. Nú er æfingaplan sumarsins 2011 frá þeim komið hingað inn á vefinn, Hægt er að skoða það með því að smella á valflipann sem heitir "Æfingadagskrá 2011" á valstikunni hér fyrir ofan.

Menn eru jafnframt hvattir til að vera duglegir að mæta á æfingar hjá sínum félögum, enda nálgast Héraðsmót HSS óðfluga. Það verður haldið á Sævangi laugardaginn 23. júlí nk. og skráning á það verður auglýst innan skamms hér á vefnum og í dreifibréfi.
 

07.07.2011 01:20

Æfingadagskrá Geisla og Neista komin á netið

Nú er æfingaplan Umf. Geislans og Umf. Neista komið hér inn á vefinn undir flipanum "Æfingadagskrá 2011" hér fyrir ofan. Endilega smellið á flipann hvenær sem er til að sjá æfingadagskrána!
 

07.07.2011 00:44

Jón Bjarni Bragason náði stórkostlegum árangri á NM öldunga

Gamla HSS- og Hvatarkempan Jón Bjarni Bragason frá Heydalsá gerði frábæra hluti á Norðurlandamóti 35 ára og eldri sem fram fór í Lappeenranta í Finnlandi. Jón Bjarni keppir fyrir Breiðablik í Kópavogi í flokki 40-45 ára.

Hann sigraði í hvorki fleiri né færri en fimm greinum; kúluvarpi, kringlukasti, sleggjukasti, lóðkasti og kastfimmtarþraut. Íslenski hópurinn sem samanstóð af átta keppendum náði fínum árangri og vann til samtals tíu verðlauna, en Jón Bjarni var sá eini sem vann gullverðlaun.
 
Fræðast má nánar um afrek hópsins á vefsíðunni http://fri35plus.blogcentral.is. HSS óskar Jóni Bjarna innilega til hamingju með glæsilegan árangur.


 

07.07.2011 00:23

Polla- og pæjumót HSS tókst vel




Polla- og pæjumót HSS fór fram á sparkvellinum við Grunnskólann á Hólmavík síðasta föstudag. Mótið var á dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík og var afskaplega vel sótt og vel heppnað í alla staði. Skipt var í lið á staðnum, en alls tóku 28 krakkar þátt sem verður að teljast mjög góður fjöldi.



Stjórnarmenn í HSS, þeir Vignir Örn Pálsson og Þorsteinn Newton, báru hitann og þungann af skipulagningu og utanumhaldi mótsins sem var stutt og snarpt. Leiða má líkur að því að staðsetning mótsins hafi ráðið miklu um hversu góð þátttakan var. Að móti loknu fengu allir þátttakendur afhenta þátttökupeninga og fóru glaðir og ánægðir heim.
 

27.06.2011 10:38

Frábær árangur Strandamanna á Landsmóti 50+

Keppendur frá HSS gerðu góða ferð á Landsmót 50 ára og eldri sem fór fram á Hvammstanga nú um helgina. Hlaupagarpurinn Rósmundur Númason krækti sér í tvö silfur, annað í 60 metra hlaupi og hitt í 3000 m. hlaupi. Þá náði Rósi einnig í eitt brons í fjallaskokki í flokki 50 ára og eldri. Glæsilegur árangur þarna á ferðinni.

Hjónin Guðmundur Victor Gústafsson og Birna Richardsdóttir kepptu í golfkeppni mótsins og náðu glæsilegum árangri, Guðmundur Victor varð í öðru sæti karla og Birna endaði í þriðja sæti í kvennaflokki.

Stærsti hópurinn frá HSS keppti í bridge og náðu þar ágætum árangri. Önnur sveitin, skipuð þeim Karli Þór Björnssyni, Guðbrandi Björnssyni, Jóni Ólafssyni og Sigfinni lenti í fjórða sæti eftir að hafa verið í verðlaunasæti lengi fram eftir keppninni. Sveit skipuð þeim Ingimundi Pálssyni, Birni Pálssyni, Maríusi Kárasyni og Guðjóni Dalkvist urðu tíunda sæti. 

Ingimundur Pálsson lét sér ekki nægja að keppa í briddsinu. Hann lét bæta sér við í keppni í dráttarvélaakstri á sunnudag og sá hreint ekki eftir því þar sem hann náði öðru sæti með glæsilegum akstri. Í efsta sæti varð Skúli Einarsson bóndi á Tannstaðabakka sem fór villulaust í gegnum brautina.

