Færslur: 2012 Nóvember
20.11.2012 15:43
Skíðamenn af Ströndum stefna á Ísafjörð
Um komandi helgi stefnir hópur Strandamanna til Ísafjarðar í æfingabúðir í skíðagöngu. Að sögn Rósmundar Númasonar, formanns Skíðafélags Strandamanna, er þarna um að ræða æfingar í tengslum við hina árlegu Fossavatnsgöngu sem fram fer laugardaginn 4. maí nk. Rósmundur tjáði HSS-vefnum að hann hefði farið í þessar æfingabúðir á hverju ári síðan byrjað var með þær. Þarna sé um að ræða góða kennslu sem miðast við hæfni og getu hvers og eins þátttakanda, en nemendum er jafnan skipt upp í þrjá hópa eftir getu.
Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um æfingaferð Strandamanna á Ísafjörð geta haft samband við Rósa í s. 451-3206, en einnig er hægt að skrá sig beint hjá Bobba á Ísafirði í s. 896-0528.
19.11.2012 14:05
Æskulýðsvettvangurinn heimsækir Strandir
Æskulýðsvettvangurinn heimsækir Strandir nú í vikunni með fyrirlestur um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 22. nóvember kl. 16:30-18:00. Það er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur sem flytur fyrirlesturinn, en hann er byggður á nýútkominni bók hennar Ekki meir, sem er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn.
Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn - léttar kaffiveitingar verða í boði. HSS hvetur öll aðildarfélög sín til að senda fulltrúa á þennan mikilvæga viðburð.
Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Bandalags íslenskra skáta og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Tilgangurinn með fyrirlestrinum er að vekja athygli á þessum málaflokki, opna betur augu starfsfólks og sjálfboðaliða fyrir því að vera vakandi og ávallt á verði gagnvart einelti og annarri óæskilegri hegðun. Á fyrirlestrinum verður aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun dreift sem og eineltis plakati og nýútkomnum siðareglum Æskulýðsvettvangsins.
13.11.2012 14:12
Æfingar hafnar hjá Skíðafélaginu
Æfingar eru nú hafnar hjá Skíðafélagi Strandamanna. Töluverður snjór er kominn í Selárdal og lofa aðstæður þar góðu miðað við árstíma. Fram að áramótum verður æft tvisvar í viku - á föstudögum og sunnudögum kl. 16.30-18:00. Eftir áramót bætist við æfing á þriðjudögum þannig að þá verður æft þrisvar í viku. Þetta plan hefur að sjálfsögðu verið sett á æfingasíðu HSS og verður aðgengilegt þar í allan vetur.
Allir eru velkomnir á æfingarnar og ekki þarf að greiða nein æfingagjöld. Nýir iðkendur eru sérstaklega velkomnir. Sendur er tölvupóstur eða sms til að láta vita hvort af æfingu verður t.d. vegna veðurs, þeir sem vilja láta bæta sér á póstlistann hafi samband við Ragnar í síma 893-3592.
Fréttin var tekin af heimasíðu Skíðafélagsins.
13.11.2012 10:06
Frábært tækifæri - frjálsíþróttaæfing í Laugardalshöll
Héraðssamböndin UDN, HSH, UMSB, HSS og HHF ásamt
Ungmennafélaginu Skipaskaga og Ungmennafélagi Kjalnesinga hafa undanfarið mótað
samstarf sín á milli með það að markmiði að efla frjálsíþróttastarf á svæðinu.
Við höfum nú fengið tíma í hinni glæsilegu frjálsíþróttaaðstöðu í Laugardalshöll í Reykjavík, laugardaginn 24. nóvember nk. og stefnum að sameiginlegri æfingaferð með frjálsíþróttafólkið okkar. Verið er að ganga frá ýmsum framkvæmdaratriðum sem verða kynnt betur innan skamms, en eftirfarandi er þó ákveðið um ferðina:
- Hugsað fyrir þátttakendur 10 ára (árgangur 2002) og eldri.
- Þjálfarar á starfssvæðinu munu sjá um þjálfun, en jafnframt höfum við óskað eftir gestaþjálfurum og fleiri góðum gestum inn á æfinguna til okkar.
- Æfðar verða flestar greinar, s.s. spretthlaup, langstökk, hástökk, kastgreinar og jafnvel stangarstökk o.fl.
- Dagskráin samanstendur af hittingi fyrir æfingu, æfingu frá ca. 14-16 og sameiginlegri sundferð eða öðru fyrir heimferð.
Kæru iðkendur og foreldrar! Þessi æfingaferð er mikilvægt skref í samstarfi sem getur skilað okkur umtalsverðum ávinningi og skemmtilegri reynslu.
Þeir sem hafa áhuga á að fara af Ströndum á þennan frábæra viðburð ættu endilega að láta vita sem allra fyrst um þátttöku. Skráningar þurfa að berast til Arnars Jónssonar, framkvæmdastjóra HSS, í tölvupósti á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is eða í s. 894-1941 í síðasta lagi þriðjudaginn 20. nóvember.
12.11.2012 13:24
"Nokkur skjöl í kassa"
12.11.2012 08:28
Hundraðasta fréttin á HSS-vefnum árið 2012
09.11.2012 16:20
HSS fékk styrk til að skrá Strandamet
09.11.2012 15:47
Umf. Harpa fékk styrk úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ
Á dögunum var styrkjum úthlutað úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ. Eitt af aðildarfélögum HSS fékk góðan styrk úr sjóðnum, en Ungmennafélagið Harpa í Hrútafirði fékk 100.000 kr. styrk til að halda þjálfaranámskeið á Kollsárvelli á komandi sumri. Markmiðið með námskeiðinu er að efla áhuga og auka þátttöku í íþróttaiðkun á vegum félagsins Hörpu og þjálfa réttar aðferðir iðkenda.
Hugmyndin er að námskeiðið standi yfir í 3-5 daga. Menntaður þjálfari í frjálsum íþróttum eða knattspyrnu verði fenginn til að mæta á svæðið til að fræða unga iðkendur um hvernig mögulegt sé að ná sem bestum árangri og hafa sem mesta ánægju af iðkun íþrótta. Eflaust fara forsvarsmenn Umf. Hörpu af stað með undirbúning þegar líður nær sumri og námskeiðið verður þá auglýst vandlega hér á HSS-síðunni.
- 1