Færslur: 2012 Maí

29.05.2012 18:14

Sumarnámskeið á Hólmavík fyrir 6-13 ára krakka

Kátir krakkar á Polla- og pæjumóti á Hamingjudögum 2011

Sumarnámskeiðið Viltu koma út að leika? verður haldið á Hólmavík í sumar fyrir börn á aldrinum 6-13 ára. Námskeiðið mun standa yfir í tvær vikur alla virka daga á tímabilinu 9.-20. júlí og fer að öllu leyti fram utandyra. Þessi skemmtilega hugmynd og framkvæmd kemur frá systrunum Árnýju Huld og Guðmundínu Arndísi Haraldsdætrum sem eru jafnframt leiðbeinendur á námskeiðinu. 

Helstu viðfangsefni námskeiðsins eru skynfæri og hreyfigeta, útileikir, þrautir, sögur og ævintýri. Þáttakendum verður skipt upp í tvo hópa, 6-10 ára og 11-13 ára og mun yngri hópurinn vera á námskeiðinu frá kl. 10:00-12:00 og eldri hópurinn frá kl. 13:00-15:00.

Verð fyrir námskeiðið er kr. 10.000.- fyrir hvert barn, en jafnframt er veittur systkinaafsláttur á þann veg að greiddar eru 7.500 kr. fyrir annað barn, 5.000 kr. fyrir þriðja og fjórða barn.

Skráning fer fram hjá Árnýju í netfangið arnyhuld@hotmail.com eða í síma 848 4090. Fólk er beðið um að skrá börn sín til leiks í síðasta lagi sunnudaginn 1. júlí. Ef lágmarksfjöldi þátttakenda næst ekki fellur námskeiðið niður. 

29.05.2012 00:19

Úthlutað úr sérsjóði HSS

Í apríllok var auglýst vel og rækilega eftir umsóknum frá aðildarfélögum HSS í sérsjóð sambandsins, en í hann fer 10% af innkomnu fé frá Lottó. Forgangsverkefni sjóðsins er að styðja við endurbætur og uppbyggingu á íþróttaaðstöðu á starfssvæði sambandsins sem og að veita fjármagni til annarra
verkefna svo sem þjálfunar, óvæntra áfalla, ferðakostaðar á mót, nýjungar í starfi og fleira. 

Tvær umsóknir bárust og ákvað stjórn HSS á stjórnarfundi sínum 2. maí 2012 að úthluta báðum umsóknaraðilum kr. 250.000.- Annars vegar var þar um að ræða Skíðafélag Strandamanna sem sótti um styrk vegna framkvæmda í Selárdal og hins vegar sótti Umf. Neisti um styrk til að reisa geymsluhúsnæði við nýjan sparkvöll á Drangsnesi. 

HSS óskar styrkþegunum til hamingju og hvetur félögin til dáða við uppbygginguna.

28.05.2012 01:26

Góður árangur í miðlun og upplýsingagjöf hjá HSS

Eins og fram kemur í þinggerð 65. ársþings HSS sem nýverið var sett á vefinn okkar og sjá má með því að smella hér hefur verið gert talsvert átak í upplýsingamiðlun undanfarið ár. Langstærsti hluti átaksins hefur komið fram í auknum fréttaskrifum, bættri vefsíðu með meiri upplýsingum og notkun á fésbókinni. 

Þetta kom m.a. fram í skýrslu framkvæmdastjóra á ársþinginu. Hér fyrir neðan gefur að líta ánægjulegt súlurit sem sýnir hversu mjög heimsóknir á vefinn hafa aukist undanfarið, en árið 2011 voru einstakir gestir fleiri en nokkru sinni fyrr - alls 11.086 talsins. Mesti gestafjöldi á einu ári fyrir það var 4.199 gestir árið 2009. Það sem af er árinu 2012 hafa fleiri en fimm þúsund einstakir gestir heimsótt síðuna.

Þá jukust flettingar á vefsíðunni einnig gríðarlega mikið, um ríflega 300% frá því sem best var áður.

