Færslur: 2014 Febrúar
26.02.2014 15:29
Badmintonmót á Góu
Nú líður að árlegu badmintonmóti á Góu.
Mótið verður í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík laugardaginn 1. mars. Keppni hefst klukkan 14:00, ekkert skráningargjald er en greiða þarf 700 kr. fyrir aðgang að sal áður en keppni hefst, keppendur undir 18 ára greiða 100 krónur.
Hægt er að skrá sig á staðnum eða með því að senda tölvupóst á tomstundafulltrui@strandabyggd.is
Skráningarblað liggur einnig frammi í Íþróttamiðstöðinni.
Fjölmennum á þetta skemmtilega mót og hristum af okkur þorrann.
26.02.2014 15:21
SamVest æfing 6. apríl
SamVest-samæfing í frjálsum, Laugardalshöll 6. apríl 2014
Kynning til iðkenda og foreldra
Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF boða til samæfingar fyrir iðkendur sína.
Æfingin fer fram í Frjálsíþróttahöllinni Laugardal,, sunnudaginn 6 apríl . kl. 12.00 - 14.30.
- Æfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu
- Nánari upplýsingar síðar
Kæru iðkendur og foreldrar!
Endilega fjölmennum - gaman saman, í frjálsum!
Gott væri að vita hverjir mætra, t.d. með því að láta vita inná Facebook síðu SamVest-samstarfsins sem allir SamVest-liðar geta fengið aðgang að.
Með frjálsíþróttakveðju,
SAMVEST-samstarfið
Febrúar 2014
20.02.2014 09:10
Fréttir frá ÍSÍ
Fréttapunktar frá ÍSÍ
Íþróttaþing ÍSÍ
Íþróttaþing ÍSÍ fór fram á Icelandair Hótel Reykjavík Natura dagana 19.-20. apríl 2013. Ólafur E. Rafnsson var endurkjörinn forseti sambandsins. Aðrir í stjórn voru kjörnir Gunnar Bragason, Lárus L. Blöndal, Sigríður Jónsdóttir, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Friðrik Einarsson, Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir, Garðar Svansson, Hafsteinn Pálsson, Örn Andrésson og Jón Gestur Viggósson. Í varastjórn voru kjörnir Ingi Þór Ágústsson, Guðmundur Á. Ingvarsson og Gunnlaugur Júlíusson.
Forsetaskipti
Þann 19. júní 2013 varð Ólafur E. Rafnsson forseti ÍSÍ bráðkvaddur í Sviss, þar sem hann sinnti embættisstörfum sem forseti FIBA Europe. Skyndilegt fráfall hans var mikið áfall fyrir ÍSÍ og alla íþróttahreyfinguna en mestur er þó missir eiginkonu hans og barna. Útför Ólafs fór fram frá Hallgrímskirkju þann 4. júlí að viðstöddu fjölmenni. Íþróttafólk sérsambanda ÍSÍ stóð heiðursvörð fyrir utan kirkjuna á meðan kistan var borin út.
Við fráfall Ólafs tók Lárus L. Blöndal varaforseti við embætti forseta ÍSÍ, eins og lög ÍSÍ kveða á um og Ingi Þór Ágústsson 1. varamaður tók sæti í stjórninni.
Heiðurshöll ÍSÍ
Árið 2013 voru fjórir útnefndir í Heiðurshöll ÍSÍ. Á 71. Íþróttaþingi ÍSÍ í aprílmánuði voru Sigurjón Pétursson frá Álafossi, Jóhannes Jósefsson og Albert Guðmundsson útnefndir og á hófi Íþróttamanns ársins í desember 2013 var Kristín Rós Hákonardóttir útnefnd.
