Færslur: 2012 Apríl

28.04.2012 13:00

Hjólað í vinnuna - skráning hafin

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir heilsu- og hvatningarverkefninu Hjólað í vinnuna í tíunda sinn dagana 9. - 29. maí 2012. Búið er að opna fyrir skráningu vinnustaða í keppnina. Heimasíða verkefnisins er á slóðinni hjoladivinnuna.is.

Við hjá HSS hvetjum alla vinnustaði á Ströndum - og Strandamenn alla - til að fara að huga að undirbúningi fyrir átakið og hvetja sína starfsmenn til að taka fram hjólið og gera það klárt - því það er svo gaman að hjóla :)

27.04.2012 14:27

Strandakrakkar fjölmenna á Hólafjör

Reykhólar - ljósm. tekin af strandir.is

Það er gaman að segja frá því að krakkar af Ströndum virðast ætla að fjölmenna á Hólafjör sem nágrannar okkar í UDN standa fyrir í dag og á morgun. Að sögn Rebekku Eiríksdóttur kennara, bónda og ungmennafélagsforkólfs á Stað eru um 40 krakkar skráðir í fjörið og þar af eru um 15 krakkar frá Ströndum. 

Við hjá HSS óskum okkar góðu nágrönnum í UDN til hamingju með þessa fínu þátttöku og vonum að allir skemmti sér hið besta!

Minnum einnig á skráningu á sundmót UDN og HSS - fresturinn til að skrá sig rennur út Í DAG.

25.04.2012 00:08

Minnt á umsóknarfrest í sérsjóð HSS

Við hjá HSS minnum aðildarfélög sambandsins á umsóknarfrest í sérsjóð sambandsins. Umsóknarfrestur er til og með mánudagsins 30. apríl nk. Umsóknir sem berast eftir miðnætti þann dag eru ekki teknar gildar. Sérsjóðurinn styrkir margvísleg verkefni á vegum aðildarfélaganna, en það er stjórn HSS sem tekur ákvörðun um og úthlutar styrkjunum.

Sækja skal um skriflega. Senda má umsókn með landpóstinum eða í netfangið tomstundafulltrui@trandabyggd.is. Umsókn verður að halda innihalda lýsingu á fyrirhuguðu verkefni.

24.04.2012 11:38

Fundarboð vegna 65. ársþings HSS

Ársþing HSS árið 2012 verður haldið í Tangahúsinu á Borðeyri sunnudaginn 6. maí kl. 13:00.

Dagskrá þingsins:
1. Þingsetning
2. Tilnefning fundarstjóra, varafundarstjóra, og tveggja fundarritara
3. Skipun kjörbréfanefndar
4. Skýrsla stjórnar
5. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar
6. Skýrsla framkvæmdastjóra
7. Kosning nefnda þingsins
      a. Uppstillingarnefnd
      b. Fjárhagsnefnd
      c. Íþróttanefnd
      d. Allsherjar og laganefnd
8. Framkomnar tillögur lagðar fram og vísað til nefnda
9. Nefndarstörf
10. Nefndarálit, umræður og atkvæðagreiðslur
11. Kosningar
       a. Stjórn og varastjórn
       b. Tveir endurskoðendur og tveir til vara.
       c. Ráð og nefndir skv. gildandi samþykktum og reglugerðum.
12. Önnur mál
13. Þingslit

Öllum meiri háttar málum skal vísað til nefnda. Fjárhagsnefnd skal fjalla um reikninga og fjárhagsáætlun næsta árs. Einfaldur meirihluti ræður afgreiðslu mála á ársþingi HSS, nema um lagabreytingu sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Mikilvægt er að kjörbréf komi með þingfulltrúum.

Fulltrúafjöldi aðildarfélaga árið 2012 er eftirfarandi:
Umf. Geislinn.......................... 20
Skíðafélag Strandamanna.......... 7
Umf. Neisti............................... 6
Umf. Harpa.............................. 5
Umf. Hvöt............................... 5
Umf. Leifur Heppni.................... 5
Sundfélagið Grettir................... 5
Golfklúbbur Hólmavíkur.............. 4

24.04.2012 11:33

Héraðsmót í bridds verður þriðjudaginn 1. maí


Ný tímasetning hefur verið fundin á Héraðsmót í tvímenningi sem var frestað um síðustu helgi. Það mun fara fram þriðjudaginn 1. maí kl. 13:00 í Félagsheimilinu í Árnesi. Þeir sem hafa hug á að taka þátt geta leitað nánari upplýsinga hjá Munda Páls, en Briddsfélag Hólmavíkur fer með umsjón mótsins fyrir HSS.

