Færslur: 2012 Mars
30.03.2012 15:47
Sparisjóðsmót í skíðagöngu á laugardaginn
Sparisjóðsmót í skíðagöngu verður haldið í Selárdal laugardaginn 31. mars
og hefst mótið kl. 13.00.
Gengið er með frjálsri aðferð. Keppt verður í
eftirfarandi flokkum:
Stelpur 6 ára og yngri 1 km
Strákar 6 ára og yngri 1 km
Stelpur 7-8 ára 1 km
Strákar 7-8 ára 1 km
Stelpur 9-10 ára 2 km
Strákar 9-10 ára 2 km
Stelpur 11-12 ára 2,5 km
Strákar 11-12 ára 2,5 km
Stelpur 13- 14 ára 3,5 km
Strákar 13-14 ára 5 km
Stelpur 15-16 ára 5 km
Strákar 15-16 ára 5 km
Konur 17-34 ára 5 km
Karlar 17-34 ára 10 km
Konur 35-49 ára 5 km
Karlar 35-49 ára 10 km
Konur 50-64 ára 5 km
Karlar 50-64 ára 10 km
Karlar 50-64 ára 10 km
Konur 65 ára og eldri 2,5 km
Karlar 65 ára og eldri 5 km
Karlar 65 ára og eldri 5 km
Þrír fyrstu í flokkum 16 ára og yngri fá verðlaunapening fyrir sæti og
aðrir í þeim flokkum fá viðurkenningarpening fyrir þátttökuna. Mótið er öllum
opið.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
30.03.2012 15:35
Aðalfundur Umf. Geislans miðvikudaginn 4. apríl
Aðalfundur Umf. Geislans verður haldinn í kaffistofu Hólmadrangs
miðvikudaginn 4. apríl kl. 18:00.
Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf:
1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningar félagsins
3. Kosning nýrrar stjórnar
4. Önnur mál
Í tilkynningu kemur fram að vonast er til að sem flestir láti sjá sig!
Einnig má geta þess að æfingar hjá félaginu (sjá tengilinn Æfingadagskrá hér á vefnum) liggja niðri um páskana en hefjast aftur miðvikudaginn 11. apríl.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
30.03.2012 10:42
Til hlaupara - ábending frá Rannsóknarnefnd umferðarslysa
Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands hefur borist skýrsla Rannsóknarnefndar
umferðaslysa vegna banaslyss sem varð á Eyjafjarðarbraut 20. janúar 2011.
Í skýrslunni kemur fram ábending til þeirra sem stunda útihlaup um að skoða
öryggismál sín. Lögð er áhersla á að viðkomandi klæðist endurskinsvesti eða
jakka. Þá bendir nefndin á að ljósgeisli aðalljósa bifreiða og bifhjóla lýsir
niður á veginn. Af þeim sökum er ráðlegt að vera með endurskin í ökklahæð eða
neðst á kálfa því að sú staðsetning kemur fyrr inn í ljósgeisla aðalljósa
bifreiða en endurskin á efri hluta líkamans.
Hlauparar sem skokka á þjóðvegum ættu einnig að skoða hvort mögulegt sé að
hlaupa utan þjóðvegar, sérstaklega í rökkri og myrkri.
ÍSÍ leggur áherslu á að ofangreindri ábendingu verði komið á framfæri við
alla þá sem þið teljið að hún eigi erindi við. Mikilvægt er að huga ætíð vel að
öryggismálum íþróttaiðkenda og vera sífellt vakandi fyrir aðstæðum sem geta
skapað hættu.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
19.03.2012 10:41
Frábær þátttaka í Strandagöngunni
Í startholunum. Ljósm. tekin af Munda Páls - tékkið á fleiri myndum á 123.is/mundipals!
Á laugardaginn fór hin árvissa Strandaganga fram í Selárdal. Skráðir
keppendur voru 84 talsins en alls luku 79 keppni. Því er ljóst að Strandagangan
í ár er með þeim allra fjölmennustu sem haldnar hafa verið. Veðrið setti
nokkurt mark á gönguna, en talsverður skafrenningur og éljagangur var í upphafi
göngunnar, en norðvestan strekkingur var og fjögurra stiga frost sem beit í
kinnar keppenda. Þegar leið á gönguna lægði mikið og þá hætti að skafa í
brautina. Færið var því ekki eins og best verður á kosið, en menn létu það ekki
á sig fá og börðust áfram í færðinni.
