Færslur: 2012 Október
29.10.2012 08:26
Hörpu afhendur glæsilegur farandbikar
Sennilega hefur ekki farið fram hjá neinum að Harpa Óskarsdóttir hefur verið að gera það gott á frjálsíþróttasviðinu síðustu ár, þá sérstaklega í spjótkasti þar sem hún hefur náð úrvals árangri. Harpa var útnefnd Efnilegasti íþróttamaður HSS árið 2011 á ársþingi sem haldið var í maí 2012, en á haustfundi sambandsins nú um helgina fékk hún loks afhentan farandbikar sem mun síðan ganga áfram til efnilegra íþróttamanna í framtíðinni.
Vignir Örn Pálsson formaður HSS afhenti Hörpu bikarinn undir fagnaðarlátum viðstaddra gesta.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
26.10.2012 14:40
Vel heppnaður haustfundur HSS
Fundurinn var miklu skemmtilegri en hann lítur út fyrir á þessari mynd - ljósm. Guðbjörg Hauksdóttir
Haustfundur HSS sem fram fór á Malarkaffi á Drangsnesi í gær var vel heppnaður og ágætlega sóttur, en alls sátu fundinn 15 manns frá fjórum aðildarfélögum. Á fundinum, sem var fyrst og fremst hugsaður sem umræðuvettvangur, var farið yfir sumarstarf sambandsins, hvað hefði tekist vel og hvað hefði farið miður. Þá var litið til næsta vetrar og hugmyndir kviknuðu um mögulegt mótshald og fleira. Það var mál manna að fundurinn hefði verið afar gagnlegur og gott væri að ræða mál sem e.t.v. gæfist ekki tími til að ræða í þaula á ársþingi sambandsins á vorin.
Fundargerð frá haustfundinum má sjá með því að smella hér.
HSS þakkar kærlega öllum þeim sem mættu á fundinn. Sérstakar þakkir fá Bjössi og Valka á Malarkaffi, en þau reiddu fram dýrindis kjöt- og fiskisúpur sem gestir dásömuðu mjög, enda afskaplega góðar.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
25.10.2012 17:12
HSS styrkti fyrirlestur um netfíkn

Héraðssamband Strandamanna var einn af aðalstyrktaraðilum fyrirlestrar sem haldinn var á Hólmavík í gærkvöldi, miðvikudaginn 24. október, um netfíkn. Tómstundafulltrúi Strandabyggðar, sem er einmitt framkvæmdastjóri HSS líka, stóð fyrir fyrirlestrinum sem var afar vel sóttur af 80 áhugasömum gestum.
HSS hvetur aðildarfélög og einstaklinga til að kynna sér forvarnir gegn netfíkn, t.d. á vefsíðunni http://www.saft.is/.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
19.10.2012 13:01
Haustþing HSS á Drangsnesi fimmtudaginn 25. október
Haustfundur HSS verður haldinn á Malarkaffi á Drangsnesi fimmtudaginn 25. október nk. Fundurinn hefst kl. 19:30. Á honum verður fjallað um íþróttastarfið sem fram fór á vegum HSS og aðildarfélaga þess síðasta sumar, hvað tókst vel og hvað má bæta.
Einnig verður fjallað um mótshald og starfsemi á komandi vetri. Allir áhugasamir um íþróttir á Ströndum og alhliða starfsemi ungmennafélaganna og HSS eru innilega velkomnir á fundinn. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffisopinn verður að sjálfsögðu ekki langt undan.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
02.10.2012 14:52
Heilsueflingu í Strandabyggð að ljúka
Fram kemur á vef Strandabyggðar að heilsueflingu sem staðið hefur yfir í sveitarfélaginu sé nú formlega lokið. Þó eru nokkur atriði enn eftir á dagskránni. Þar á meðal er hlaup og skemmtiskokk sem fer fram á vegum Umf. Geislans á Hólmavík laugardaginn 6. september.
Nálgast má upplýsingar um hlaupið með því að smella hér. HSS hvetur Strandamenn til að kíkja á Hólmavík og skokka næsta laugardag!
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
02.10.2012 11:12
Ný æfingatafla Umf. Geislans
Nú hefur ný æfingatafla Umf. Geislans á Hólmavík verið sett hingað inn á vefinn okkar. Hún gildir frá og með 1. október fram í miðjan desember. Alltaf er hægt að sjá töfluna með því að smella á Æfingadagskrá í valstikunni hér fyrir ofan. Ýmsar skemmtilegar nýjungar eru á dagskránni hjá Umf. Geisla þetta haust, t.d. hlaupahópur, frjálsíþróttaæfingar o.fl.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
- 1
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25