23.04.2012 09:06

Héraðsmóti í bridds frestað

Vegna óviðráðanlegra ástæðna þurfti að fresta héraðsmóti í tvímenningi sem fara átti fram í félagsheimilinu í Árnesi í gær. Ný dagsetning og tímasetning verður auglýst hér á HSS-vefnum um leið og hún liggur fyrir.

23.04.2012 08:48

Nýjar stjórnir í Geisla, Leifi Heppna og Hörpu

Aðalfundur Umf. Geislans var haldinn þann 4. apríl sl. Á fundinum var kjörin ný stjórn félagsins, en meðal þeirra sem komu nýjir inn í stjórn var Árný Huld Haraldsdóttir sem var kjörinn formaður en Bryndís Sveinsdóttir lét af embætti formanns.

Ný stjórn Umf. Geislans lítur þannig út:
Árný Huld Haraldsdóttir formaður
Jóhann Áskell Gunnarsson gjaldkeri
Jóhann L Jónsson varaformaður
Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir ritari
Snorri Jónsson meðstjórnandi

Þá var aðalfundur Umf. Leifs heppna í Árneshreppi haldinn á skírdag, þann 5. apríl. Þar var einnig kosinn nýr formaður félagsins í stað Hilmars V. Gylfasonar. 

Ný stjórn Umf. Leifs Heppna er þannig skipuð:
Guðbrandur Óli Albertsson formaður
Ingvar Bjarnason varaformaður
Bjarnheiður Júlía gjaldkeri
Arnar H. Ágústsson meðstjórnandi
Árný Björk Björnsdóttir ritari

Ungmennafélagið Harpa hélt sinn aðalfund á Borðeyri mánudaginn 9. apríl. Á honum var sama stjórn kjörin og setið hefur síðasta ár. 

Í stjórn Umf. Hörpu eru:
Jón Pálmar Ragnarsson formaður
Ingimar Sigurðsson ritari
Alda Berglind Sverrisdóttir gjaldkeri


Héraðssamband Strandamanna óskar öllum kjörnum stjórnarmönnum innilega til hamingju með embættin og vonast til góðs samstarfs og öflugs félagsstarfs á komandi ári!

21.04.2012 09:47

Hólafjör UDN - Strandakrökkum boðið að vera með!

Hólafjör verður haldið í Reykhólaskóla dagana 27.-28. apríl. Hólafjör er skemmtilegur viðburður fyrir krakka í 5.-10. bekk Reykhólaskóla, Auðarskóla og grunnskólana á Ströndum. Í kjölfarið verður haldið sameiginlegt sundmót UDN og HSS sem áður hefur verið auglýst hér á HSS-síðunni.

Skráning er hjá Rebekku Eiríksdóttur í s. 894-9123 eða bekka@simnet.is og hjá Herdísi Reynisdóttur í s. 434-1541 eða í netfangið efrimuli@snerpa.is. Það kostar aðeins kr. 1.500 að taka þátt í Hólafjörinu. Skráning þarf að fara fram fyrir kl 17:00 miðvikudaginn 25. apríl. Ef lágmarksþátttökufjöldi næst ekki gæti Hólafjör fallið niður.

Til að geta haldið viðburð af þessu tagi þurfa foreldrar að leggjast á eitt og vera tilbúnir að hjálpa til. Foreldrar af Ströndum sem geta komið og tekið þátt í verkefninu ættu endilega að láta vita af sér.
Þátttakendur þurfa að hafa með sér svefnpoka, kodda, lak, sundföt, íþróttaföt, útiföt, skemmtileg spil og DVD myndir og góða skapið.

