03.06.2011 15:18

Kvennahlaup á Drangsnesi

Eina auglýsta kvennahlaupið á Ströndum í ár fer fram á Drangsnesi, laugardaginn 4. júní og hefst kl. 11:00. Hlaupið verður frá Fiskvinnslunni Drangi og forskráning fer fram í Kaupfélaginu á Drangsnesi. Ekki hafa önnur hlaup verið auglýst á Ströndum í ár.

Yfirskrift Kvennahlaupsins í ár er "Hreyfing allt lífið" og er það unnið í samstarfi við Styrktarfélagið Líf. Mikilvægt er að konur á öllum aldri stundi reglulega hreyfingu, ekki síður á meðgöngu og að henni lokinni. Líf styrktarfélag vinnur að því að styrkja fæðingarþjónustu og kvenlækningar á kvennadeild Landspítalans. Markmiðið er að byggja upp öfluga miðstöð fæðinga og kvenlækninga á Íslandi og mun miðstöðin þjónusta konur og fjölskyldur þeirra. Hægt er að gerast styrktarfélagi Lífs á heimasíðunni www.gefdulif.is
  

03.06.2011 14:54

Skráning hafin á Landsmót 50+



Nú er skráning hafin á Landsmót UMFÍ 50+ sem verður haldið á Hvammstanga helgina 24.-26. júní. Gaman væri ef sem flestir myndu taka þátt í fjörinu og fjölmenna á landsmótið hjá nágrönnum okkar þessa helgi.
 
* Skráning og allar upplýsingar um mótið má nálgast á vefnum www.landsmotumfi50.is.
 
* Allir geta tekið þátt í landsmóti 50+ óháð því hvort þeir eru í ungmennafélagi eða ekki.
 
* Þátttökugjald er kr. 3000 pr. einstakling. Gjaldið er óháð fjölda keppnisgreina og innifalið í því er frítt á tjaldsvæðið á Hvammstanga yfir helgina og frír aðgangur á alla viðburði í tengslum við mótið.
 
* Keppnisgreinar á mótinu eru blak, bridds, boccia, badminton, frjálsar íþróttir, fjallaskokk, hestaíþróttir, golf, pútt, línudans, skák, sund, þríþraut og starfsíþróttir (jurtagreining, búfjárdómar, pönnukökubakstur, dráttavélaakstur og kökuskreyting).
 

24.05.2011 23:42

Norræn ungmennavika fyrir 14-24 ára

 
Ungmennafélag Íslands auglýsir eftir þátttakendum á aldrinum 14 - 24 ára til að taka þátt í norrænni ungmennaviku á vegum NSU, sem verður í Svíþjóð, Álandseyjum og Finnlandi. "Að upplifa list og leiki í nýjum löndum"  verður þema ungmennavikunnar. Ævintýrið hefst í Stokkhólmi þann 31.júlí nk. Síðan verður farið til Álandseyja og þaðan til Finnlands þar sem þessu lýkur.

Verð er kr. 60.000.- og er flug og uppihald innifalið í því.  UMFÍ styrkir einstaklinga innan sinna vébanda  og kemur það til lækkunar á framangreindu verði.  Eins gefum við upplýsingar um möguleika á frekari styrkjum. Íslenskur fararstjóri frá UMFÍ fer með hópnum. 

Umsóknarfrestur er til 31. maí nk. og senda skal umsóknir í netfangið omar@umfi.is.

Áhugasamir aðilar innan HSS mega gjarnan hafa samband við framkvæmdastjóra í síma 8-941-941 eða í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is - hann er reiðubúinn til að aðstoða við samskipti og gerð umsóknar ef þörf krefur.
 

24.05.2011 23:34

Nám hjá Keili fyrir áhugasama

Tromp er 3ja anna skemmtilegt og óhefðbundið nám í verkefna- og viðburðastjórnun en meðfram bóklegu námi vinna nemendur í hópum við raunveruleg verkefni og viðburði fyrir samstarfsfyrirtæki Trompsins. Markmiðið með verkefnunum er að veita nemendum tækifæri til að setja fræðilegt nám í raunverulegt samhengi og prófa hlutina á eigin skinni og læra þannig af mistökum. Þannig öðlast nemendur heilmikla praktíska reynslu á meðan á náminu stendur. Námið er blanda af fjarnámi og staðarnámi.
 
