Færslur: 2013 Janúar

31.01.2013 13:05

Aðalfundur Skíðafélags Strandamanna framundan



Skíðafélag Strandamanna heldur aðalfund í húsnæði Hólmadrangs mánudaginn 11. febrúar kl. 18:30. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf - allir velkomnir.

31.01.2013 10:18

Skráið ykkur í Lífshlaupið!

Skráning er nú í fullum gangi í vinnustaða- og grunnskólakeppni Lífshlaupsins sem hefst miðvikudaginn 6. febrúar. Hvatningarleikur ÍSÍ og Rásar 2 hófst í gær, miðvikudaginn 30. janúar. Þeir sem verða dregnir út fá glæsilega ávaxtasendingu frá Ávaxtabílnum í vinning.

Héraðssamband Strandamanna hvetur Strandamenn til að taka þátt virkan þátt í þessu skemmtilega átaki!

24.01.2013 14:03

Taekwondo kynningaræfing á laugardaginn


Um helgina hefjast Taekwondo-æfingar í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík, en óhætt er að segja að íþróttin hafi slegið í gegn þegar námskeið var haldið á Hólmavík síðasta sumar.  

Fyrsta æfingin sem verður haldin á laugardaginn er fyrir alla aldurshópa, líka þá sem eru komnir á besta aldur (40+). Þjálfarar eru Ingibjörg Erla Árnadóttir, Steinn Ingi Árnason og Herdís Sif Ásmundsdóttir. 

Á fyrstu æfingunni verður kynnt verðskrá á æfingum og göllum. Einnig verður birt dagskrá fyrir æfingarnar á komandi vetri. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta í fjörið!

Fésbókarsíðu Taekwondo á Hólmavík má nálgast með því að smella hér.

24.01.2013 13:31

Jóganámskeið á Hólmavík

Hatha jóga námskeið verður haldið í félagsheimilinu á Hólmavík nú í febrúar á mánudögum og fimmtudögum kl. 18. Kennari verður Anna Björg Þórarinsdóttir frá Hólum í Reykhólasveit. Anna Björg hefur iðkað jóga frá árinu 2010 og leggur nú stund á jógakennaranám hjá kennurunum Ágústu K. Jónsdóttur og Drífu Atladóttur en þær reka jafnframt jógastöðina Jógastúdíó í Reykjavík.

Á þessu fjögurrar vikna námskeiði munu nemendur læra undirstöður Hatha jóga. Hatha jóga byggist á öndunaræfingum, líkamsstöðum og slökun. Regluleg ástundun styrkir og liðkar líkamann og kemur jafnvægi á líkamsstarfssemi, s.s. innkirtlakerfi, taugakerfi, ónæmiskerfi, blóðrás og meltingu.

Jógadýnur verða á staðnum en öllum er velkomið að koma með sínar eigin. Mælt er með að nemendur mæti í þægilegum fötum sem gott er að hreyfa sig í.

Verð fyrir námskeiðið er 11.200 kr.

Hálft námskeið 5.600 kr

Skráning í síma 663-0497 Ingibjörg Benediktsdóttir

19.01.2013 10:04

Allir á skíði sunnudaginn 20. janúar

Sunnudaginn 20. janúar verður hinn alþjóðlegi World snow day eða Snjór um víða veröld haldinn hátíðlegur um allan heim. Skíðafélag Strandamanna tekur að sjálfsögðu þátt í deginum líka og hvetur fólk til að fjölmenna í Selárdal þar sem dagskráin fer fram. Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir.

Dagskráin byrjar kl. 13:00 í Selárdal, en þar verður haldið skíðagöngumót með frjálsri aðferð þar sem keppt er í mörgum aldursflokkum og vegalengdum við hæfi hvers og eins. Að keppni lokinni eða um kl. 14:00 verður skíðadagur fjölskyldunnar haldinn í Selárdal, en þar eru fjölskyldur hvattar til að ganga saman á skíðum í Selárdal og njóta útiverunnar og hreyfingarinnar saman. Einnig verður boðið upp á ókeypis tilsögn á skíðum fyrir þá sem það vilja. 

Á staðnum verða veitingar í boði Skíðafélagsins, heitt kakó og kökur.

17.01.2013 15:44

Ingibjörg Emilsdóttir er íþróttamaður Strandabyggðar


Í gær var tilkynnt á íþróttaháríð Grunnskólans á Hólmavík hver var valinn Íþróttamaður ársins 2012 í Strandabyggð, en tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd sá nú um valið í fyrsta sinn samkvæmt nýjum reglum. Þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið sjálft hefur slíkt val á sínum snærum, en Íþróttafélag lögreglunnar á Hólmavík valdi íþróttamenn áranna 2008 og 2009, Guðjón Þórólfsson og Birki Þór Stefánsson. Áfram var notaður bikar sem lögreglan gaf árið 2008. 

Að þessu sinni varð Ingibjörg Emilsdóttir hlaupakona og aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Hólmavík fyrir valinu. Ingibjörg er fædd árið 1975. Hún hefur unnið mikið og gott starf í þágu hlaupaíþróttarinnar í Strandabyggð. Í umsögn um hana segir að hún sé dugleg, hvetjandi og frábær fyrirmynd. Auk þess að æfa og keppa hefur Ingibjörg smitað marga af hlaupabakteríunni og m.a. haft umsjón með hlaupahópi fólks á öllum aldri sem æfir í viku hverri. Ingibjörg hljóp m.a. hálfmaraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og 17 km í Hamingjuhlaupinu svo fátt eitt sé nefnt. 

Við val á Íþróttamanni ársins er horft til árangurs á árinu, auk þess sem litið er til reglusemi, ástundunar, prúðmennsku, framfara og þess að viðkomandi aðili sé góð fyrirmynd í hvívetna.

17.01.2013 15:13

Birkir gengur vel að vanda


Einn af fremstu íþróttamönnum Strandamanna, Birkir Þór Stefánsson í Tröllatungu keppti núna síðasta sunnudag á Bikarmóti Skíðafélags Ísfirðinga. Að venju stóð Birkir sig afskaplega vel, en hann keppti í flokki 20 ára og eldri í skiptigöngu sem er  tvíkeppni þar sem skipt er milli hefðbundinnar aðferðar og skauts. 

Birkir varð í öðru sæti í sínum flokki eftir að hafa gengið 10 km.(tvo 5 km. hringi)  á 35 mínútum og 37 sekúndum. Vel gert!
  • 1
Flettingar í dag: 256
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 182131
Samtals gestir: 21697
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:28:34