Ferðasjóður íþróttafélaga
Til úthlutunar í Ferðasjóði íþróttafélaga vegna ferða á árinu 2013 voru 67 m.kr. Stuðningur ríkisins vegna ferðakostnaðar íþrótta- og ungmennafélaga á landsvísu hefur haft gríðarlega mikið að segja fyrir alla hreyfinguna. Standa þarf vörð um þetta stóra hagsmunamál hreyfingarinnar og tryggja áframhaldandi framlag ríkisins til sjóðsins. Núverandi ríkisstjórn hækkaði framlag til sjóðsins á Fjárlögum Alþingis 2014 um 15 m.kr. og verður því framlag í sjóðinn vegna ársins 2014 samtals 85 m.kr.
Fjármögnun sérsamband
Árið 2006 var skrifað undir samning við ríkisvaldið um styrkveitingar til sérsambanda ÍSÍ. Upphæð styrksins var 40 m.kr. á árinu 2007, 60 m.kr. á árinu 2008, 70 m.kr. árið 2009, 63,7 m.kr. árið 2010, 61,8 m.kr. fyrir árið 2011, 60,5 m.kr. fyrir árið 2012 og 70 m.kr. fyrir árið 2013. Framlag fyrir árið 2014 verður 85 m. króna.
Samningar við Ólympíufjölskylduna
Þann 28. desember 2013 voru undirritaðir samstarfssamningar á milli ÍSÍ og þeirra fjögurra fyrirtækja sem staðið hafa að Ólympíufjölskyldu ÍSÍ undanfarin ár. Það eru fyrirtækin Icelandair, Íslandsbanki, Sjóvá og Valitor. Hafa þau öll samþykkt að vera samstarfsaðilar ÍSÍ fram yfir Ólympíuleikana í Ríó árið 2016.Stuðningur fyrirtækjanna er afar mikilvægur en fyrirtækin koma á ýmsan hátt að verkefnum ÍSÍ, bæði almenningsíþróttaverkefnum og afreksíþróttastarfi.
Heimasíða ÍSÍ
Slóðin á heimasíðu ÍSÍ er sem fyrr www.isi.is og er þar að finna ýmsan hagnýtan fróðleik um ÍSÍ og sambandsaðila þess, auk fræðsluefnis af ýmsum toga, frétta og tilkynninga um viðburði í hreyfingunni. ÍSÍ er einnig með Fésbókarsíðu.
Felix - tölvukerfi ÍSÍ og UMFÍ
Felix - tölvukerfi ÍSÍ og UMFÍ heldur utan um tölfræði íþróttahreyfingarinnar en er einnig gott stjórntæki fyrir félög og deildir til að halda utan um iðkendur og stjórnir.
Þjálfaramenntun
Fjarnám ÍSÍ um 1. stig þjálfaramenntunar hefur slegið í gegn og er orðið helsta form þjálfaramenntunar ÍSÍ á landsvísu. Bæði 1. og 2. stig ÍSÍ hafa verið í boði þrisvar á ári, vorönn, sumarönn og haustönn.Vinna við gerð námsefnis fyrir 3. stig þjálfaramenntunar er langt komin og er hún m.a. unnin í samvinnu við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Undirbúningsvinna fyrir þjálfaramenntun 4. og 5. stigs sem er á háskólastigi er þegar hafin.
Fyrirmyndarfélag ÍSÍ
Fyrirmyndarfélög og fyrirmyndardeildir ÍSÍ eru um 120 talsins. Sérsambönd, íþróttabandalög og héraðssambönd eru hvött til að leggja sitt af mörkum til að efla verkefnið og styðja félög sem stefna vilja að þessari gæðaviðurkenningu.
Forvarnardagur forseta Íslands
ÍSÍ kemur að skipulagningu og framkvæmd Forvarnardags forseta Íslands, ásamt UMFÍ, Bandalagi íslenskra skáta, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Háskólanum í Reykjavík.
Fræðsluefni ÍSÍ
ÍSÍ hefur gefið út fjölbreytt fræðsluefni um ýmsa þætti sem snúa að íþróttum og íþróttaþátttöku. Þetta efni má nálgast á heimasíðunni og í útprentuðum bæklingum sem nálgast má á skrifstofunni. Á heimasíðunni er einnig að finna annað efni sem snýr að forvörnum, siðareglur, viðbragðsáætlun við óvæntum atburðum og fræðslu tengda Ólympíuhreyfingunni, svo að eitthvað sé nefnt.