 
Héraðssambandið kann lesendum síðunnar bestu þakkir - og hvetur til áframhaldandi lesningar, enda alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast :)

28.05.2012 01:15

Fundargerð 65. ársþings komin á vefinn


Nú er loks búið að setja fundargerð frá 65. ársþingi HSS hér inn á vefinn. Hún er afar ítarleg og fróðleg aflestrar fyrir alla þá sem hafa áhuga á að vita hvað er að gerast í íþróttalífinu á Ströndum og í starfi HSS. 

25.05.2012 08:45

Muna að skrá sig á Landsmót 50 ára og eldri!

Skráningar á 2. Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður í Mosfellsbæ 8.-10. júní í sumar ganga vel. Undirbúningi miðar vel áfram og er reiknað með góðri þátttöku á mótið. Það er mikill hugur í mótshöldurum og gengur undirbúningur samkvæmt áætlun.

Athygli skal vakin á því að þátttakendafjöldi í golfi og pútti verður takmarkaður og því er um að gera fyrir keppendur í umræddum greinum að skrá í tíma til þátttöku.

Keppnisgreinar á mótinu eru: Almenningshlaup ( Álafosshlaup, 7 tindahlaup) badminton, blak, boccia, bridds, frjálsar, golf, hestaíþróttir, hringdansar, knattspyrna, kraftlyftingar, línudans, pútt, ringó, skák, starfsíþróttir, strandblak, sund, sýningar og þríþraut. Allir á aldrinum 50 ára og eldri geta tekið þátt í keppnisgreinum mótsins hvort sem þeir eru í félagi eða ekki.

Þátttakendur greiða eitt mótsgjald og öðlast þar með þátttökurétt í öllum keppnisgreinum. Mótsgjald er 3.500 krónur óháð greinafjölda. Frítt verður á tjaldstæði mótshelgina í Mosfellsbæfellsbæ.

Skráningarformið er sáraeinfalt - það má nálgast með því að smella hér.  

Strandamenn eru hvattir til að skrá sig til leiks í tíma - ekki klikka á þátttöku í þessu frábæra móti!

22.05.2012 08:48

Getraunanúmer aðildarfélaga HSS


Þeir sem spila í getraunum geta merkt seðilinn með félagsnúmeri. Við hjá HSS hvetjum tippara eindregið til að styðja við félögin á starfssvæði HSS - 26% af upphæðinni sem þú tippar fyrir rennur beint til félagsins sem þú velur aðstyrkja. Þetta getur skipt miklu máli fyrir félögin ef menn eru duglegir að merkja við sitt félag. 

Hér eru getraunanúmer sem eru í gildi hjá aðildarfélögum HSS:

501 - Umf. Harpa
510 - Umf. Geislinn
511 - Umf. Hvöt Hólmavík
512 - Sundfélagið Grettir Hólmavík
514 - Golfklúbbur Hólmavíkur
520 - Umf. Neisti
524 - Umf. Leifur heppni

22.05.2012 08:12

Sumarfjarnám 1. stigs ÍSÍ í þjálfaramenntun

Sumarfjarnám 1. stigs almenns hluta þjálfaramenntunar ÍSÍ hefst 18. júní næstkomandi. Námið tekur 8 vikur og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Námið jafngildir íþróttafræði 1024 í framhaldsskólakerfinu og er metið sem slíkt. Fjarnámið er öllum opið 16 ára og eldri sem áhuga hafa. Nemendur skila verkefni í hverri viku auk lokaverkefnis og krossaprófa. Skráning er til fim. 14. júní á namskeid@isi.is eða í síma 514-4000. Þátttökugjald er kr. 24.000.- Allar frekari uppl. veitir sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ í síma 460-1467 og á vidar@isi.is.

18.05.2012 14:05

Stjórn, ráð og nefndir komnar á vefinn

Nú er búið að uppfæra síðuhluta hér á vefnum þar sem segir frá hverjir skipa stjórn HSS, ráð á vegum sambandsins og nefndir, t.d. undirbúningsnefnd fyrir Landsmót. Þetta eru nýjustu upplýsingar, byggðar á skipunum í ráð og nefndir á ársþingi HSS sem haldið var þann 6. maí sl. á Borðeyri.

18.05.2012 13:34

Mótadagskrá 2012 komin á vefinn

Nú er búið að birta mótadagskrá sumarsins hér á vefnum, en hún var samþykkt á ársþingi HSS þann 6. maí sl. Endilega skoðið síðuna og skipuleggið sumarfríið kringum þessa skemmtilegu viðburði.