Langfyrstur í mark í 20 km göngu karla var Brynjar Leó Kristinsson frá
Akureyri. Brynjar fékk því Sigfúsarbikarinn til varðveislu næsta árið, en hann er gefinn í minningu Sigfúsar Arnar Ólafssonar heilsugæslulæknis á Hólmavík til margra ára og frumkvöðuls að stofnun Skíðafélagsins. Fyrst
kvenna í mark í 20 km var Stella Hjaltadóttir frá Ísafirði. Á vefsíðu
Skíðafélags Strandamanna má nálgast öll úrslit göngunnar, en þar koma jafnframt
fram þakkir frá félaginu til keppenda fyrir góða frammistöðu við erfiðar
aðstæður, starfsmanna göngunnar fyrir vel unnin störf, KSH fyrir stuðning við
gönguna og til kvenkosta sem sáu um stórglæsilegt kaffihlaðborð að lokinni
keppni.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
15.03.2012 16:59
Strandagangan á laugardag - ýmis praktísk atriði
Nú styttist óðum í Strandagönguna (og hið víðfræga kaffihlaðborð sem margir bíða einnig spenntir eftir). Þeir keppendur sem verða komnir til Hólmavíkur á föstudaginn geta sótt sín númer
milli kl. 19 og 22 á föstudagskvöldið hjá Rósmundi Númasyni formanni
Skíðafélagsins, Víkurtúni 10 á Hólmavík, þar verður einnig hægt að greiða
þátttökugjaldið. Skráning og afhending númera verður einnig á mótsstað
laugardaginn 17. mars kl. 11:00 og 12:20.
Enn gerir veðurspáin ráð fyrir góðu veðri á laugardaginn en milli kl. 12 og
18 er spáð hægum vindi eða 6 m/s nv, 7 stiga frosti og sólskin með köflum og
0,1-0,2 mm úrkomu.
Rétt er að benda fólki á að hafa það í huga að vegirnir um Þröskulda og
Steingrímsfjarðarheiði eru mokaðir 6 daga vikunnar og eru því miður ekki mokaðir
á laugardögum. Vegurinn suður Strandir er hvorki með vetrarþjónustu á
laugardögum eða sunnudögum. Eins og spáin er í dag ætti færð ekki að vera til
neinna vandræða fyrir þá sem koma að sunnan eða norðan, en aðfaranótt
laugardagsins spáir norðanátt og éljagangi í stuttan tíma sem gæti ef til vill
haft áhrif á færðina á Steingrímsfjarðarheiði. Öruggasta leiðin er að koma á
föstudagskvöld, gott úrval af gististöðum er hér á svæðinu.
Þessi frétt birtist upphaflega á vefsíðu Skíðafélags Strandamanna.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
13.03.2012 09:03
Ferðasaga úr Vasagöngunni
Frásögnin hér fyrir neðan er rituð af Vasafaranum Rósmundi Númasyni. Hún birtist upphaflega á vefsíðu Skíðafélags Strandamanna og birtist einnig í tímaritinu Skinfaxa sem kemur út á næstu dögum.


Fyrir okkur skíðagöngufólk er eins að fara í Vasagönguna og fyrir Pílagríma
að fara til Mekka.
Þetta er ótrúleg upplifun og allt fólkið og öll umgjörðin í kringum
Vasavikuna. Það er allt þaulskipulagt. En við hjá Skíðafélagi Strandamanna ákváðum á vormánuðum 2011 að fara í
Vasagönguna og notuðum tíma til æfinga fram að göngunni.
Snemma að morgni 24 febrúar vorum við mætt í flugstöðina í Keflavík. Við
erum 6 og það er spenna í liðinu enda sum okkar að fara í fyrsta sinn en allt
gengur vel og gott flug. Við keyrðum í 8 tíma eftir komuna til Svíþjóðar að staðnum sem við gistum
á. Það er gistiheimili sem heitir Carlsborg og er í Rörbäcksnäs stutt frá Norsku
landamærunum, það er afar notalegt, ódýrt og gott að vera þar.
Við hvíldum okkur vel og á laugardagmorguninn keyrðum við til Mora og
skoðuðum aðstæður, fengum Vallatips fyrir sunnudaginn en þá er Ungdomsvasa sem
börnin ætla að ganga.
