Færslur: 2015 Maí
25.05.2015 22:23
Golfnámskeið í Skeljavík.
Laugardaginn 6.júní verður haldið Golfnámskeið í Skeljavík. PGA golfkennari er væntanlegur og ætlar að vera hjá okkur með kennslu fyrir krakka og svo einnig kennslu fyrir fullorðna. Krakkarnir verða í litlum hópum (fer eftir skráningu) en fullorðnum er boðið upp á einkatíma (30mín). Þeir sem sækja einkatíma geta verið fleiri en einn í sama tímanum. Skráningar og nánari upplýsingar gefur Sverrir Guðm. 821-6326 eða sverrirgudm@gmail.com
Skrifað af Vignir
11.05.2015 10:17
Myndir frá 68. ársþingi HSS
Myndasafn frá 68. ársþingi HSS sem fram fór Í Félagsheimilinu á Hólmavík 30. apríl síðastliðinn er komið inn undir hlekknum "Myndasöfn" hér að ofan. Jafnframt er að finna þar myndir frá Bridgemóti HSS í Árneshreppi þann 1 maí. Myndirnar eru teknar af Ingimundi Pálssyni.
Skrifað af Esther
11.05.2015 10:14
Vormót HSK - 1. mót mótaraðar FRÍ
Vormót HSK í frjálsum íþróttum verður haldið á Selfossvelli laugardaginn 16. maí. Mótið hefst kl 13:00 og stendur til kl 15:00. Upphitun hefst kl 12:00.
Keppt verður í karla- og kvennaflokkum og öllum er heimil þátttaka.
Keppnisgreinar verða sem hér segir:
Konur: 100 m - 400 m - 100m gr. - hástökk- langstökk- sleggjukast- kúluvarp.
Karlar: 100 m- 400 m- 110m gr.- hástökk- langstökk - spjótkast - sleggjukast.
Samhliða mótinu fer fram Meistaramót íslands í 5km hlaupi kvenna og 10km hlaupi karla.
Mótshaldari áskilur sér fullan rétt til breytinga á tímaseðli á mótsstað ef aðstæður og keppendafjöldi gefur
tilefni til. Nafnakall fer fram á keppnisstað 10 mín fyrir keppni viðkomandi greinar.
Skráningarfrestur er til kl. 24:00 fimmtudaginn 14. maí nk. Skráningar berist beint inn á mótaforrit FRÍ. Fara þarf inn á heimasíðu FRÍ, http://www.fri.is/ , undir liðinn mótaforrit. Þátttökugjald er 1500kr á grein og greiðist áður en mót hefst. Einnig er hægt að greiða þátttökugjaldið fyrirfram í heimabanka inn á reikning frjálsíþróttaráðs HSK: 0325-26-003003 kt. 681298-2589, sendið staðfestingu á netfangið 21tomaskarl21@gmail.com.
Sigurvegari hverrar greinar fær verðlaun. Auk þess veitir FRÍ verðlaun fyrir 10 greinar.
Nánari upplýsingar veitir Guðmunda Ólafsdóttir formaður frjálsíþróttaráðs HSK GSM 846-9775 eða á gudmunda89@gmail.com
Skrifað af Esther
05.05.2015 11:03
Hjólað í vinnuna
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir heilsu- og hvatningarverkefninu Hjólað í vinnuna dagana 6. - 26. maí næstkomandi í þrettánda sinn. Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, hagkvæmum og umhverfisvænum samgöngumáta.
Allar nánari upplýsingar og skráningarform má finna á www.hjoladivinnuna.is
Aðalstyrktaraðili Hjólað í vinnuna er Valitor, aðrir samstarfsaðilar eru Embætti landlæknis, Rás 2, Advania, Örninn, Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Landssamtök hjólreiðamanna, Hjólreiðanefnd ÍSÍ, Hjólafærni, Kaffitár og Ölgerðin.
HSS hvetur sem flesta einstaklinga og vinnustaði til að taka þátt í þessari skemmtilegu keppni.
Skrifað af Esther
01.05.2015 04:35
Ályktun ársþings
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á nýliðnu ársþingi HSS:
68. ársþing HSS haldið á Hólmavík 30. Apríl 2015 skorar á sveitarstjórn Strandabyggðar að starf íþróttakennara verði endurskipulagt og steypt verði saman í eitt 100% starf íþróttakennara grunnskólans, þjálfara fyrir Umf. Geislann auk framkvæmdarstjóra HSS. Mikilvægt er að þetta nýja starf verði auglýst nú á vormánuðum með það að markmiði að nýr íþróttakennari Strandabyggðar taki til starfa í ágúst 2015.
Tillagan verður send til tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar Strandabyggðar sem fundar þann 4.maí næstkomandi og ætti að því búnu að vera tekin fyrir á næsta sveitarstjórnarfundi.Skrifað af Esther
01.05.2015 04:14
Ársþing HSS
Ársþing HSS fór fram í Félagsheimilinu á Hólmavík þann 30. apríl 2015. Gestgjafi í ár var Skíðafélag Strandamanna og voru kræsingarnar sannarlega með besta móti.
28 þingfulltrúar mættu á þingið sem var undir öruggri fundarstjórn Þorgeirs Pálssonar. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, sótti þingið heim og sömuleiðis Hrönn Jónsdóttir sem situr í stjórn UMFÍ.
Hrönn Jónsdóttir veitti Þorsteini Newton starfsmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt og ötult starf, meðal annars sem gjaldkeri HSS síðastliðin sjö ár. HSS óskar honum til hamingju með verðskuldaðan heiður,
Viktor Gautason var valinn efnilegast íþróttamaður HSS árið 2014 og Jamison Ólafur Johnson var sæmdur nafnbótinni íþróttamaður HSS árið 2014. Ingibjörg Benediktsdóttir hlaut hins vegar Hvatningabikar UMFÍ fyrir öflugt starf í þágu almenningsíþrótta. Hvert og eitt þeirra á heiðurinn sannarlega skilinn.
Nokkrar breytingar urðu á stjórn HSS en stjórn komandi árs skipa Vignir Örn Pálsson formaður, Hrafnhildur Þorsteinsdóttir varaformaður, Dagbjört Hildur Torfadóttir gjaldkeri, Guðbjörg Hauksdóttir ritari og Ragnar Bragason meðstjórnandi. Við óskum nýrri stjórn til hamingju með kjörið og þökkum Rósmundi Númasyni og Þorsteini Newton sem víkja úr stjórn kærlega fyrir gott samstarf.
Myndir frá ársþinginu eru væntanlegar innan tíðar.
Skrifað af Esther
- 1
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25