8.-10. júní - Landsmót 50 ára og eldri í Mosfellsbæ
16. júní - Kvennahlaup ÍSÍ og Sjóvá
29. júní - Polla- og pæjumót á sparkvellinum á Hólmavík
15. júlí - Héraðsmót í frjálsum á Sævangsvelli
3.-5. ágúst - Unglingalandsmót á Selfossi
18. ágúst - Barnamót HSS á Kollsárvelli
30. ágúst - Göngudagur fjölskyldunnar
Héraðsmót í golfi - dagsetning ákveðin síðar

Í október mun HSS síðan halda opinn fund um vetrarstarf sambandsins þar sem raðað verður niður vetrarmótum.

14.05.2012 10:55

Frábær girðingardagur hjá Umf. Hörpu - myndir


Starfsemi ungmennafélagana á Ströndum er sannarlega fjölbreytt og skemmtileg. Ungmennafélagið Harpa í Bæjarhreppi er eitt aðildarfélaga HSS, rótgróið félag með kraftmikið fólk í brúnni. Sunnudaginn 29. apríl mætti góður hópur öflugra félaga og girtu í kringum íþróttavöll félagsins við Kollsá í Hrútafirði. Allar fullkomnustu vinnuvélar á svæðinu voru virkjaðar í þágu þessa verkefnis, en girðingin er nærri því 500 metra löng í það heila og tryggir að völlurinn verður ekki fyrir ágangi sauðfjár í náinni framtíð - ekki nema allra djörfustu skjátanna! Það tók um sjö klukkutíma að klára verkefnið, en Ungmennafélagið bauð síðan girðingameisturum og aðstoðarmönnum uppá grillaðar pulsur og svala við verklok.


Kaupfélagið og sláturhúsið á Hvammstanga gáfu Ungmennafélaginu efni í 300 metra girðingu. Ungmennafélagið vill koma kæru þakklæti á framfæri til þessara aðila sem og allra sem tóku þátt í Girðingardeginum. Að sögn Ingimars Sigurðssonar í stjórn Umf. Hörpu var þessi dagur sérstaklega vel heppnaður og vel til þess fallinn að efla starfsemi félagsins og gera hana skemmtilegri. 






Ljósmyndir: Ingimar Sigurðsson

10.05.2012 02:11

HSS sækir um að halda Landsmót 50 ára og eldri

Á ársþingi HSS á Borðeyri um síðustu helgi var eftirfarandi tillaga lögð fram af stjórn sambandsins:

65. ársþing HSS haldið á Borðeyri sunnudaginn 6. maí samþykkir að stjórn HSS vinni að umsókn um að halda Landsmót 50+ árið 2014 í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu. Greinargerð: Stjórn HSS telur vel við hæfi að Landsmót 50 ára og eldri yrði haldið á Ströndum árið 2014, en þá eru 70 ár frá stofnun Héraðssambands Strandamanna. Stefnt væri að keppni í frjálsum íþróttum, sundi, golfi, badminton, borðtennis, boccia, bridds, skák, ringo, víðavangshlaupi, dráttarvélakstri, línubeitningu, pönnukökubakstri og hrútaþukli svo fátt eitt sé nefnt. 

Óhætt er að segja að það yrðu stórtíðindi ef af þessu yrði, en án efa verða mörg sambönd um hituna. Sveitarfélög á Ströndum hafa tekið vel í fyrirhugaða umsókn, en UMFÍ gerir jafnan samninga við sveitarfélögin þar sem mótin eru haldin um þeirra framlag til verkefnisins. Umsóknarfrestur til að sækja um mótshaldið rennur út 31. maí, en framkvæmdastjóri HSS hefur þegar hafið vinnu við umsóknargerðina. Bíðum og vonum!

09.05.2012 17:36

Jóhann Björn og Magnús heiðraðir af ÍSÍ

Á ársþingi HSS um liðna helgi notuðu menn að sjálfsögðu tækifærið til að hrósa fyrir það sem vel er gert í starfi sambands og ungmennafélaga. Hrósið kom einnig frá utanaðkomandi aðilum og góðum gestum þingsins; þeim Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ, Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ og Stefáni Skafta Steinólfssyni stjórnarmanni í UMFÍ. 