Sunnudagurinn rennur upp og það er vaknað klukkan 04:30 borðum morgunmat og
keyrum til Mora, númerin eru sótt og við skiptum liði þannig að Raggi verður
eftir hjá krökkunum til að koma þeim af stað en við Sigga förum að
markinu. Sigga tekur myndir og ég tek á móti krökkunum þegar þau koma í mark.
Stefán fer fyrstur en hann gengur 5 km á tímanum 00:20:51. síðan fer Númi
af stað og gengur 7 km á tímanum 00:20:19 og seinust fer Branddís hún fer 7 km á
tímanum 00:24:17. Þau stóðu sig mjög vel enda vant skíðafólk.
Þriðjudagurinn er göngudagurinn
okkar Siggu en þá er hálfvasa sem er 45 km. Skíðin eru gerð klár kvöldið áður og
allt haft til reiðu. Við vöknum kl 05:00 og gerum okkur klár, það er startað kl
10:00 rétthjá Oxberg. Það er sól og gott veður og gott færi, við gengum að okkur
finnst góða göngu ég á tímanum 02:58:53 og Sigga á tímanum 04:01:05.
Á miðvikudeginum bættins ein í hópin og það er mamma hans Núma, það þarf
bílstjóra fyrir sunnudaginn. Á föstudeginum er skautavasa sem er 30 km og Númi
ætlar að taka þátt. Hann er ekki nema 01:38:54 að ganga þetta með 18 km
meðalhraða.
Það er hvíld á laugardaginn fyrir stóru gönguna á sunnudaginn þá er sjálf
Vasagangan sem er 90 km, skíðin eru gerð klár og vel vandað til. Snemma farið að
sofa en maður er svo spenntur að það gengur illa en samt sofið smá. Við Raggi
förum á fætur 03:30, hliðin eru opnuð kl 05:30 og til að komast framarlega í
grúbbuni þarf maður að mæta snemma. Við náðum báðir að setja skíðin í þriðju röð
og hann í grúbbu númer 6 og ég í grúbbu númer 7 og svo er bara að bíða eftir að
klukkan verði 08:00. Það eru -10 gráðu frost og sól það er kalt svo við förum í
bílinn aftur og svo kom hitt fólkið.
Við fórum af stað kl 08:00 og það gengur
hægt til að byrja með eftir flatann og upp brekkuna en svo fer það að ganga
betur. Þetta var mjög góð ganga fyrir utan það að Raggi braut staf rétt eftir að
hann var kominn í gegnum Evertsberg og varð að ganga 13 km á einum staf til
Oxberg þar sem hann fékk annan staf. Raggi var á tímanum 06:08:09 og ég á
tímanum 06:54:57, vorum báðir ánægðir með gönguna. Við vorum búin að panta
gistingu í Raettvik og keyrðum þangað og sváfum vel eftir erfiða göngu. Í bítið
um morguninn var svo keyrt til Stokkhólms og flogið heim. Þetta eru búnir að
vera góðir 10 dagar og allir komu ánægðir heim.
Þetta er í fimmta skiptið sem ég fer í Vasagönguna og besta gangan mín til
þessa.
Skrifað af Rósmundur Númason
12.03.2012 13:01
Skráið ykkur í Strandagönguna 17. mars!
Nú nálgast hin árlega Strandaganga, stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er á Ströndum á ári hverju. Gangan fer fram laugardaginn 17. mars.
Á vefsíðu Skíðafélags Strandamanna er byrjað að auglýsa eftir skráningum, en von er á frekari upplýsingum um gönguna á næstu dögum. Þar kemur fram að gott sé að fólk skrái sig sem
fyrst til að auðvelda vinnu við undirbúning göngunnar.
Senda skal eftirfarandi upplýsingar á netfangið sigrak@simnet.is:
Nafn keppanda
Nafn keppanda
Hérað
Fæðingarár
Vegalengd
Gsm símanúmer
Einnig er minnt á sveitakeppnina sem er
í öllum vegalengdum. Í Selárdal er nægur snjór og ágætis aðstæður eins og
staðan er í dag. Hægt er að hringja í Rósmund í s. 892-1048 eða Ragnar í s. 893-3592 til að fá
nánari upplýsingar.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
12.03.2012 08:51
Júlíana og Eysteinn héraðsmeistarar í badminton
Héraðsmót HSS í badminton fór fram í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík sl. laugardag. Frábær þátttaka var í mótinu, en 12 tveggja manna lið tóku þátt. Spilað var í opnum flokki þar sem ekki var tekið mið af kynja- eða aldursskiptingu. Fjöldi fólks kíkti við og horfði á og spilagleðin var sannarlega í fyrirrúmi - þó alvaran og keppnisskapið kraumaði undir yfirborðinu.