ÍSÍ stendur fyrir ýmsum fræðsluviðburðum og ráðstefnum á hverju ári.
Íþróttaslysasjóður
Iðkendur og keppendur innan vébanda ÍSÍ geta sótt um 40% endurgreiðslu á hluta af kostnaðarhluta sjúklings vegna lækniskostnaðs og kostnaðs vegna sjúkraþjálfunar vegna slysa sem þeir verða fyrir á æfingum og í keppni á vegum íþrótta- og ungmennafélaga innan ÍSÍ. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu ÍSÍ.
Ólympísk verkefni
Á árinu 2014 sendir ÍSÍ þátttakendur í tvö ólympísk verkefni; Vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi og Sumarólympíuleika ungmenna í Nanjing í Kína.
Ólympíudagurinn - árlegur viðburður
Alþjóðlegi Ólympíudagurinn er haldinn hátíðlegur um allan heim 23. júní, ár hvert. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands skipulagði í samstarfi við sambands- og samstarfsaðila sína heila viku af íþróttatengdum viðburðum, "Ólympíuviku ÍSÍ". Sambandsaðilar ÍSÍ buðu upp á íþróttakynningar fyrir börn sem voru þátttakendur á sumarnámskeiðum vikuna 24. -28. júní. Í boði voru keilubrautir, skylmingar, kynning á frjálsíþróttum, hafnabolti, heimsóknir á landsliðsæfingar kvennalandsliðsins í knattspyrnu o.fl. Auk þess heimsóttu Ólympíufarar ÍSÍ íþróttafélög og frístundaheimili. Frekari upplýsingar og fróðleik má finna á heimasíðu Ólympíudagsins á www.olympiuleikar.com.
Úthlutun styrkja
Á árinu 2013 úthlutaði Afrekssjóður ríflega 85 m.kr. og Styrktarsjóður ungra og efnilegra úhlutaði 10 m.kr.
Verkefnasjóður ÍSÍ úthlutar styrkjum til fræðslu- og útbreiðsluverkefna ásamt þjálfarastyrkjum til einstaklinga.
Almenningsíþróttir
Mikil þátttökuaukning hefur átt sér stað í almenningsíþróttaverkefnum ÍSÍ og þátttökumet verið slegin á ári hverju.
"Lífshlaupið - landskeppni í hreyfingu", er heilsu- og hvatningarverkefni sem er í gangi allt árið en sérstakt átak er í febrúarmánuði, það er vinnustaðakeppni sem stendur yfir í þrjár vikur eða frá 5.-25. febrúar og grunnskólakeppni sem stendur yfir í tvær vikur eða frá 5.-18. febrúar. Framhaldsskólakeppni Lífshlaupsins fór fram 3. - 16. október 2013.
Hjólað í vinnuna stendur yfir í þrjár vikur eða frá 7. - 27. maí nk.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram í 25. sinn 14. júní 2014.
Hjólað í skólann er haldið í september 2014.
Göngum í skólann er haldið 3. sept -1. okt. 2014.
Hreyfitorg er nýtt verkefni sem fór í loftið í september 2013. Hreyfitorg er gagnvirk vefsíða sem er ætlað að stuðla að aukinni hreyfingu landsmanna. Hlutverk vefsins er að brúa bilið á milli þeirra sem leita eftir þjónustu fyrir sig eða aðra (notenda) og þeirra sem standa fyrir hreyfitilboðum (þjónustuaðila). Kynntu þér málið á www.hreyfitorg.is.
