Færslur: 2011 September

23.09.2011 10:20

Æfingar hjá Umf. Geislanum í vetur

 


Nú er vetrarstarf að hefjast hjá flestum aðildarfélögum HSS. Hér ofar á síðunni, undir flipanum "Æfingadagskrá" verður æfingaplan félaganna sett upp á aðgengilegan hátt og verður þar í allan vetur. Æfingaplan Umf. Geislans á Hólmavík er nú þegar komið á síðuna, en þar er öflugt starf fjóra daga í viku. Sjáið æfingaplanið með því að smella hér.

Formenn eða umsjónaraðilar aðildarfélaga og HSS (og annarra íþróttafélaga) eru eindregið hvött til að senda æfingadagskrár vetrarins til birtingar hér á vefnum, auk annarra frétta af starfsemi félaganna. Netfangið er tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

 

19.09.2011 10:00

Mótorkrossarar í Landanum



Í sjónvarpsþættinum Landanum sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var rætt við unga og sprellfjöruga iðkendur í Mótorkrossfélagi Geislans sem hefur aðsetur sitt á mótorkrossbrautinni rétt utan við Hólmavík. Mikil vinna hefur verið lögð í uppbyggingu brautarinnar undanfarin ár, en hún ber nafnið Skeljavíkurbraut og er lögleg 1.400 metra löng keppnis- og æfingabraut fyrir fyrir minni hjól eða fyrir hjól með allt að 85cc tvígengis- eða 125 fjórgengisvélum.
 
Unga fólkið okkar kom að vanda vel fyrir í þættinum og var íþróttamenningunni á Ströndum til mikils sóma.
 

13.09.2011 09:42

Hlaupagikkir á Ströndum standa sig vel



Við lok Hamingjuhlaupsins 2011 - ljósm. Gunnlaugur Júlíusson
 
Hlaupa- og göngumenningin á Ströndum er í miklum blóma um þessar mundir. Ef vel er að gáð má sjá skokkara, göngufólk og maraþonhlaupara víða þessi misserin, enda kjöraðstæður á Ströndum til hlaupa; falleg náttúra, hreint loft og tiltölulega fáfarnir vegir og slóðar sem henta vel til æfinga. Nokkrir vaskir hlauparar frá Hólmavík hafa tekið þátt í hlaupum á Suðvesturhorni landsins undanfarin misseri.

Í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fór þann 20. ágúst hljóp Kristinn Schram á Hólmavík heilt maraþon á tímanum 4:08:52 og var í 283. sæti af 446 þátttakendum í karlaflokki. Hólmvíkingurinn Rósmundur Númason keppti í hálfmaraþoni og lauk keppni á tímanum 2:14:11. Þá hljóp Ingibjörg Emilsdóttir á Hólmavík 10 km. á tímanum 1:00:25. Sá árangur tryggði henni sæti 805 af 2322 keppendum.
 
Strandamaðurinn Stefán Gíslason hljóp sitt níunda heila maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Hann lauk keppni á tímanum 3:20:21 og var í 55. sæti í karlaflokki, en þátttakendur þar voru 446 talsins. Stefán hefur að vanda verið afar iðinn við kolann í sumar og hlaupið víða um land. Hægt er að fræðast nánar um hlaup Stefáns á bloggsíðu hans, http://stefangisla.wordpress.com.

Nokkrir brottfluttir Hólmvíkingar tóku einnig þátt og náðu afbragðs árangri. Kolbrún Unnarsdóttir hljóp hálft maraþon á 2:13:38 klst, og í 10 km hlupu m.a. Helena Jónsdóttir á 52:29 mín. og Guðný Guðmundsdóttir á 1:13:48. Tími Helenu dugði henni í 123. sæti sem verður að teljast mjög góður árangur.