Liðin spiluðu í tveimur riðlum, eina lotu upp í 21 stig. Tvö efstu liðin úr hvorum riðli mættust síðan í úrslitaleikjum um brons, silfur og gull. Að lokum stóðu Júlíana Ágústsdóttir og Eysteinn Gunnarsson uppi sem sigurvegarar eftir bráðspennandi úrslitaleik við Jóhönnu Ragnarsdóttur og Hrafnhildi Þorsteinsdóttur. Þau eru því héraðsmeistarar í badminton árið 2012.
Hér eru öll úrslit mótsins:
Riðill 1 | |||
Hanna/Hrafnh. | 21 | 4 | Agnar/Hildur |
Bjarki/Inga | 21 | 14 | Jón Örn/Árný |
Svanh./Jón | 21 | 17 | Kolli/Billa |
Hanna/Hrafnh. | 21 | 16 | Bjarki/Inga |
Jón Örn/Árný | 21 | 10 | Agnar/Hildur |
Bjarki/Inga | 21 | 15 | Svanh./Jón |
Hanna/Hrafnh. | 21 | 12 | Kolli/Billa |
Svanh./Jón | 21 | 4 | Agnar/Hildur |
Bjarki/Inga | 21 | 5 | Agnar/Hildur |
Jón Örn/Árný | 21 | 14 | Kolli/Billa |
Hanna/Hrafnh. | 21 | 19 | Svanh./Jón |
Kolli/Billa | 21 | 8 | Agnar/Hildur |
Hanna/Hrafnh. | 21 | 16 | Jón Örn/Árný |
Svanh./Jón | 21 | 16 | Jón Örn/Árný |
Bjarki/Inga | 21 | 12 | Kolli/Billa |
Lokastaða riðill 1 | U | T | |
1. Hanna/Hrafnh. | 5 | 0 | |
2. Bjarki/Inga | 4 | 1 | |
3. Svanh./Jón | 3 | 2 | |
4. Jón Örn/Árný | 2 | 3 | |
5. Kolli/Billa | 1 | 4 | |
6. Agnar/Hildur | 0 | 5 |
Riðill 2 | |||
Óli/Benni | 21 | 10 | Sigfús/Arnór |
Bryndís/Jensína | 21 | 14 | Steini/Jóhanna |
Signý/Björk | 21 | 16 | Júlla/Eysteinn |
Júlla/Eysteinn | 21 | 11 | Steini/Jóhanna |
Bryndís/Jensína | 21 | 11 | Óli/Benni |
Signý/Björk | 21 | 6 | Sigfús/Arnór |
Júlla/Eysteinn | 21 | 9 | Óli/Benni |
Bryndís/Jensína | 21 | 13 | Sigfús/Arnór |
Signý/Björk | 21 | 8 | Steini/Jóhanna |
Júlla/Eysteinn | 21 | 14 | Sigfús/Arnór |
Óli/Benni | 21 | 19 | Steini/Jóhanna |
Bryndís/Jensína | 21 | 15 | Signý/Björk |
Steini/Jóhanna | 21 | 8 | Sigfús/Arnór |
Signý/Björk | 21 | 17 | Óli/Benni |
Júlla/Eysteinn | 21 | 7 | Bryndís/Jensína |
Lokastaða riðill 2 | U | T | |
1. Júlla/Eysteinn | 4 | 1 | (84-41) í sigurl. |
2. Signý/Björk | 4 | 1 | (84-47) í sigurl. |
3. Bryndís/Jensína | 4 | 1 | (84-53) í sigurl. |
4. Óli/Benni | 2 | 3 | |
5. Steini/Jóhanna | 1 | 4 | |
6. Sigfús/Arnór | 0 | 5 |
Spilað um 3. sætið | |||
Bjarki/Inga | 21 | 18 | Signý/Björk |
Úrslitaleikur | |||
Júlla/Eysteinn | 21 | 19 | Hanna/Hrafnh. |
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
08.03.2012 13:33
Badmintonmóti flýtt til kl. 13:00
Vegna geysigóðrar þátttöku á héraðsmóti HSS í badminton á laugardaginn 10. mars, hefur mótinu verið flýtt um tvo klukkutíma.