Föstudagur 27. apríl

16:00-19:00 - Mæting og Box-kynning. Þátttakendum skipt upp í hópa og hver hópur fær klukku­stund í boxi. Hóparnir sem ekki eru í boxi hafa kost á að fara í boccia. Þegar allir hópar hafa farið í box, verður kynning á hvernig keppni fer fram, og e.t.v. prófað að keppa á móti andstæðingi.
19:45 - Matur. Pizza fyrir alla.
20:15 - Kvöldvaka undirbúin. Allir sem áhuga hafa að vera með ,,uppistand" eða taka þátt í að setja upp litla ör-leikþætti þurfa að gefa sig fram. Afraksturinn verður svo sýndur síðar um kvöldið.
20:20 - Skákmót. Ef áhugi er fyrir hendi verður haldið örmót í skák, einnig verða í boði ýmis spil og fleira fram að kvöldvöku.
21:30 - Kvöldvaka. Leikhópurinn sýnir afrakstur sinn ásamt öllum sem vilja láta ljós sitt skína. Farið í hópeflisleiki. Diskótek og sprell fram að miðnætti.
24:00 - Hugað að háttatíma.
01:00 - Ró komin á. Allir farnir að sofa. Gist í herbergjum og skólastofum.

Laugardagur 28. apríl

09:00-10:00 - Morgunmatur.
10:00-13:00 - Smiðjur. Í boði verða 6 smiðjur. Þegar krakkarnir skrá sig til þátttöku þarf að nefna þá smiðju sem þau vilja helst fara í og svo eina til vara vegna takmarkaðs þátttökufjölda. Smiðjurnar standa yfir í um tvær klukkustundir.
· Myndlistarsmiðja. Dagrún Magnúsdóttir mun kenna m.a. vatnslitamálun.
· Matreiðsla. Bakað og eldað, eitthvað gott.
· Útileikir. Farið í ýmsa skemmtilega útileiki í nágreninu.
· Ljósmyndasmiðja. Toni mun kenna hina ýmsu möguleika sem stafrænar myndavélar bjóða uppá. Nauðsynlegt að koma með myndavél.
· Hárgreiðslusmiðja. Silvía mun kenna m.a. ýmsar hárgreiðslur og fl. Ef einhvern vantar módel þá verður hægt að bjarga því, bara að skrá sig. Gott er að hafa hárbusta og greiðu með prjóni með sér.
· Tálg-smiðja. Farið út í skóg og tálgað, val um nokkur verkefni.

12:30-13:30 - Matur og frágangur.
13:45 - Heimferð eða... Sundmót UDN og HSS

Mætum öll og tökum þátt í fjörinu!

20.04.2012 10:20

Sundmót UDN og HSS laugardaginn 28. apríl

Sameiginlegt sundmót UDN og HSS verður haldið í Grettislaug á Reykhólum laugardaginn 28. apríl kl. 14:00. Allir eru hjartanlega velkomnir á mótið. Þeta er tilvalið tækifæri fyrir krakkana okkar (og alla þá fullorðnu líka) til að sýna hvað í þeim býr í lauginni. Umf. Afturelding í Reykhólahreppi verður með pylsur og svala til sölu. Það er um að gera að smella sér yfir Þröskulda þennan sólríka laugardag, keppa í sundi og eiga góðan dag. 

Greinarnar á mótinu eru eftirfarandi:
8 ára og yngri  - 25 m bringusund og 25 skriðsund
9-10 ára - 25 m bringusund,  25 m baksund og 25 m skriðsund
11-12 ára  - 50 m bringusund, 25 m baksund, 50 m skriðsund og 25 m flugsund
13-14 ára - 50 m bringusund, 50 m baksund, 100 m bringusund, 50 m skriðsund og 25 m flugsund
15-16 ára - 50 m bringusund, 50 m baksund, 200 m bringusund, 50 m skriðsund og 25 m flugsund
17 ára og eldri - 50 m bringusund, 50 m baksund, 200 m bringusund, 50 m skriðsund, 100 m fjórsund (flugsund, baksund, bringusund og skriðsund) og 4x50 m boðsund.

Skráning fer fram í síma 690-3825 og í netfangið gustafjo@mmedia.is (Herdís). Skráningarfrestur er til föstudagsins 27. apríl.

20.04.2012 09:51

Héraðsmót í bridds á sunnudag


Héraðsmót í tvímenningi verður haldið í Félagsheimilinu í Árnesi í Trékyllisvík næstkomandi sunnudag, þann 22. apríl. Mótið hefst kl. 13:00 og hefur HSS samið við Briddsfélag Hólmavíkur um að hafa umsjón með framkvæmd mótsins, en Umf. Leifur Heppni í Árneshreppi mun án efa taka spilurunum opnum örmum. 

Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar um mótshaldið geta sett sig í samband við Munda Páls í s. 893-1140, en annars er nóg að mæta á staðinn klár í spilamennskuna. 

Vonast er til að sem allra flestir sjái sér fært að mæta, en Héraðsmótið er að sjálfsögðu afbragðs æfing fyrir Landsmót 50 ára og eldri sem fram fer í Mosfellsbæ 8.-10. júní í sumar. Allir sem hyggjast taka þátt þar eru hvattir til að skrá sig með því að smella hér.

20.04.2012 09:26

Andrésarfarar standa sig vel - Friðrik með gull

Friðrik Heiðar Vignisson hampar verðlaunum eftir vel heppnaða göngu - ljósm. ÞSF

Í dag er annar keppnisdagur á Andrésar-andarleikunum á Akureyri, en keppni hófst í gær með pompi og prakt og góðri þátttöku Strandamanna í skíðagöngu. Í gær kepptu alls ellefu Strandakrakkar og sex þeirra náðu á pall. Einn náði sér í gullverðlaun, en það var Friðrik Heiðar Vignisson sem sigraði í 1. km. göngu næsta örugglega í sínum aldursflokki.

Öll úrslit í skíðagöngu gærdagsins má nálgast með því að smella hér, en keppnin mun að sjálfsögðu halda áfram í dag.

17.04.2012 12:58

Öflugt starf árið 2011 hjá Umf. Hörpu

Á Kollsárvelli, ljósm. Guðbjörg Jónsdóttir

Nú líður að ársþingi HSS, en það verður haldið á Borðeyri sunnudaginn 6. maí nk. og hefur verið boðað með pósti til aðildarfélaga sambandsins. Ársskýrslur eru þegar farnar að berast frá félögunum. Félagið sem stendur á bakvið ársþingið í ár og tekur á móti gestum er Umf. Harpa í Bæjarhreppi. Ungmennafélagið var stofnað árið 1925 og hefur æ síðan verið styrk stoð í samfélaginu í Hrútafirðinum. Hér fyrir neðan gefur að líta brot úr ársskýrslu Umf. Hörpu fyrir árið 2011, en það var viðburðaríkt og skemmtilegt ár hjá félaginu.

Þorrablót 2011
Árlegt þorrablót Ungmennafélagsins Hörpu og Kvenfélagsins Iðunnar var haldið í skólahúsinu á Borðeyri 19. febrúar. Ágæt mæting var á blótið. Dansinn stóð langt fram á nótt og hljómsveit Skúla á Tannstaðabakka hélt upp fjörinu.

Íþróttaæfingar
Æfingar félagsins hófust fyrri part júnímánaðar og voru haldnar á Kollsárvelli. Bæði frjálsíþróttaæfingar og fótboltaæfingar voru í boði. Fótboltaæfingar voru á fimmtudögum. Frjálsíþróttaæfingar voru á þriðjudögum. Þjálfarar voru:
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, frjálsar
Alexandra Rán Hannesdóttir og Kári Ragnarsson, fótbolti

Goggi galvaski
Arna Sól Mánadóttir í Hörpu keppti í spjótkasti í flokki stúlkna 13-14 ára. Hún náði mjög góðum árangri og kastaði spjótinu 29,33 m, sem skilaði henni 2. sætinu. Goggi galvaski er frjálsíþróttamót fyrir 14. ára og yngri. Mótið var haldið á Varmárvelli í Mosfellsbæ 1. júlí.

Héraðsmót HSS
Héraðsmót HSS var haldið á Sævangsvelli 23. júlí. 13 keppendur tóku þátt fyrir hönd félagsins. Umf. Harpa var í 2. sæti í stigakeppni félaga á eftir Geislanum frá Hólmavík. Mjög góður árangur. Fyrir neðan er listi yfir keppendur félagsins á mótinu.

Unglingalandsmót 2011
Unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Egilsstöðum 29-31 júlí. Keppt var í 11 greinum. Nokkrir félagar í Hörpu kepptu á mótinu, í frjálsum, fótbolta, körfubolta og fleiru. Líkt og undanfarin ár höfðu HSS og USVH samstarf með sér í kringum mótið og mynduðu sameiginleg lið í hópíþróttagreinum, t.d. körfubolta og fótbolta.