Líney Rut  veitti tveimur einstaklingum heiðursmerki frá ÍSÍ. Jóhann Björn Arngrímsson var sæmdur gullmerki fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar á Ströndum í gegnum tíðina og Magnús Steingrímsson á Stað fékk silfurmerki fyrir starf í þágu skíðaíþróttarinnar. Jóhann Björn sat þingið fyrir hönd Golfklúbbs Hólmavíkur, en Magnús átti ekki heimangengt að þessu sinni og fær því merkið síðar.
 
Héraðssambandið óskar þeim Jóhanni Birni og Magnúsi innilega til hamingju með viðurkenninguna og framlag þeirra til hreyfingarinnar í gegnum árin.

08.05.2012 08:15

Harpa Óskarsdóttir kjörin efnilegasti íþróttamaður HSS

Á ársþingi HSS var í fyrsta skipti útnefndur efnilegasti íþróttamaður ársins hjá sambandinu, en reglugerð um kosninguna var samþykkt í fyrra. Allir formenn aðildarfélaga kjósa sem og stjórn HSS. Kosningin um efnilegasta íþróttamanninn miðast við að viðkomandi hafi orðið 12 ár á árinu, en engin efri aldursmörk eru sett (það er aldrei of seint að byrja).

Þessir fengu atkvæði:

Arna Sól Mánadóttir
Branddís Ösp Ragnarsdóttir
Hadda Borg Björnsdóttir
Halldór Víkingur Guðbrandsson
Harpa Óskarsdóttir
Jamison Ólafur Johnson
Númi Leó Rósmundsson
Trausti Rafn Björnsson

Í þriðja sæti varð Branddís Ösp Ragnarsdóttir, skíðagöngukona með meiru, með 9 stig. Í öðru sæti varð Númi Leó Rósmundsson í Skíðafélagi Strandamanna með 17 stig. Í fyrsta sæti varð Harpa Óskarsdóttir spjótkastari og skíðakappi í Umf. Neista og Skíðafélagi Strandamanna með 25 stig.



Harpa Óskarsdóttir er fædd árið 1998. Hún varð unglingalandsmótsmeistari árið 2011 í flokki 13 ára með því að kasta spjótinu 31,74 m. Harpa bætti þennan árangur á frjálsíþróttamótinu Gaflaranum viku síðar, en þar átti hún kast upp á 34,80 metra og náði fyrsta sætinu næsta auðveldlega. Á sama móti varð Harpa í 3. sæti í kúluvarpi í flokki 13 ára með kast upp á 9,74 metra. Í framhaldi af þessum árangri var henni boðið að keppa í Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri þar sem hún lenti í þriðja sæti. Þá vann Harpa kúluvarp og spjótkast á Héraðsmóti HSS í júlí svo fátt eitt sé nefnt.


Harpa var í þriggja manna hópi skíðagöngukrakka af Ströndum sem fóru í æfingabúðir til Noregs í desembermánuði. Hún varð í fyrsta sæti í skíðagöngu með frjálsri aðferð á Andrésar andar leikunum og á sama móti var hún hluti af frækinni boðgöngusveit sem lenti í öðru sæti í flokki 12-14 ára. Harpa hefur verið virk í starfi Skíðafélagsins, stundað æfingar og keppnir af kappi.

HSS óskar Hörpu innilega til hamingju með útnefninguna og hvetur hana til dáða og afreka á komandi árum!

07.05.2012 22:46

Vel heppnað 65. ársþing HSS


Héraðssamband Strandamanna hélt 65. ársþing sambandsins í Tangahúsinu á Borðeyri sunnudaginn 6. maí. Hátt í þrjátíu manns frá fimm aðildarfélögum mættu á þingið auk góðra gesta, þeirra Líneyjar Rutar Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ, Höllu Kjartansdóttur skrifstofustjóra ÍSÍ og Stefáns Skafta Steinólfssonar stjórnarmanns í UMFÍ. Umf. Harpa í Bæjarhreppi tók vel á móti gestum og fóru allir pakksaddir heim eftir veglegt kaffihlaðborð að hætti heimamanna.