Mótið hefst því kl. 13:00 á laugardaginn, ekki kl. þrjú eins og áður var auglýst! Mótið fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík og hægt er skrá sig þar eða með því að senda tölvupóst í netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
06.03.2012 09:48
Myndir frá Ungdomsvasa
HSS-vefurinn fékk skemmtilega sendingu frá Svíþjóð nú um helgina, en þar
hafa félagar úr Skíðafélagi Strandamanna verið við skíðagöngur og keppni, eins
og margoft hefur komið fram hér á vefnum. Unga fólkið í ferðinni, Númi Leó
Rósmundsson og Branddís Ösp og Stefán Snær Ragnarsbörn, kepptu í UngdomsVasa snemma í ferðinni og
náðu þar prýðisgóðum árangri. Hér fyrir neðan gefur að líta smá sýnishorn af
góðu veðri og glöðum Strandakrökkum á skíðum.
F.v. Stefán Snær, Númi Leó og Branddís Ösp áður en lagt var upp í UngdomsVasa.

Stefán Snær Ragnarsson í startholunum í UngdomsVasa.
Glaðir og ánægðir Strandamenn eftir vel heppnaða göngu.
Branddís og Númi í hvíldarstöðu.
SkautaVasa startað, þar var Númi Leó Rósmundsson einn af keppendum.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
06.03.2012 09:11
Strandamenn rúlluðu upp Vasa-göngunni
Nú hafa allir keppendur af Ströndum lokið skíðagöngum í Svíþjóð, en þar fór
hin eina og sanna Vasaganga fram á sunnudaginn. Eins og skýrst hefur verið frá
hér á vefnum hefur okkar fólk náð úrvals árangri undanfarna viku. Á því varð
engin breyting um helgina.
Á föstudaginn tók Númi Leó Rósmundsson þátt í SkejtVasa, en það er 30 km
löng ganga með frjálsri aðferð frá Oxberg til Mora. Númi stóð sig afskaplega
vel, gekk kílómetrana þrjátíu á 1:38:54 og lenti í 114. sæti af 228 keppendum.
Ekki var keppt í aldursflokki Núma í keppninni þar sem yngsti aldursflokkurinn
var 17-18 ára.
Á sunnudaginn fór síðan Vasagangan fram, en í henni eru gengnir 90
kílómetrar. Gangan er því mikil þolraun, en okkar menn gerðu engu að síður
frábæra hluti. Rósmundur Númason gekk sína fjórðu Vasagöngu og lauk henni á
tímanum 6:54:57, en það er hans langbesti tími í göngunni til þessa. Rósmundur
varð í 364. sæti í sínum aldursflokki, en þar luku alls 878 manns keppni. Ragnar
Bragason gekk Vasagönguna í annað skipti og bætti sinn fyrri tíma umtalsvert.
Ragnar lauk keppni á tímanum 6:08:09 og var í 783. sæti í sínum aldursflokki, en
þar kepptu hvorki fleiri né færri en 1.730 manns - þar á meðal sigurvegari
keppninar í ár, Jörgen Brink hinn sænski sem nú sigraði þriðja árið í röð.
Héraðssambandið óskar göngufólkinu okkar innilega til hamingju með frábæran
árangur og minnir jafnframt á Strandagönguna sem fer fram laugardaginn 17. mars
nk.
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
01.03.2012 13:44
Héraðsmót í badminton laugardaginn 10. mars
Héraðsmót HSS í badminton verður haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík
laugardaginn 10. mars. Mótið hefst kl. 15:00. Keppt verður í tvíliðaleik í opnum flokki (ekki
skipt í kyn eða aldursflokka). Mótið er ætlað keppendum 14 ára og eldri og
þátttökugjald er kr. 500.- pr. mann. Verðlaun verða veitt fyrir efstu sætin, en
megináhersla mótsins snýst að sjálfsögðu um spilagleði og skemmtan!
Skráningarblað liggur frammi í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík, en einnig er
hægt að skrá sig hjá Arnari með því að senda póst í netfangið
tomstundafulltrui@strandabyggd.is.
Allir að taka þátt og vera með - því það er svo gaman!
Skrifað af Arnar Snæberg Jónsson
- 1
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 335
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 181915
Samtals gestir: 21670
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 05:07:25