Færslur: 2008 Ágúst

25.08.2008 11:20

Meistaramót 15-22 ára

HSS átti tvo keppendur á meistaramóti Íslands 15-22 ára, sem haldið var á Sauðárkróki helgina 23.-24. ágúst. Guðjón Þórólfsson keppti í hástökki 15-16 ára og gerði sér lítið fyrir og sigraði en hann stökk 1,78. Hadda Borg Björnsdóttir keppti einnig í hástökki 15-16 ára og hafnaði í 5. sæti er hún stökk 1,49.

06.08.2008 11:52

Fundur með framkvæmdastjóra

Áætlaður er fundur með framkvæmdastjóra Unglingalandsmóts strax í næstu viku. Í framhaldi af honum er áætlaður fundur með íbúum á svæðinu. En það er æðislegt að finna fyrir þessum áhuga og ég er alveg sammála að við þurfum að byrja strax. Það sem ég átti við á Strandaspjallinu þegar ég sagði að ákveðin forvinna hefði átt  sér stað er að þegar við sóttum um þá þurftum við að setja aðeins niður hjá okkur hvar við ætluðum að staðsetja hlutina og hvernig við ætluðum að framkvæma keppnina sjálfa. En það er margt annað sem þarf að gera og nú er sú vinna og skipulagning að byrja.
Saman og með bjartsýnina að vopni þá getum við þetta.

06.08.2008 11:13

Umsókn

Svona leit umsókn HSS til UMFÍ út þegar við sóttum im að halda Unglingalandsmót:


Hólmavík 19.desember.2007

 

 

Til stjórnar UMFÍ

 

EFNI:

 

Umsókn HSS um að halda Unglingalandsmót á Hólmavík árið 2010.

 

Greinargerð:

 

Á Hólmavík er öflugt íþróttalíf og mikil þátttaka unglinga í íþróttum, má ætla að um 90% unglinga stundi hér íþróttir og margir fleiri en eina grein. Sveitarfélagið hefur stutt myndarlega við bakið á íþróttastarfi og er nýlokið mikilli uppbyggingu á íþróttamannvirkjum í sveitarfélaginu. Má þar nefna, ný sundlaug 25 metra útisundlaug er risin, ásamt nýju og flottu íþróttahúsi. Ásamt þessu er eldra íþróttahús sem yrði nýtt undir íþróttaviðburði á Unglingalandsmóti. Meðfylgjandi er viljayfirlýsing frá sveitarfélaginu til að halda áfram uppbyggingu og lána öll mannvirki til að unnt sé að halda hér glæsilegt Unglingalandsmót.

     Er okkur kleift að bjóða upp á eftirtaldar íþróttagreinar á Unglingalandsmóti 2010: Glíma, frjálsar, körfubolti, fótbolti, sund, golf, hestaírþróttir, motorcross og skák.  Einnig yrði boðið upp á skemmtigrein fyrir alla áhugasama sem kallast trjónubolti og hefur verið iðkað hér um slóðir í nokkur ár. Lítið þyrfti að bæta við að geta boðið upp á allar þessar greinar, einungis frjálsíþróttavöll og reiðvöll. En teljum við að það yrði lítið mál því nú þegar hafa sjálfboðaliðar haft samband og vilja leggja lið til að af þessu gæti orðið.

     Mikil náttúrufegurð er við Hólmavík og mikil veðursæld. Einnig er hér margt við að vera fyrir utan íþróttir má þar nefna siglingar um Steingrímsfjörð, Galdrasafnið, Sauðfjársetur og gönguleiðir í náttúrunni sem eru alveg yndislegar og láta engan ósnortinn sem ganga þar um.

     Hér eru mikil og góð opin svæði þar sem auðvelt væri að koma fyrir tjaldbyggð eins og þekkt er orðin á Unglingalandsmótum. Auðvelt yrði að koma þangað rennandi vatni og rafmagni. Allar leiðir eru stuttar hér og allt er göngufæri. En til að ferja fólk lengstu leiðirnar sem þyrfti að fara ætlum við að hafa rútur í förum á milli.

     HSS er lítið félag á landsmælikvarða en krafturinn í félaginu er mikill og þar er kjörorðið margar hendur vinna létt verk. Yrði það mikil lyftistöng ef ákveðið yrði að halda Unglingalandsmót á Hólmavík og veit ég að hér er hægt að halda glæsilegt Unglingalandsmót árið 2010.

 

                                  

     Má segja að undirbúningsvinna sé þegar hafin af hálfu sveitarfélagsins og einnig HSS. Hafa aðilar beggja hist og sett saman helstu áherslur. Teljum við að þetta sé lykillinn að því að halda stórt og glæsilegt mót, það er að byrja strax að vinna og vera samstíga í ferlinu til að allir viti hvað hinn er að hugsa.

     Hlökkum við til að vinna með UMFÍ til að halda hér glæsilegt mót eins og UMFÍ er einu lagið og í anda þess.

 

 

 

                                                Íslandi allt

                                                Jóhanna Ása Einarsdóttir

                                                Formaður HSS.

 

 

 

04.08.2008 17:44

Unglingalandsmót 2010

Til hamingju Strandamenn. Unglingalandsmót UMFÍ árið 2010 verður haldið á Hólmavík. Var þetta tilkynnt á laugardag. Nú þurfum við að bretta upp ermar og gera þetta að veruleika.  Við gerum þetta öll saman og það með stæl.

04.08.2008 17:41

Unglingalandsmóti í Þorlákshöfn lokið

Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn er lokið. Átti HSS 36 keppendur sem stóðu sig með mikilli prýði og voru sér og sínum til mikillar fyrirmyndar. Gaman var að sjá hvað foreldrar voru duglegir að fylgja börnum sínum eftir og ber að þakka það. Vorum við í samstarfi við USVH og gekk það rosalega vel. Takk fyrir helgina allir og sjáumst hress í Grunarfirði 2009.
  • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 662
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 183172
Samtals gestir: 21868
Tölur uppfærðar: 5.4.2025 12:59:20