Sjálfboðaliðavefurinn "Allir sem einn" er nýr vefur sem var tekinn í notkun á síðasta Íþróttaþingi ÍSÍ. Megin markmið með sjálfboðaliðavefnum er að skapa vettvang fyrir sjálfboðaliða til þess að halda utan um sitt framlag hvort sem það er unnið í þágu íþróttahéraða, sérsambanda, félagsliða eða ÍSÍ. Einnig er markmiðið að fá yfirsýn yfir það fjölbreytta starf sem sjálfboðaliðar vinna innan íþróttahreyfingarinnar. Slóðin á vefinn er www.isi.is/sjalfboðaliðavefur.
Íþróttamiðstöðin í Laugardal
Í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal eru höfuðstöðvar ÍSÍ og sérsambanda ÍSÍ, ásamt ÍBR, UMSK og fyrirtækja íþróttahreyfingarinnar, Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna.
Í Íþróttamiðstöðinni er kaffitería, sem er hjarta miðstöðvarinnar, en þar er einnig góð aðstaða til fundarhalda. ÍSÍ hvetur sambandsaðila sína að heimsækja miðstöðina við tækifæri og kynna sér starfsemina.
Lyfjamál
Alls voru tekin 89 sýni á árinu 2013, þar af 46 sýni í keppni eða 52%. Lyfjapróf voru tekin í 15 íþróttagreinum. Fjögur sýni reyndust jákvæð á árinu. Auk þessara sýna tók Lyfjaeftirlitsnefnd 17 sýni fyrir aðra. Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ stendur fyrir námskeiðum og fjölbreyttri fræðslu í tengslum við málaflokkinn. Frekari upplýsingar um lyfjaeftirlit er að finna á lyfjaeftirlitsvef ÍSÍ, www.lyfjaeftirlit.is.
Starfsskýrslur ÍSÍ
Sambandsaðilar eru minntir á að skila þarf starfsskýrslum til ÍSÍ fyrir starfsárið 2013 fyrir 15. apríl nk. Búið er að opna fyrir skilin á www.felix.is.
Aðstoð er veitt á skrifstofu ÍSÍ vegna skila á starfsskýrslum.
Smáþjóðaleikarnir á Íslandi 2015
Sextándu Smáþjóðaleikarnir verða haldnir á Íslandi 1.-6. júní 2015 og verður það í annað sinn sem leikarnir verðua haldnir hér á landi. Á leikunum etja níu smáþjóðir kappi; Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marinó og Svartfjallaland. Gert er ráð fyrir því að heildarfjöldi keppenda verði um 800 en reikna má með 1.500 erlendum þátttakendum, að meðtöldu fylgdarfólki. Keppt verður í 11 íþróttagreinum og fer keppni í þeim að mestu fram í Laugardalnum. Áætluð þörf sjálfboðaliða er ríflega 1.200 manns en skráning sjálfboðaliða til verkefnisins hefst í aprílmánuði 2014. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með á heimasíðu leikanna www.iceland2015.is og skrá sig til þátttöku í þessu spennandi verkefni.
Íþróttakonur og íþróttamenn ársins 2013
Þann 28. desember 2013 hélt ÍSÍ hóf sitt, þar sem val sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ á íþróttakonum og íþróttamönnum ársins 2013 var tilkynnt, í Gullhömrum í Grafarholti. Við sama tækifæri var kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins 2013 lýst.
18.02.2014 11:17
Sigur á Goðamóti
Um síðustu helgi gerðu ungir Strandamenn góða ferð til Akureyrar þar sem Goðamótið í knattspyrnu fór fram. Um var að ræða 5. flokk drengja í Geislanum. Gerði Geislinn sér lítið fyrir og sigraði alla leiki sína og unnu drengirnir þar með sinn riðil með glæsibrag. Þjálfari liðsins er Eiríkur Valdimarsson en á mótinu var Trausti Rafn Björnsson nemandi í 9. bekk Grunnskólans á Hólmavík þeim innan handar, en hann vakti athygli fyrir snyrtilegan klæðnað og flotta framkomu á mótinu.
Ljóst er að framtíðin er björt hjá knattspyrnuliði Geislans!