Við óskum okkar fólki innilega til hamingju með góðan árangur og óskum nágrönnum okkar í USVH einnig til hamingju með vel heppnað mótshald!

23.06.2011 09:39

Enn hægt að skrá sig á landsmót 50+

Fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Hvammstanga um næstu helgi. Vegna fjölmargra fyrirspurna hefur verið ákveðið að áfram verði hægt að skrá sig til leiks á Landsmót UMFÍ 50 +. Keppnisgreinar á mótinu eru: blak, bridds, boccia, badminton, frjálsar íþróttir, fjallaskokk, hestaíþróttir, golf, pútt, línudans, skák, sund, þríþraut, starfsíþróttir (búfjardómar, dráttavélaakstur, jurtagreining, pönnukökubakstur og kökuskeyting). 

Þátttökugjald er 3.000 krónur óháð fjölda greina sem keppt er í. Innifalið í gjaldinu eru frí tjaldstæði í Kirkjuhvammi á Hvammstanga þessa helgi og frítt á alla viðburði sem verða í gangi í tengslum við mótið.

,,Við ákváðum að hafa opið áfram fyrir skráningar vegna fjölda fyrirspurna. Allur undirbúningur fyrir mótið gengur að óskum og allt verður klárt þegar keppendur mæta á staðinn. Við bíðum spennt eftir því að taka á móti keppendum og gestum," sagði Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri Landsmót UMFÍ 50+.  
 
Frétt tekin af umfi.is.
 

20.06.2011 09:54

Síðasti séns til skráningar á Landsmót 50+

Eins og flestir vita verður fyrsta Landsmót 50 ára og eldri haldið nú um næstu helgi á Hvammstanga. Þar verður keppt í fjölmörgum keppnisgreinum, en hægt er að sjá dagskrá og upplýsingar um allar greinarnar með því að smella hér.

Nú þegar hafa tvær vaskar keppnissveitir í bridds skráð sig til leiks á mótinu undir merkjum HSS. Betur má þó ef duga skal og eru Strandamenn hvattir til að skrá sig til leiks og fjölmenna síðan til nágranna okkar um helgina. Skráningarformið er sáraeinfalt, þátttökugjald er aðeins kr. 3000 pr. einstakling og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á mótinu; t.d. spila starfsíþróttir eins og pönnukökubakstur, jurtagrening og dráttarvélaakstur stóra rullu í dagskránni.

Ef menn telja sig þurfa aðstoð við skráningu eða önnur atriði varðandi mótið er velkomið að hafa samband við Arnar í s. 894-1941 eða í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

Hér er hægt að skrá sig til leiks, en skráningarfresturinn rennur einmitt út í dag, þann 20. júní. Ekki láta þig vanta á Hvammstanga um næstu helgi! 

08.06.2011 00:48

Hættu að hanga!

Síðasta sunnudag hófst átaksverkefni á vegum UMFÍ sem ber heitið Hættu að hanga! Komdu að hjóla, synda eða ganga!. Verkefnið stendur yfir frá 5. júní til 15. september 2011. Verkefnið fór fyrst af stað á síðasta ári og voru undirtektir góðar. Megintilgangur þess er að hvetja einstaklinga, fyrirtæki, fjölskyldur og hópa til að hreyfa sig og stunda heilbrigða lifnaðarhætti. 

Þátttakendur skrá inn þá hreyfingu sem þeir stunda inn á vefinn ganga.is. Sú hreyfing sem hægt er að skrá er hjóla a.m.k. 5 km, synda 500 m, ganga eða skokka 3 km og ganga á fjöll. Fyrir að hreyfa sig í 30 skipti fá þátttakendur bronsmerki, silfurmerki fyrir 60 skipti og gullmerki fyrir 80 skipti. Einnig eiga þátttakendur kost á öðrum veglegum verðlaunum fyrir þátttöku sína.

Öllum er heimil þátttaka óháð aldri en hægt er að velja milli þátttöku í einstaklingskeppni, hópakeppni eða fyrirtækjakeppni. 

HSS hvetur alla Strandamenn til að taka þátt í verkefninu í sumar og skrá árangur sinn á ganga.is! Hættum að hanga í sumar :)
 
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25