Námið hentar vel fyrir:
   * Frumkvöðla
   * Fjölmiðlafólk
   * Tónlistarfólk, leikara og aðra sjálfstætt starfandi listamenn
   * Þá sem vilja breyta heiminum
   * Millistjórnendur sem vilja aukna reynslu
   * Fólk í íþróttahreyfingunni 
   * Fólk í ferðaþjónustunni
   * Fólk sem starfar við hjálparsamtök
   * Fólk í sölu- og viðskiptum
   * Þá sem vilja verða eitthvað af þessu
 
Umsóknarfrestur til 6. júní.
 
Nánari upplýsingar um námið:

10.05.2011 08:36

Aðalbjörg og Rósmundur fengu starfsmerki UMFÍ

 


Á ársþingi HSS um liðna helgina notuðu menn að sjálfsögðu tækifærið til að hrósa fyrir það sem vel er gert í starfi sambands og ungmennafélaga. Hrósið kom einnig frá utanaðkomandi aðilum og góðum gestum þingsins; þeim Gunnlaugi Júlíussyni langhlaupara og varastjórnarmanni ÍSÍ, Guðmundi Hauki Sigurðssyni formanni USVH og Sæmundi Runólfssyni framkvæmdastjóra UMFÍ.

Sæmundur notaði tækifærið og veitti tveimur einstaklingum starfsmerki UMFÍ, en starfsmerkið er veitt fólki sem hefur starfað á öflugan hátt innan íþrótta- og ungmennahreyfingarinnar um árabil. Það voru þau Rósmundur Númason í Skíðafélagi Strandamanna og Aðalbjörg Óskarsdóttir í Umf. Neista sem hlutu merkið. Þau hafa bæði starfað í mörg ár við íþrótta- og ungmennastarf á Ströndum og innan HSS og eiga svo sannarlega þennan heiður skilinn!
 
Héraðssambandið óskar þeim Aðalbjörgu og Rósmundi innilega til hamingju með viðurkenninguna og framlag þeirra til hreyfingarinnar í gegnum árin.


 

09.05.2011 17:11

Skíðafélagið fékk UMFÍ-bikar HSS




Á nýafstöðnu ársþingi HSS í Norðurfirði var Skíðafélagi Strandamanna veittur farandbikar til varðveislu í eitt ár, en bikarinn var gefinn af UMFÍ á 60 ára afmæli HSS árið 2004. Bikarinn er veittur einstaklingi eða félagi sem hefur skarað fram úr að einhverju leyti eða unnið vel og dyggilega í þágu íþróttahreyfingarinnar inn Héraðssambandsins. Skíðafélagið hefur verið afskaplega öflugt við að efla og halda uppi skíðaíþróttinni á Ströndum undanfarin ár og skammt er að minnast frábærs árangurs unga fólksins á Andrésar Andar leikunum, þar sem 4 gull, 3 silfur og 3 brons komu með heim í farteskinu.

Vignir Örn Pálsson afhenti Rósmundi Númasyni, skíðafrömuði og Vasa-garpi bikarinn til varðveislu í eitt ár.

08.05.2011 14:14

Hadda Borg er íþróttamaður ársins

 


Á 64. ársþingi HSS sem fram fór á Kaffi Norðurfirði laugardaginn 7. maí var tilkynnt um úrslit í kjöri á Íþróttamanni ársins 2010. Að þessu sinni var það Hadda Borg Björnsdóttir sem hlaut afgerandi kosningu og var því vel að sigrinum komin. Formaður HSS, Vignir Örn Pálsson, afhenti Höddu veglegan farandbikar við þetta tækifæri.

Hadda Borg Björnsdóttir er fædd 1993. Hún náði frábærum árangri í hástökki árið 2010. Hún vann m.a. til gullverðlauna á Unglingalandsmóti og í sínum aldursflokki á Meistaramóti Íslands með því að stökkva yfir 1,61 á báðum mótunum. Þá varð hún í þriðja sæti á Reykjavíkurleikunum í upphafi árs 2011 auk þess að vinna sigur í mörgum greinum á Héraðsmóti í Sævangi.

Héraðssambandið óskar Höddu innilega til hamingju með útnefninguna og hvetur hana til frekari dáða og afreka á komandi árum.