Hægt er að nálgast myndir hér:
http://mot.thorsport.is/mot/SkodaAlbum.aspx?ID=76&CI=0&pagesize=20#!prettyPhoto
18.02.2014 09:54
Skíðagöngunámskeið
Skíðagöngunámskeið
Skíðafélag
Strandamanna auglýsir skíðagöngunámskeið fyrir almenning næstu helgar fram að
Strandagöngu sem haldin verður 15. mars.
Fyrsta námskeiðið verður haldið laugardaginn
22. Febrúar kl. 15 í Selárdal. Yfirleiðbeinandi á námskeiðinu verður hinn
fimmfaldi Vasafari Rósmundur Númason.
Möguleiki verður á að fá lánaðan skíðaútbúnað (skíði, stafi og skó) á
námskeiðinu en þá þarf að hafa samband við Rósmund áður. Kennd verða undirstöðuatriði í hefðbundinni
skíðagöngu. Rósmundur tekur við
skráningum á námskeiðin í síma 8921048 eða á facebook. Hægt er að mæta á öll námskeiðin eða einungis
eitt skipti. Námskeiðin verða á eftirtöldum dögum:
Laugardagurinn 22.
Febrúar kl. 15
Laugardagurinn 1. Mars
kl. 14
Laugardagurinn 8. Mars
kl. 15
Tímasetningar
geta breyst ef veður er óhagstætt og eru þá sunnudagar til vara. Nánari upplýsingar verða á heimasíðu
Skíðafélags Strandamanna skidafelag.123.is
12.02.2014 11:33
Samvest æfing um helgina
Samæfing í frjálsum íþróttum
SamVest og KR í Laugardalshöll 16. febrúar 2014 Kynning til iðkenda og foreldra
Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF (SamVest samstarfið) - í samstarfi við frjálsíþróttadeild KR - boða til samæfingar í frjálsum íþróttum fyrir iðkendur sína.
Æfingin fer fram í Laugardalshöllinni, Reykjavík, sunnud. 16. febrúar 2014 frá kl. 11.00 - 14.00.
Eftirfarandi er ákveðið með æfinguna:
· Vegna samstarfsins við KR og fyrirkomulagsins nú, er þessi æfing fyrir iðkendur frá 9 ára aldri
o 10 ára (árgangur 2004) og eldri fara í aldursskiptar æfingastöðvar (sjá hér síðar)
o 9 ára (árg. 2005) verða í sérstökum hópi með sérdagskrá að hluta, frá kl. 11-13.
· Áhersla er á eftirtaldar greinar - og þjálfarar í þeim verða:
o Umsjón: Kristín Halla Haraldsdóttir, þjálfari UMFG, Grundarfirði
o Yngri hópur, 9 ára - blandaðar æfingar: Þórunn Sigurðardóttir KR, Axel Sigurðsson UMSB og Halldór Lárusson UMSK - eftir fjölda þátttakenda og þörfum.
o Langstökk: gestaþjálfari Hlynur Guðmundsson, yfirþjálfari, Aftureldingu Mosfellsbæ.
o Kúluvarp fyrir alla og kringlukast fyrir þau sem vilja, innan hvers aldurshóps:
gestaþjálfari Jón Bjarni Bragason, umsjónarþjálfari yngri flokka og kastþjálfari hjá Breiðabliki og Kristín Halla Haraldsdóttir, UMFG.
o Grindahlaup og boðhlaup: Rakel Gylfadóttir, yfirþjálfari, KR.
o Lengri hlaup og 200 m hlaup með tímamælingu fyrir þau sem vilja:
Sveinn Margeirsson, KR.
· Yngsti hópurinn, 9 ára, lýkur æfingu kl. 13. Eftir æfingu, uppúr kl. 14, ætlum við að borða saman í húsnæði ÍSÍ (í göngufæri). Verð 1150 kr. fyrir börn og 1450 kr. fyrir 15 ára og eldri.
· Æfingin er þátttakendum að kostnaðarlausu - létt hressing/nesti meðan á æfingu stendur er í boði SamVest og KR - en matur eftir æfingu greiðist af hverjum þátttakanda fyrir sig.