Jólasveinn félagsins
Fyrir jólin 2011 kom sú hugmynd upp að félagið fengi einn sniðugan jólasvein til að koma jólagjöfum til ungmenna í sveitinni. Jólasveinninn síkáti safnaði saman jólagjöfum og dreifði þeim um sveitina, börnum, ungmennum og öðrum til ánægju. Samstarf jólasveinsins og Hörpu tókst vel upp. Góðar líkur eru á því að hóað verði í jólasveinninn fyrir næstu jól til áframhaldandi samstarfs.

Lokaæfing sumarsins og grill
Sumarstarfi félagsins lauk formlega með lokaæfingu og grillveislu á Kollsárvelli þann 17. ágúst. Eftir skemmtilega æfingu voru pylsur grillaðar fyrir iðkendur og aðra sem mættu.

Stjórn UMF Hörpu þakkar iðkendum, keppendum og öðrum félagsmönnum fyrir árið 2011 og vonar að árið 2012 verði gott og gæfuríkt.

Ritað í apríl 2012,
Jón Pálmar Ragnarsson, formaður
Ingimar Sigurðsson, ritari
Alda Berglind Sverrisdóttir, gjaldkeri

17.04.2012 10:41

Kraftmiklir Strandamenn sigra í skíðagöngum


Það er ekkert lát á öflugu starfi Skíðafélags Strandamanna og góðum árangri skíðamanna af Ströndum. Innanfélagsmót hafa verið haldin í Selárdal undanfarið, m.a. í skíðaskotfimi þann 14. apríl og sprettgöngukeppni var haldin sunnudaginn 15. apríl. Þá er unga fólkið á fullu að æfa fyrir Andrésar andarleikana sem fara fram um komandi helgi.

Þá gerðu Strandamenn frábæra hluti í Orkugöngunni svokölluðu sem er árleg skíðaganga sem fór fram laugardaginn 14. apríl á Reykjaheiði við Húsavík. Fimm Strandamenn tóku þátt í göngunni. Árný Helga og Stefán Þór Birkisbörn gengu 1 km á tímunum 15.59 og 16.08. Halldór Víkingur Guðbrandsson gekk 5 km á tímanum 31.43 og var með besta tíma karla í vegalengdinni. Sigríður Drífa Þórólfsdóttir gekk 20 km á tímanum 1.15.56 og var fyrst kvenna í mark í 20 km göngunni og jafnframt fyrsti og eini keppandinn í flokki kvenna 16-34 ára. Birkir Þór Stefánsson gekk 35 km á tímanum 1.50.09 og sigraði í flokki karla 35-49 ára, hann var jafnframt 3. í mark allra keppenda í 35 km vegalengdinni. Úrslit Orkugöngunnar má nálgast með því að smella hér.

HSS óskar þessum kraftmiklu Strandamönnum innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur!
 

16.04.2012 09:58

Auglýst eftir umsóknum í sérsjóð HSS

Hér með er auglýst eftir umsóknum frá aðildarfélögum HSS í sérsjóð sambandsins. Umsóknarfrestur til og með mánudagsins 30. apríl nk. Umsóknir sem berast eftir miðnætti þann dag eru ekki teknar gildar. Sérsjóðurinn styrkir margvísleg verkefni á vegum aðildarfélaganna, en það er stjórn HSS sem tekur ákvörðun um og úthlutar styrkjunum.

Sækja skal um skriflega. Senda má umsókn með landpóstinum eða í netfangið tomstundafulltrui@trandabyggd.is. Umsókn verður að halda innihalda lýsingu á fyrirhuguðu verkefni.
 

10.04.2012 13:29

Vetraræfingum Geislans lýkur senn

Á fésbókarsíðu Umf. Geislans kemur fram að innanhússæfingar í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík hefjist að nýju eftir páskahlé á morgun, miðvikudaginn 11. apríl. Haldið verður áfram með kynningu frá því fyrir páska sem er badminton. Þjálfarar vonast til að sjá sem flesta á komandi æfingum. 

Einnig er tekið fram á síðunni að vetraræfingum Geislans lýkur þann 27. apríl næstkomandi.
 
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25