06.05.2011 16:20

Breytt staðsetning á ársþingi HSS

Rétt er að minna á að 64. ársþing HSS verður haldið á morgun, laugardaginn 7. maí. Þingið hefst kl. 13:00 og fer fram á Kaffi Norðurfirði, en ekki í Félagsheimilinu Árnesi eins og stóð í fundarboði. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Nánar má fræðast um ársþingið með því að smella hér.

06.05.2011 11:34

Landsmót 50+ á Hvammstanga



Nú líður óðum að fyrsta landsmóti UMFÍ fyrir 50 ára og eldri, en það verður haldið hjá nágrönnum okkar á Hvammstanga dagana 24.-26. júní. Strandamenn yfir fimmtugu og aðildarfélög HSS eru því hvött til að fara að skoða þátttöku á mótinu, en mikill fjöldi keppnisgreina er í boði fyrir áhugasama íþróttagarpa, t.d. blak, bridds, boccia, badminton, frjálsar íþróttir, fjallaskokk, hestaíþróttir, golf, pútt, línudans, skák, sund og þríþraut. HSS mun án efa senda vaska sveit á mótið, enda ekki langt að fara!

Mótið er sannkölluð fjölskylduhátíð með fjölbreyttri dagskrá. Ásamt keppni í hinum ýmsu íþróttagreinum verða fyrirlestrar og sýningahópar. Allir, jafnt ungir sem eldri,  eiga að finna eitthvað við sitt hæfi þessa helgi sem mótið fer fram. 

Framkvæmd mótsins er í höndum Ungmennafélags Íslands og USVH í samstarfi við sveitarfélagið Húnaþing vestra. Aðrir samstarfsaðilar að mótinu eru Félag áhuga fólks um íþróttir aldraðra og Landssamband eldri borgara.

05.05.2011 10:24

Ný stjórn Umf. Hörpu

Ungmennafélagið Harpa í Bæjarhreppi hélt aðalfund þann 23. apríl síðastliðinn. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf að venju, en það heyrði til tíðinda að ný stjórn var kjörin á fundinum. Ný stjórn Umf. Hörpu er þannig skipuð:

Formaður:     Jón Pálmar Ragnarsson, Kollsá
Ritari:            Ingimar Sigurðsson, Kjörseyri
Gjaldkeri:      Alda Sverrisdóttir, Brekkukoti
 

04.05.2011 10:58

Tímamótasamningur um starf framkvæmdastjóra HSS

Sannkallaður tímamótasamningur var gerður milli Strandabyggðar og Héraðssambands Strandamanna á dögunum. Samningurinn er til eins árs og snýst um að tómstundafulltrúi Strandabyggðar, Arnar Snæberg Jónsson, tekur að sér framkvæmdastjórn sambandsins til 1. apríl 2012. Arnar er tómstunda- og félagsmálafræðingur frá Háskóla Íslands, en hann mun sinna starfinu í 10% stöðu á ársgrundvelli ásamt öðrum störfum tómstundafulltrúa. Mörg undanfarin ár hafa framkvæmdastjórar Héraðssambandsins starfað í þrjá mánuði yfir sumarið, oftast í 50% starfi, en nýja samkomulagið gerir sambandinu kleift að efla starfið utan sumarsins. Sérstaklega er litið til þess að efla upplýsingagjöf, kynningu, samskipti og aðstoð við aðildarfélög HSS, UMFÍ og ÍSÍ auk þess sem framkvæmdastjórinn sinnir skipulagningu fyrir mót og kynningu á úrslitum eftir þau.

Vignir Örn Pálsson, formaður HSS og Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar skrifuðu glöð í bragði undir samninginn eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan. Nýskipaður framkvæmdastjóri, Arnar Snæberg Jónsson, situr milli þeirra.


Vignir formaður og Ingibjörg skrifa undir samninginn























Allir glaðir!





















03.05.2011 00:25

Hjólað í vinnuna













Í dag, miðvikudaginn 4. maí, hefst heilsu- og hvatningarátakið Hjólað í vinnuna. Það stendur yfir til 24. maí, en skráningar fara fram á vefsíðunni www.hjoladivinnuna.is. Það er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sem stendur fyrir átakinu sem var fyrst haldið árið 2003, en meginmarkmið þess er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfis-vænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Keppnin er ætluð vinnustöðum og starfsmönnum þeirra. Rétt er að vekja athygli á því að allir geta tekið þátt í Hjólað í vinnuna svo lengi sem þeir nýta eigin orku til að koma sér til og frá vinnu þ.e. hjóla, skokka, ganga, nota línuskauta o.s.frv.