Kæru iðkendur og foreldrar!
Endilega fjölmennum - gaman saman, í frjálsum!
Við þurfum að vita hverjir koma á æfinguna og hverjir verða í mat. Endilega látið vita um mætingu inná Facebook síðu SamVest-samstarfsins, sem allir SamVest-liðar geta fengið aðgang að, eða í netfangið samvestsamstarfid@gmail.com fyrir hádegi föstud. 14. feb. KR-ingar láta sína þjálfara vita.
Með frjálsíþróttakveðju,
Framkvæmdaráð SamVest hópsins og frjálsíþróttadeild KR
12.02.2014 11:30
Öldungaráð FRÍ
Eldri & reyndari Frjálsíþróttamenn & hlauparar
Öldungaráð Frjálsíþróttasambands Íslands vill vekja athygli á starfsemi öldungaráðs og keppnum í flokkum eldri iðkenda á árinu 2014. Einstaklingar verða gjaldgengir í keppni í öldungaflokkum (masters); konur við 30 ára aldur en karlar við 35 ára aldur. Þegar flokkaskipting er ákvörðuð er miðað við fæðingardaginn.
Þau mót sem eru á döfinni hérlendis eru eftirfarandi:
Meistaramót Íslands, innahúss: Laugardalshöll, fyrir hádegi 22. og 23. febrúar*
Landsmót 50 ára og eldri: Húsavík, 21. - 22. júní
Meistaramót Íslands, utanhúss: Óstaðsett, 19. - 20. júlí*
Meistaramót Íslands, í lengri brautarhlaupum** Hafnarfjörður, 10. / 11. september
* Hægt er að skrá sig á staðnum
** Konur 5000m, karlar 10000m
Allir, frjálsíþróttamenn eða götuhlauparar, reyndir og óreyndir, eru velkomnir á þessi mót, þrátt fyrir að vera ekki skráður í tiltekið félag eða héraðssamband og má þá skrá sig til keppni á staðnum.
Á erlendum vetvangi eru eftirfarandi mót á dagskránni en á hverju ári fara Íslendingar til keppni á þessum stórmótum.
Norðurlandameistaramótið innanhúss Haugasund , Noregi, 7. - 9. mars
Heimsmeistaramótið innanhúss Budapest, Ungverjaland, 25. - 30. mars
Evrópumeistaramótið utanhúss Izmir, Tyrklandi, 22. - 31. ágúst
Öldungaráð hvetur áhugasama til að hafa samband við formann öldungaráðs Trausta Sveinbjörnsson tera@simnet.is eða neðangreind, vegna nánari upplýsinga um starfsemi öldungaráðs og málefni því tengdu. Nánari upplýsingar um starfsemi Frjálsíþróttasambands Íslands má finna á www.fri.is og upplýsingar um mót má finna á www.fri.is / mót
Öldungaráð Frjálsíþróttasambands Íslands
Trausti Sveinbjörnsson, formaður
Friðrik Þór Óskarsson, meðstjórnandi
Fríða Rún Þórðardóttir, ritari
Hafsteinn Óskarsson, varaformaður
Jón Bjarni Bragason, meðstjórnandi
Óskar Hlynsson, gjaldkeri, umsjón með vef
11.02.2014 09:22
Samvest samæfing 16. febrúar
Fyrirhuguð er SamVest-samæfing í frjálsum í Laugardalshöll, sunnudaginn 16. febrúar nk.
Höllin er stór og leyfir margar æfingastöðvar - margar greinar sem hægt er að þjálfa í einu. Við munum skipta krökkunum í hópa eftir aldri.
Af starfssvæði okkar koma a.m.k. 2-3 þjálfarar á æfinguna, við höfum fengið 2 gestaþjálfara og svo mætir KR með 3 þjálfara á sínum vegum.
07.02.2014 09:35
Fundarhöld
Nóg er um að vera í íþrótta- og ungmennafélagsstarfi á Ströndum.