Starf sambandsins hefur verið að þróast nokkuð og breytast síðastliðið ár eftir að Arnar Snæberg Jónsson var fenginn til að annast framkvæmdastjórn, en sambandið hefur ekki haft framkvæmdastjóri í heils árs vinnu í allmörg ár. Margt var rætt á þinginu og meðal annars var samþykkt ályktun um að HSS mundi senda inn umsókn um að halda Landsmót 50 ára og eldri árið 2014, en þá á sambandið einmitt 70 ára afmæli.



Þá var ákveðið að ráðast í gagngera endurskoðun á lögum og reglugerðum sambandsins, en þau eru að miklu leyti orðin barn síns tíma. Mótaskrá fyrir sumarið ar einnig ákveðin og samþykkt að halda haustfund í október, en slíkt er nýnæmi í starfi sambandsins.



Líney Rut kom færandi hendi og afhenti heiðursmerki; Magnús Steingrímsson á Stað í Steingrímsfirði fékk silfurmerki ÍSÍ og Jóhann Björn Arngrímsson á Hólmavík var sæmdur gullmerki fyrir áralangt starf í þágu hreyfingarinnar. Þá var Rósmundur Númason í Skíðafélagi Strandamanna útnefndur íþróttamaður ársins eftir spennandi kosningu og Harpa Óskarsdóttir í Umf. Neista á Drangsnesi var valin efnilegasti íþróttamaðurinn, en hún hefur náð frábærum árangri í spjótkasti og skíðagöngu á árinu.



Skíðafélag Strandamanna fékk afhentan UMFÍ-bikarinn svokallaða annað árið í röð, en bikarinn er afhentur einstaklingi eða félagi sem þykir hafa skarað fram úr á starfsárinu. 



Héraðssambandið þakkar öllum gestum, fulltrúum og ekki síst gestgjöfunum í Umf. Hörpu kærlega fyrir vel heppnað ársþing! Með því að smella hér má sjá fjölmargar myndir frá ársþinginu, teknar af Ingimundi Pálssyni.

07.05.2012 22:07

Rósmundur Númason er íþróttamaður HSS árið 2011

Á nýafstöðnu ársþingi HSS sem haldið var í Tangahúsinu á Borðeyri sunnudaginn 6. maí var íþróttamaður ársins útnefndur. Formenn aðildarfélaga og stjórn HSS kjósa íþróttamanninn á hverju ári. Þessir hlutu atkvæði í kosningunni:

Birkir Þór Stefánsson
Guðjón Hraunberg Björnsson
Guðmundur Viktor Gústafsson
Hadda Borg Björnsdóttir  
Ingibjörg Emilsdóttir
Magnús Ingi Einarsson
Ragnar Bragason
Rósmundur Númason  
Sigríður Drífa Þórólfsdóttir




Fjórir efstu voru áberandi hæstir í kosningunni, en í fjórða sæti varð Birkir Þór Stefánsson með 10 stig, Ragnar Bragason var þriðji með 11 stig, Hadda Borg Björnsdóttir varð önnur með 18 stig og efstur að þessu sinni varð skíðagöngukappinn Rósmundur Númason með 21 stig. 

Rósmundur, sem er fæddur 1953, er formaður Skíðafélags Strandamanna og hefur þar í félagi við aðra góða aðila haldið uppi geysilega öflugri starfsemi undanfarin ár. Í skíðagöngumótum ársins var Rósmundur undantekningarlaust með efstu mönnum í sínum aldursflokki. Rósmundur gekk bæði Vasa og HalvVasa í febrúar síðastliðnum og stórbætti sinn besta árangur til þessa í Vasagöngunni. Þá hefur Rósmundur einnig verið öflugur í hlaupum og náði sér m.a. í tvö silfur á Landsmóti 50 ára og eldri, annað í 60 metra hlaupi og hitt í 3000 m. hlaupi. Þá náði Rósi einnig í brons í fjallaskokki í flokki 50 ára og eldri á sama móti. Rósmundur situr jafnframt í stjórn HSS og hlaut starfsmerki UMFÍ á ársþingi HSS í Árneshreppi árið 2011.

Við óskum Rósmundi innilega til hamingju með titilinn sem og öllum þeim sem tilnefndir voru.


Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25