HSS hvetur sem flest fyrirtæki á Ströndum til að taka þátt í þessu skemmtilega átaki - skráning fer fram á www.hjoladivinnuna.is !!

25.04.2011 15:50

Ársþing HSS 2011


64. ársþing HSS verður haldið í Félagsheimilinu Árnesi þann 7. maí kl. 13:00.
 
Dagskrá:
 
1. Þingsetning.
2. Tilnefning fundarstjóra, varafundarstjóra, og tveggja fundarritara.
3. Skipun kjörbréfanefndar.
4. Skýrsla stjórnar.
5. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.
6. Skýrsla framkvæmdastjóra.
7. Kosning nefnda þingsins
     a) Uppstillingarnefnd.  
     b)  Fjárhagsnefnd. 
     c)  Íþróttanefnd        
     d)  Allsherjar og laganefnd.
8. Framkomnar tillögur lagðar fram og vísað til nefnda.
9. Nefndarstörf.
10. Nefndarálit, umræður og atkvæðagreiðslur.
11. Kosningar. 
      a)  Stjórn og varastjórn.
      b)  Tveir endurskoðendur og tveir til vara. 
      c)  Ráð og nefndir skv. gildandi samþykktum og reglugerðum.
12. Önnur mál.
13. Þingslit.
 
Öllum meiri háttar málum skal vísað til nefnda.Fjárhagsnefnd skal fjalla um reikninga og fjárhagsáætlun næsta árs. Einfaldur meirihluti ræður afgreiðslu mála á ársþingi HSS, nema um lagabreytingu sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Mikilvægt er að kjörbréf komi með þingfulltrúum.
  
Fulltrúafjöldi félaga: 
Harpa - 5
Hvöt - 5
Geislinn - 16
Golfkl. Hólmavíkur - 4
Skíðafélag Str. - 7
Neisti - 6
Sundf. Grettir - 5
Leifur Heppni - 5
Með félagskveðju, Vignir Örn Pálsson, formaður HSS.
 

30.03.2011 18:55

Dagskrá fyrir Laugafjör.

Föstudagur:
Byrjað verður á gönguferð og leikjum með Jógu
Eftir kvöldmat verður síðan sundlaugarpartý
Seinna um kvöldið spilum við og höfum gaman saman.

Laugardagur:
Kl. 09:00 Morgunmatur
Kl. 09:30 Batik á boli. (A.T.H!!! allir þurfa að koma með gamlan bol til að gera batik á)
Kl. 11:00 Blak, Freyja Ólafs kynnir
Hádegismatur
13:30 Körfubolta-kynning
15:00 Frágangur

Munið eftir sængurfatnaði og útifötum :)

Skráning er fram á annað kvöld, 31. mars.

30.03.2011 07:35

Leiðbeinendanámskeið í stafgöngu.

Laugardaginn 2. apríl stendur ÍSÍ fyrir leiðbeinendanámskeiði sem gefur réttindi til kennslu í stafgöngu (skv. stöðlum Alþjóða stafgöngusambandsins).

Námskeiðið verður haldið í fundarsal ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og stendur frá kl. 9:00 - 17:00.

Námskeiðið er ætlað fagfólki s.s. íþróttakennurum, sjúkraþjálfurum, hjúkrunarfræðingum, þroskaþjálfum, iðjuþjálfum og læknum.

Námskeiðið er tvíþætt þ.e. núna í apríl (8 tímar) og síðan aftur seinna í vor eða sumar (4 tímar).

Námskeiði er bæði verklegt og bóklegt. Farið verður í undirstöðuatriði stafgöngu, tækni og þjálfunaraðferðir.

Leiðbeinandi er íþróttakennarinn Ásdís Sigurðardóttir.

Námskeiðsgjald er kr. 16.000 og innifalið í því eru öll gögn og kennsla.

Skráning hjá ÍSÍ í síma 514-4000 eða netfang: kristin@isi.is fyrir fimmtudaginn 31. mars.

Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25