Síðastliðinn miðvikudag funduðu forsvarsmenn íþróttafélaga og héraðssambandsins með fulltrúum sveitafélagsins um fyrirhugaða byggingu íþróttavallar við Íþróttamiðstöðina á Hólmavík og nú er allt komið á fullt í að kanna möguleika og kostnað þessa metnaðarfulla og þarfa verkefnis.
Í gær, fimmtudag, heimsóttu Jón Kristján og Ómar Bragi, starfsmenn UMFÍ, stjórn HSS sem átti með þeim góðan fund um stefnu og strauma ungmennahreyfingarinnar. Að því loknu var súpufundur með UMFÍ og áhugasömu og stórhuga fólki á Café Riis.
Það er gefur sannarlega byr undir báða vængi þegar allur þessi fjöldi metnaðarfullra einstaklinga hittist og ber saman bækur sínar. Á Ströndum ríkir mikill áhugi fyrir uppbyggingu öflugs íþróttastarfs og með því að vinna saman í þeim anda tekst okkur að vinna þrekvirki.
07.02.2014 09:34
Skíðaæfingar
Skíðaæfingar
Skíðagönguæfingar hjá Skíðafélagi Strandamanna eru hafnar. Allir eru velkomnir á æfingarnar, en á æfingunum er mikil áhersla lögð á skemmtilega skíðaleiki ásamt því að við æfum skíðagöngu bæði með hefðbundinni aðferð og frjálsri aðferð. Einnig verða í vetur sérstakar þemaæfingar t.d. furðufataæfing í tengslum við öskudaginn, leikjahátíð, vinaæfing, fjölskyldudagur, óbyggðaferðir og hápunkturinn er að fara á Andrésar-andarleikana á Akureyri seinnipartinn í apríl. Nánari upplýsingar um æfingar og starf Skíðafélags Strandamanna eru á heimasíðu félagsins skidafelag.123.is
Æfingatímar:
Miðvikudagar kl. 17.30-18.30
Föstudagar kl. 17-18.30
Sunnudagar kl. 14-15.30
05.02.2014 20:57
Fundur á Hólmavík með stjórn HSS.
04.02.2014 11:08
Sigrar á nýju ári
Ýmis afrek hafa unnist af íþróttafólki í Héraðssambandi Strandamanna á þessu ári, jafnvel þótt glænýtt sé.
Á Unglingameistaramóti Ísland í frjálsum íþróttum í janúar kepptu bæði Jamison Ólafur og Trausti Rafn en Jamison hlaut silfurverðlaun í 800 metra hlaupi í flokki drengja. Á stórmóti ÍR hlaut Jamison sömu verðlaun auk bronsverðlauna í þrístökki, grein sem hann hafði aldrei prufað áður. Á sama móti kepptu Bríanna og Friðrik Heiðar og stóðu sig með ágætum.
Fyrsta Íslandsgangan var haldin á Akureyri 25. janúar þar sem Birkir hafnaði í 3. sæti í flokki 35-49 í 24 km göngu en Árný Helga og Stefán Þór Birkisbörn tóku þátt í 4 km göngu. Sunnudaginn 26. janúar var Fjarðargangan haldin á Ólafsfirði þar sem Birkir lenti í 2. sæti í sínum flokki í 20 km göngu og Árný Helga og Stefán Þór tóku þátt í 2,5 km göngu í blíðskapar veðri.
25. janúar fór einnig fram beltapróf í Taekwondo deild Geislans á Hólmavík þar sem fjölmargir spreyttu sig í prófum til að öðlast gula rönd eða gult belti og stóðu sig með stakri prýði.
Tækifærunum til afreka fer ekki fækkandi á næstunni. Að vanda verður badmíntonmót um góuhelgi, borðtennismót á laugardegi um páska, bridsmót 1. maí og héraðsmót á skíðum verður að sjálfsögðu á sínum stað. Strandagangan verður enn fremur í 20. skiptið þann 15. mars. Takið dagana frá og til hamingju með nýtilkomin og tilvonandi afrek!
- 1