Keflvískir Strandamenn gerðu síðan víðreist þann 3. september, en þá fór Reykjanesmaraþonið fram. Þar hljóp Ingibjörg Emilsdóttir 10 km. og bætti hún tíma sinn úr Reykjavíkurmaraþoninu um tæpar þrjár mínútur, hljóp á 57 mínútum og 35 sekúndum. Inga varð í 14. sæti af 33 keppendum í kvennaflokki. Marsibil Freymóðsdóttir hljóp 10 km. á tímanum 1:10:08 og lenti í 29. sæti, en þetta var í fyrsta skipti sem Marsibil tekur þátt í svo löngu hlaupi. Kolbeinn Skagfjörð Jósteinsson keppti í 10 km. karla og hljóp á 56 mínútum og 6 sekúndum sem dugði honum í 21. sæti.
 
Hér með eru Strandamenn hvattir til að taka fram strigaskóna og skella sér út að ganga, skokka og hlaupa!

HSS-vefurinn vill gjarnan fá sendar fréttir eða ábendingar af iðkun eða afrekum Strandamanna á íþróttasviðinu. Senda má ábendingar í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.

 

12.09.2011 10:46

Harpa Óskars er skíðamaður ársins


Keppendur á Firmamóti Skíðafélagsins 2011 - ljósm. http://mundipals.123.is.

Skíðafélag Strandamanna er geysiöflugt íþróttafélag. Starfsemi þess í vetur er þegar hafin, en undanfarna sunnudaga hafa félagar hist einu sinni í viku á nýmalbikuðu plani milli Hólmadrangs og Hleinar á Hólmavík og æft þar á hjóla- eða línuskautum.

Uppskeruhátíð félagsins fyrir árið 2011 haldin í lok ágúst. Þá gerðu menn sér góðan dag, grilluðu lambalæri af Ströndum og heiðruðu þá sem stóðu sig vel á síðasta starfsári. Afhentar voru viðurkenningar fyrir ástundun og framfarir á síðasta keppnistímabili. Einnig voru afhent verðlaun fyrir fjögur skíðamót sem haldin voru síðastliðinn vetur. Fjögur ungmenni fengu bikar fyrir góða ástundun en það voru þau Númi Leó Rósmundsson, Branddís Ösp Ragnarsdóttir, Stefán Snær Ragnarsson og Hilmar Tryggvi Kristjánsson. Hilmar Tryggvi fékk einnig bikar fyrir framfarir síðastliðinn vetur.
 
Síðast en alls ekki síst má nefna að skíðamaður ársins hjá félaginu var kosin Harpa Óskarsdóttir, en hún stóð sig frábærlega og sigraði t.d. bæði í göngu með hefðbundinni aðferð og frjálsri aðferð á Andrésar-andarleikunum á Akureyri.
 
Hægt er að fylgjast með starfsemi Skíðafélagsins á vefsíðu þess, http://sfstranda.blogcentral.is
 
 

06.09.2011 11:27

Vetraropnun í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík

Vetraropnun í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík tók gildi 1. september s.l. eins og sjá mér hér.
 
Sú breyting verður á opnunartíma sundlaugarinnar þessa fyrstu góðviðrisdaga í haust meðan sundkennsla fer fram fyrir nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík, að opið verður fyrir almenning í hádeginu mánudaga - fimmtudaga milli kl. 12:00 - 13:00 og eftir kl. 14:00.

Frétt tekin af www.strandabyggd.is.
 

06.09.2011 08:50

Vignissynir kepptu í Borgarnesi

Bræðurnir Friðrik Heiðar og Jón Haukur Vignissynir kepptu fyrir HSS á fjölþrautarmóti Skallagríms sem fram fór á Skallagrímsvelli í Borgarnesi laugardaginn 3. september sl. Piltarnir stóðu sig með miklum sóma, en þeir voru yngstir keppenda á mótinu. Báðir hafa verið virkir þátttakendur á íþróttamótum á Ströndum undanfarin ár. Greinarnar sem þeir kepptu í voru kúluvarp, 60 m. hlaup, langstökk og 400 m. hlaup.

HSS óskar þeim bræðrum og foreldrum þeirra til hamingju, bæði með þátttökuna í mótinu og líka með litlu systur þeirra sem kom í heiminn þann 5. september sl. Þar græddi HSS án efa framtíðarafrekskonu!
 
 

06.09.2011 08:39

Fjarnám í þjálfaramenntun

ÍSÍ býður upp á fjarnám í þjálfaramenntun 1. og 2. stigs á haustönn 2011. 

Fjarnám 1. stigs hefst 26. september og er skráningarfrestur til fimmtudagsins 22. september.  Námið gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar og er öllum opið sem lokið hafa grunnskólaprófi.  Þátttökugjald er kr. 24.000.- og eru þá öll námskeiðsgögn innifalin.  Námið jafngildir ÍÞF 1024 í framhaldsskólum og er metið í báðar áttir milli skólakerfisins og ÍSÍ.

Fjarnám 2. stigs hefst 3. október og er skráningarfrestur til 29. september.  Námið gildir, eins og nám á 1. stigi, jafnt fyrir allar íþróttagreinar og er opið öllum sem lokið hafa námi á 1. stigi almenns hluta eða sambærilegu námi s.s. Íþr 1024 í framhaldsskóla.  Þátttakendur þurfa einnig að hafa 6 mánaða starfsreynslu sem þjálfarar og að hafa lokið skyndihjálparprófi.

Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ og fjarnámið gefur sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ á vidar@isi.is eða í síma 460-1467.

Frétt tekin af vef ÍSÍ, www.isi.is.
 
  

05.09.2011 09:21

Sumarlok hjá Umf. Hörpu

Nú er æfingum og sumarstarfi flestra ungmennafélaganna á Ströndum að ljúka. Sumarstarfi Umf. Hörpu í Bæjarhreppi lauk formlega með sameiginlegri knattspyrnu- og frjálsíþróttaæfingu miðvikudagskvöldið 17. ágúst síðastliðinn á Kollsárvelli, en starf félagsins hefur að vanda verið öflugt í sumar.

Eftir skemmtilega æfingu voru grillaðar pulsur fyrir iðkendur og aðra sem mættu, en fjölmargir foreldrar og aðstandendur mættu á svæðið og tóku þátt í vel heppnuðu kvöldi. Þó svo að sumarstarfinu hjá Hörpu sé formlega lokið eru enn þó nokkrir keppendur sem stunda íþróttir af fullum krafti og fara á þau mót sem í boði eru. Í tilkynningu frá stjórn Umf. Hörpu kemur fram að stjórnin vill þakka iðkendum innan raða félagsins innilega fyrir sumarið, auk þess sem kærum þökkum er komið á framfæri til þjálfara og aðstandenda fyrir vel unnin störf og gott samstarf í sumar, ásamt öllum þeim sem aðstoðuðu við allt það sem gera þurfti.

Hér fyrir neðan gefur að líta nokkrar myndir sem Guðbjörg Jónsdóttir á Kolbeinsá tók við þetta tækifæri.








 

05.09.2011 08:57

FC Grettir gerir það gott í boltanum



Knattspyrnukappar úr Sundfélaginu Gretti, ásamt öðrum knáum fótboltaköppum af Ströndum, hafa í sumar verið að spila í svonefndri Carlsberg-deild í fótbolta. Liðið gengur þar undir nafninu FC Grettir og í stuttu máli sagt hefur liðinu gengið afskaplega vel, unnið sjö leiki af níu, gert eitt jafntefli og tapað einum leik. Þá hefur liðið raðað inn 54 mörkum og einungis fengið á sig fjórtán.

Deildarkeppninni er nú lokið og FC Grettir endaði í efsta sæti síns riðils, en deildinni er skipt upp í fjóra riðla. Fjögur efstu lið riðlanna komast áfram í úrslitakeppni sem hefst innan skamms.

Hér má sjá lokastöðuna í riðlinum.
 

05.09.2011 08:36

Hadda náði í silfur á Meistaramóti Íslands 15-22 ára



Íþróttamaður HSS árið 2010, Hadda Borg Björnsdóttir, slær ekki slöku við í hástökkinu. Hún keppti í hástökki fyrir hönd HSS á Meistaramóti Frjálsíþróttasambands Íslands 15-22 ára, en mótið fór fram á Akureyri helgina 26.-27. ágúst. Hadda vippaði sér þá yfir 1,54 m. Sú hæð dugði henni í annað sætið sem er frábær árangur á jafn sterku móti og raun ber vitni.
 
  • 1
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25